Fara í efni

Fréttir

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan
22.07.2004

Margrét Helga Jóhannsdóttir, leikkona, valin bæjarlistamaður Seltjarnarness fyrir árið 2004

Nýr bæjarlistamaður Seltjarnarness var útnefndur þann 10. janúar s.l. í hófi sem haldið var í nýju og glæsilegu húsnæði Bókasafns Seltjarnarness. Fyrir valinu varð Margrét Helga Jóhannsdóttir leikkona sem tekur við nafnbótinni af tónlistarmanninum Bubba Morthens. Margrét Helga sagði m.a. í þakkarræðu sinni að hún liti svo á að ekki væri aðeins verið að heiðra hana heldur einnig þá listgrein sem hún stendur fyrir. Leiklistin hefði á stundum verið hálfgerð hornreka þegar kæmi að viðurkenningum á borð við þessa enda list augnbliksins. Hún þakkaði síðan enn frekar fyrir sig með því að syngja ásamt Jóhönnu Vigdísi Arnardóttur dúett úr söngleiknum Chicago sem frumsýndur verður innan skamms í Borgarleikhúsinu.

22.07.2004

Gróttuviti upplýstur og verðlaunaður

Þann 1. desember sl. voru 125 ár liðin frá því að fyrst var tendrað vitaljós við Íslandsstrendur þegar kveikt var á olíulampa Reykjanessvitans gamla sem löngu er horfinn af sjónarsviðinu. Af því tilefni gekkst Íslenska vitafélagið í samstarfi við Siglingastofnun, Seltjarnarnesbæ og fleiri aðila fyrir flóðlýsingu Gróttuvita. Vitinn þótti henta vel til þessa þar sem um fagra byggingu er að ræða sem stendur í námunda við fjölmenna byggð.

22.07.2004

Mánabrekka fær aðild að Grænfánaverkefninu

Leikskólinn Mánabrekka hefur náð þeim merka áfanga að vera tekinn inn í Grænfánann, en það er umhverfismerki sem nýtur virðingar víða um Evrópu sem tákn um góða fræðslu og umhverfisstefnu í skólum. Mánabrekka er einn örfárra leikskóla í landinu sem hefur náð þessum árangri. Strax í upphafi leikskólans var mörkuð ákveðin umhverfisstefna og markvisst hefur verið unnið að umhverfisfræðslu og umhverfisvernd með börnum og starfsfólki skólans. Skólar sem öðlast rétt til þátttöku í Grænfánaverkefninu þurfa að uppfylla a.m.k. sjö skref til að fá að flagga Grænfánanum.

22.07.2004

Mýrarhúsaskóli fyrsti ASP-skólinn hér á landi

Aðalskrifstofa UNESCO hefur samþykkt að veita Mýrarhúsaskóla aðild að alþjóðlegu samstarfi ASP-skólanna. Þetta gerir skólanum kleift að taka þátt í alþjóðlegu nýbreytnistarfi á sviði menntunar í anda þeirra gilda sem UNESCO stendur fyrir. Jafnframt er gert ráð fyrir að skólinn verði leiðandi fyrir aðra íslenska skóla sem vilja taka upp starf í þessum anda.

22.07.2004

Bókasafnið fær veglega gjöf

Ragna Ingimundardóttir leirlistakona kom færandi hendi á Bókasafn Seltjarnarness skömmu fyrir jól og gaf safninu tvo veglega leirvasa. Þær Pálína Magnúsdóttir bæjarbókavörður og Sólveig Pálsdóttir formaður menningarnefndar voru að vonum ánægðar með gjöfina og kunna Rögnu, sem var bæjarlistamaður Seltjarnarness árið 1998, bestu þakkir fyrir höfðinglega gjöf sem sómir sér afar vel í hinu nýja og glæsilega húsnæði safnsins á Eiðistorgi.

22.07.2004

Jólastemning á Nesinu

Seltjarnarnesbær er óðum að taka á sig jólalegan blæ enda skammt að bíða þess að hátíðin gangi í garð. Í lok nóvember voru skreytingar settar á ljósastaura og gatnamót Suðurstrandar og Nesvegs. Að þessu sinni var aukið við skreytingarnar þannig að nú er Nesvegur skreyttur frá bæjarmörkunum að gatnamótunum. Þaðan taka við skreytingar meðfram Suðurströnd allt að Bakkavör.

22.07.2004

Um 65 milljónir til framkvæmda við skólamannvirki

Í fjárhagsáætlun næsta árs er gert ráð fyrir að í kringum 65 milljónum verði varið til nýfjárfestinga og viðhalds á skólamannvirkjum Seltjarnarnesbæjar. Í áætluninni kemur fram að um 9 milljónum verði varið til viðhalds og framkvæmda við Valhúsaskóla. Meðal annars á að ljúka við anddyri skólans sem reist var í sumar. Einnig á að ljúka við endurnýjun eldri stofa skólans ásamt fleiru. Að loknum þessum framkvæmdum má segja að búið sé að endurnýja allan Valhúsaskóla.

22.07.2004

Jólasýning Fimleikadeildar Gróttu

Árleg jólasýning Fimleikadeildar Gróttu var haldin 13. desember sl. Allir iðkendur félagsins sýndu þar glæsilegar fimleikaæfingar, sem færðar höfðu verið í jólabúning eins og tíðkast á jólasýningum.

22.07.2004

Góð aðsókn að Sögunni í grjóti og gripum

Mikill áhugi hefur verið á sýningu Harðar Páls Stefánssonar sem nú stendur yfir á Bókasafninu á Seltjarnarnesi. Sýningin, er ber nafnið Sagan í grjóti og gripum, opnaði um miðjan mánuðinn og hefur að sögn starfsmanna vakið mikla athygli.

22.07.2004

Geimálfinum dreift í Mýrarhúsaskóla

Félagar úr slysavarnardeild kvenna á Seltjarnarnesi afhentu nemendum í 5. og 6. bekk lífsleikninámsefnið "Geimálfurinn" að gjöf fimmtudaginn 19. feb. sl. Regína Höskuldsdóttir, skólastjóri veitti gjöfinni viðtöku í sal skólans að viðstöddum nemendum.

22.07.2004

Menntamálaráðuneyti staðfestir stjórnvald bæjarstjórnar Seltjarnarness í málefnum grunnskóla.

Menntamálaráðuneytið sendi 16. febrúar sl. frá sér bréf um valdsvið foreldraráðs grunnskóla. Bréfið er svar við ósk foreldraráðs Mýrarhúsaskóla um úrskurð ráðuneytisins um umsagnarrétt ráðsins í tengslum við sameiningu yfirstjórnar grunnskóla Seltjarnarnesbæjar er samþykkt var í bæjarstjórn í október sl. Í svarinu felst að ráðuneytið telur að bæjarstjórn hafi ekki brotið á rétti foreldraráðs, enda sé hlutverk slíkra ráða að vera vettvangur til að koma sjónarmiðum foreldra varðandi innihald og áherslur í starfi skólans og skipulagi skólahalds á framfæri við stjórn skólans. Ráðuneytið segir mikilvægt að gera greinarmun annars vegar á hlutverki og umsagnarrétti foreldraráða um innra starf viðkomandi skóla og hins vegar hlutverki bæjar- og sveitarstjórna sem marka heildarstefnu fyrir rekstur sveitarfélaga og hvernig skipulagi hinna lögbundnu verkefna þeirra skuli háttað. Í bréfinu áréttar ráðuneytið að gildandi grunnskólalög gera ráð fyrir mikilvægu hlutverki foreldraráða við framkvæmd skólahalds en einnig sé óhjákvæmilegt að taka mið af því að ábyrgð á rekstri og framkvæmd grunnskólans liggi hjá bæjar- eða sveitarstjórnum samkvæmt grunnskólalögum.

22.07.2004

Vinna við Nesstofu komin af stað

Skipulagsvinna vegna framkvæmda við lagfæringu Nesstofu er hafin. Frá undirritun samningsins við Þjóðminjasafnið hefur vinnan gengið samkvæmt áætlun og er gert ráð fyrir að hægt verði að hefjast handa snemma í vor.

Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?