Byggð á Seltjarnarnesi er vafalaust frá þjóðveldisöld, en athafna manna í Seltjarnarneshreppi hinum forna er fyrst getið árið 1851. Seltjarnarneshreppur hinn forni náði yfir allt nesið, sem liggur milli Kollafjarðar og Skerjafjarðar og allt til fjalla.
Austasta jörðin var Kópavogur. Elliðaárnar mörkuðu skil við Mosfellssveit. Eyjarnar Örfirisey og Engey voru í Seltjarnarneshreppi árið 1703 og Viðey bættist við seinna. Margar jarðir voru smám saman teknar undir Seltjarnarneshrepp og kom hluti jarðarinnar Reykjavík þar fyrst ásamt Arnarhóli og Örfirisey.
Landamörk milli jarða í Seltjarnarneshreppi hinum forna hafa síðan orðið að mörkum sveitarfélaga og má í því sambandi minna á mörk Reykjavíkur og Seltjarnarneskaupstaðar. Þau munu að verulegu leyti markast af landamerkjadómi, sem dæmdur var um 1600 um mörk Víkur annars vegar og Eiðis og Lambastaða hins vegar.
Fyrsta hreppsnefnd Seltjarnarneshrepps
Fyrsta hreppsnefnd Seltjarnarneshrepps var valin á hreppaskilaþingi í júní 1875. Helstu viðfangsefni hreppsnefndar voru einhvers konar peningamál. Nefndin gerði árlega áætlun um útgjöld hreppsins og jafnaði niður útsvörum til þess að mæta útgjöldum. Helstu útgjaldaliðir var framfærsla ómaga og til þess að spara var ómögunum eins útsvörunum jafnað niður á búendur. Eini starfsmaður hreppsins í fullu starfi fyrstu áratugina eftir 1875 var kennarinn við Mýrarhúsaskóla.
Útgerð
Margir útvegsbændur voru á Seltjarnarnesi og árið 1884 áttu Seltirningar 40 sexæringa og 9 áttæringa, en eiginlegt upphaf þilskipaútgerða hófst 1883-84. Fyrstu þilskipin voru skonnortur og á árunum 1884-85 eignuðust Seltirningar 8 skonnortur.
Árið 1897 er tímamótaár í sögu þilskipaútgerðar á Seltjarnarnesi því þá komu tveir fyrstu enskbyggðu kútterarnir í eigu Nesbúa. Skútu- og þilskipaútgerð frá Seltjarnarnesi náði hámarki 1904. Eftir það fækkaði skipum sem gerð voru út frá Seltjarnarnesi og má segja að árið 1908 hafi verið síðasta árið í sögu skútuútgerðar á Nesinu.
Ástæður þess, að skútuútgerð Seltirninga fékk svo skjótan endi, eru efalaust ýmsar, en stór verslunarfyrirtæki í Reykjavík keyptu skútur Seltirninga og héldu áfram útgerð þeirra. Að lokum skal á það minnst að hafnleysi og annað aðstöðuleysi í landi var útgerð Seltirninga ávallt erfitt og erfiðara eftir því sem skipin urðu stærri.
Viðfangsefni hreppsnefndar Seltjarnarness til 1948
Eitt helsta viðfangsefni hreppsnefndar Seltjarnarness á árunum 1913-31 var að meta hvort Seltirningar ættu að verða aðnjótandi ýmissa gæða, sem nágrannar þeirra í Reykjavík höfðu fengið, þ.e. síma, rafmagns, vatnsveitu og sjúkrasamlags.
Á þessum árum voru þó skólamál eitt helsta viðfangsefni hreppsnefndar. Þrátt fyrir slæma vegi á framnesinu hófust strætisvagnaferðir þangað á árinu 1937. Fór vagn frá Lækjartorgi á hálftíma fresti að Mýrarhúsaskóla og svo nokkrar ferðir á dag fram að Nýjabæjarhliði.
Haustið 1942 kom fram frumvarp á Alþingi um skerðingu Seltjarnarneshrepps vegna þarfa Reykjavíkur fyrir aukið landrými. Var hér um að ræða jarðirnar Elliðavatn, Hólm og spildu úr Vatnsendalandi. Hreppsnefndin mótmælti þessu frumvarpi og fól oddvita að fylgja því eftir. Ekki var tekið tillit til þessara mótmæla og samþykkti Alþingi lög um innlimun þessara jarða í lögsagnarumdæmi Reykjavíkur 14. apríl 1942.
Undir lok seinni heimsstyrjaldarinnar var farið að huga því að gera skipulagsuppdrætti að landi vestan í Valhúsahæð, þ.e. landi Bakka og Bygggarðs. Var þetta land í eigu Neskirkju og skyldi það selt undir íbúðarhús til fjáröflunar fyrir kirkjuna.
Við hreppsnefnda-kosningar árið 1946 fékk listi framfarafélagsins í Kópavogi hreinan meirihluta í hreppsnefnd eða 3 fulltrúa af fimm. Flestir fundir hreppsnefndar þetta Kópavogstímabil voru haldnir á heimili oddvita i Kópavogi. Um sumarið 1947 gengu undirskriftarlistar um Nesið, þar sem farið var fram á skiptingu hreppsins í tvo hreppi. Sýslunefnd Kjósarsýslu var hlynnt skiptingu hreppsins í tvo hreppi og lá stefnumarkandi ákvörðun Félagsmálaráðuneytis um skiptingu í nóvember 1947 sem tók gildi á áramótum sama ár.
Seltjarnarneshreppur hinn nýi
Í ársbyrjun 1948 er hinn nýi Seltjarnarneshreppur orðinn til. Í þessum nýja hreppi bjuggu um 500 manns, flestir í Lambastaðahverfi, einnig allmargir á Framnesinu. Við Tryggvastaðabraut, sem nú heitir Lindarbraut, voru komin nokkur hús, þar sem búið var allt árið.
Hinn 29. mars 1974 voru síðan samþykkt lög frá Alþingi um kaupstaðarréttindi Seltjarnarness og skyldi hreppsnefnd stýra kaupstaðnum til bráðabirgða, þar til bæjarstjórn hefði verið kosin.
Formlegur stofndagur kaupstaðarins taldist undirskriftardagur laganna sem var 9. apríl 1974. Þegar Seltjarnarnes fékk kaupstaðarréttindi voru íbúar tæplega 2500. Var nú einkum byggt í Strandahverfi, Neshverfi og á Melhúsatúni.
Fyrsta meiriháttar framkvæmd Seltjarnarness sem bæjarfélags var að ljúka byggingu Valhúsaskóla, en hann var tekinn í notkun haustið 1975. Bæjarstjórnarkosningar fóru í fyrsta sinn fram á Seltjarnarnesi 26. maí 1974 og voru kosnir 7 fulltrúar.
Landstærð Seltjarnarneskaupstaðar er um 160-170 hektarar og íbúar um 4.537 (Bráðabirgðatölur þann 01.07.2004).
Byggt er á eftirfarandi heimild: Heimir Þorleifsson; Seltirningabók 1991.
Myndir: Pétur Brynjólfsson, Björn Ólafs, Gunnar Vigfússon.