Ný heimasíða Seltjarnarnesbæjar í loftið á fullveldisdegi Íslendinga þann 1. desember 2022.
Mikil tímamót
Þau eru langþráð tímamótin sem eru runnin upp nú þegar að nýr vefur Seltjarnarnesbæjar er kominn í loftið. Nýr vefur leysir þar með af hólmi gamla vef bæjarins sem hefur staðið sína plikt með sóma frá árinu 2003. Tímarnir hafa hins vegar breyst, þróunin verið hröð og gamli vefurinn var löngu orðinn barn síns tíma. Nýr vefur tekur mið af þróuninni ekki síst hvað varðar breyttar þarfir notenda, snjallvæðingu og léttari ásýnd. Opnun á þessum aðal vef bæjarins er fyrsti áfanginn í opnun á endurnýjuðum vefsvæðum fyrir stofnanir bæjarins.
Það er gríðarlega umfangsmikið og tímafrekt verkefni að smíða og efnisvinna nýjan vef fyrir heilt sveitarfélag. Vinnan við þennan vef hófst í lok árs 2019 þegar að unnin var umfangsmikil þarfagreining þar sem að hagsmunaaðilar úr öllum áttum voru fengnir til að leggja hönd á plóg í undirbúningsvinnunni. Þetta voru t.d. fulltrúar frá bæjarskrifstofunni, frá öllum stofnunum bæjarins, bæjarfulltrúar og hópur íbúa. Aðkoma allra var afar mikilvæg og niðurstaða þarfagreiningarinnar hefur verið leiðarljósið í allri vinnunni við þennan nýja vef. Covid setti mikið strik í reikninginn þegar að hönnun, vefsmíði og öll efnisvinnslan var við það að fara í gang. Vinnan við vefinn varð að víkja en það kom að því að hægt var að halda áfram.
Að koma vefnum heim og saman hefur verið mikið verk sem tekið hefur verið í lotum inn á milli daglegra anna en undanfarnar vikur hefur áhlaupið hefur verið stöðugt svo vefurinn kæmist á endanum fyrir sjónir almennings. Sviðsstjóri þjónustu- og samskiptasviðs hefur borið ábyrgð á og stýrt verkefninu frá upphafi en á þessum langa tíma hafa eðlilega fjölmargir komið að vinnunni með einum eða öðrum hætti og er þeim öllum færðar hjartans þakkir fyrir.
Nýr vefur enn á vinnslustigi
Þó að nýr vefur opni nú í dag þá er hann enn á vinnslustigi og alveg ljóst að notendur munu upplifa einhverja hnökra fyrst um sinn. Það er ekki búið að setja allt efni inn og markvisst er unnið er að því að fínpússa allar síður, bæta inn ljósmyndum o.s.frv. Það er því afar mikilvægt að fá ábendingar frá notendum, bæði starfsfólki og bæjarbúum, um það sem betur má fara eða ef fólk finnur ekki efni sem það leitar að. Gamli vefurinn verður ekki aðgengilegur almenningi nú þegar að nýr vefur hefur farið í loftið en Seltjarnarnesbær hefur áfram aðgengi að upplýsingum sem þar eru.
Allar góðar ábendingar eru vel þegnar og má senda á:
postur@seltjarnarnes.is eða með því að nýta ábendingahnappinn á forsíðunni.
Undirvefir stofnana í loftið á nýju ári
Í framhaldi af því að seltjarnarnes.is verður orðinn nokkuð lipur í notkun og búið verður að sníða af upphafshnökrana verður farið á fulla ferð í að klára vefi fyrir bókasafnið, leikskólann, grunnskólann og tónlistarskóla. Þeir verða allir unnir í stíl við aðalvefinn og í sama vefumsjónarkerfi en hver og einn mun þó hafa sitt sérkenni. Núverandi vefir þessarra stofnanna verða því áfram aðgengilegir öllum í þeirri mynd sem þeir hafa verið. Á nýju ári verða svo nýir undirvefir settir í loftið þó að ekki sé hægt, á þessari stundu, að segja nákvæmlega til um hvenær það verður fyrir hverja stofnun fyrir sig.
Vafrið og njótið!
Nú er um að gera að byrja að vafra um nýjan vef Seltjarnarnesbæjar og upplifa allt sem hann hefur upp á að bjóða sem er fjölmargt. Íbúar geta t.d. sent ábendingar beint af vefnum, valið staðsetningu á korti og sent mynd með ábendingunni. Einnig geta viðburðahaldarar á Seltjarnarnesi sett inn viðburð á viðburðastikuna ef hann á erindi til allra íbúa. Á viðburðastikunni ætti með tímanum að fást góð heildaryfirsýn yfir allt það sem er að gerast í menningar- og mannlífinu hér á Seltjarnarnesi. Hægt verður að deila fréttum, viðburðum og upplýsingum beint af síðunni hvort sem er í tölvupósti eða inn á samfélagsmiðla svo dæmi séu tekin og því ljóst nýjungarnar eru fjölmargar frá því sem verið hefur og við erum komin inn í nútímann.
Njótið vel!