Fara í efni

Barnaverndarþjónusta Seltjarnarnesbæjar

Samkvæmt barnaverndarlögum hafa allir tilkynningaskyldu gagnvart börnum og því ávallt mikilvægt að koma strax á framfæri áhyggjum af velferð og öryggi barna hvort sem er vegna hegðunar þess sjálfs eða annarra. 

112 ER BARNANÚMERIÐ

Ertu barn og hefur áhyggjur?

Ef þú, eða einhver sem þú þekkir þarf aðstoð barnaverndar þá getur þú smellt á hnappinn og skrifað upplýsingar. Starfsmaður barnaverndar mun hafa samband við þig. Enginn mun tala við neinn um það sem þú skrifar nema tala við þig fyrst.

Ef þú ert hrædd/ur eða finnst þú vera í hættu þá skaltu hringja beint í 112

Tilkynning til barnaverndar

Verði almenningi og hverjum þeim sem starfa með börnum þess vart að barni sé misboðið, uppeldi þess vanrækt eða aðbúnaði þess svo áfátt að því geti stafað hætta af er skilt, samkvæmt barnaverndarlögum að gera barnaverndarnefnd viðvart. Óska má nafnleyndar gagnvart þeim sem verið er að tilkynna.

 

Barnaverndartilkynning

Hægt er að senda tilkynningu til barnaverndarþjónustu Seltjarnarnesbæjar á netfangið barnavernd@seltjarnarnes.is eða hringja í síma 595 9100 á opnunartíma þjónustuvers bæjarins. Utan opnunartíma, á kvöldin og um helgar er hægt að fá samband við bakvakt barnaverndar í gegnum Neyðarlínuna í síma 112.

Í tilkynningunni þarf að koma fram nafn og símanúmer tilkynnanda. Þegar tilkynnt er um vanrækslu barns eða óviðunandi misfellur á uppeldi þess getur sá sem tilkynnir óskað nafnleyndar. Það á þó ekki við gagnvart barnaverndarnefnd og starfsmönnum nefndarinnar. Starfsmenn barnaverndar eru bundnir þagnarskyldu um einkamál þeirra sem njóta þjónustu sviðsins. Þagnarskyldan helst þrátt fyrir að viðkomandi láti af störfum.

Markmið barnaverndar

  • Markmið barnaverndar er að tryggja að börn sem búa við óviðunandi aðstæður eða börn sem sýna áhættuhegðun fái nauðsynlega aðstoð.
  • Það er gert með því að styrkja uppeldishlutverk fjölskyldunnar og beita úrræðum til verndar börnum.
  • Barnavernd Seltjarnarness starfar samkvæmt barnaverndarlögum nr. 80/2002 og öðrum lögum eftir því sem við á hverju sinni.

Ferli barnaverndarmála

  • Ferli barnaverndarmáls er á þann veg að þegar tilkynning berst til barnaverndar um vanrækslu, ofbeldi eða áhættuhegðun barns taka starfsmenn ákvörðun um hvort hefja skuli könnun málsins.
  • Foreldrum er sent bréf til upplýsingar um að tilkynning hafi borist.
Síðast uppfært 09. desember 2024
Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?