Fara í efni

Golf og golfvöllur

Golfklúbbur Ness er 9 holu golfvöllur á Seltjarnarnesi. Nesklúbburinn býður upp á fjölbreytt íþrótta- og afþreyingarstarf og heyrir undir Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands. 

Golfklúbbur Ness er 9 holu par 35 golfvöllur staðsettur í Suðurnesi á Seltjarnarnesi. Þar er afar fullkomið æfingasvæði, vönduð golfkennsla, öflugt barna- og unglingastarf sem og mikið félagsstarf. Á golfvelliinum er huggulegt klúbbhús með dásamlegu útsýni og þar er rekin veitingasala frá 1. maí – 30. september ár hvert og er öllum opin. Meistaramótið, Draumahringurinn og Einvígið á Nesinu eru meðal stærstu viðburða á vellinum ár hvert. Nesvellir er fullkomin inniaðstaða með golfhermum, púttvelli og líkamsræktaraðstöðu sem Nesklúbburinn starfrækir yfir vetrarmánuðina og er staðsett á Austurströnd 5. 

Umgjörðin og náttúran við golfvöllinn á Seltjarnarnesi er einstök og golfvöllurinn vinsæll jafnt meðal Seltirninga og annara kylfinga. 

Kylflingar leika golf og njóta einstakrar náttúrufegurðar í sátt við iðandi fuglalíf. Allt frá stofnun Nesklúbbsins hefur það verið stefna klúbbsins að starfa í samlyndi við fuglalíf á vellinum og kringum hann. Varpfuglar njóta verndar með sérstökum reglum um golfleik á vellinum. Heildstæð markmið klúbbsins í umhverfismálum er ætlað að stuðla að verndun dýralífs og flóru á vellinum og nánasta umhverfi hans.

Brautir vallarins bera nöfn eftir helstu fuglategundum sem heiðra Suðurnesið með nærveru sinni. Fyrsta braut heitir Æðukolla, önnur Kría, þriðja Svanur, fjórða Lóa, fimmta Stelkur, sjötta Grágæs, sjöunda Margæs, áttunda Stokkönd og níunda Tjaldur.

Saga klúbbsins

Golfklúbbur Ness var stofnaður þann 4. apríl 1964. Pétur Björnsson var einna fremstur í flokki þeirra frumkvöðla sem stofnuðu Nesklúbbinn ásamt félaga sínum Ragnari J. Jónssyni (Ronna). Forsöguna má rekja til þess að þeir félagar hófu að spila golf í Grafarholti en faðir Péturs átti hlut í landinu sem ný hýsir golfvöllinn og leist þeim félögum betur á að leika golf á undirlendinu á Nesinu. Fyrstu og aðra brautina slógu þeir félagar með handsláttuvél en síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar og klúbburinn orðinn sífellt vinsælli enda mun fleiri sem iðka golfíþróttina nú en þá. Var á fyrstu árunum auglýst eftir meðlimum og einnig fenginn til starfa breskur golfkennari á Nesvöllinn sem tók flesta alla meðlimi í golftíma fyrstu árin. Fyrsta vatnstorfæra á íslenskum golfvelli er á Nesvellinum þ.e. Búðatjörn og á sömu braut fyrsta glompa sem gerð var en hún er enn til á núverandi áttundu braut.

Tengt efni

Síðast uppfært 25. febrúar 2025
Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?