Fara í efni

Valhúsaskóli

Í Valhúsaskóla eru nemendur í 7.-10. bekk. Í starfi skólans er auk menntunar, sem byggð er á Aðalnámskrá grunnskóla, unnið að því að byggja upp jákvæða sjálfsmynd nemenda þar sem gagnkvæm virðing og góð samskipti eru höfð að leiðarljósi.

Skólastjóri: Helga Þórdís Jónsdóttir
Aðstoðarskólastjóri: Svala Baldursdóttir

Skóladagatal 2024 - 2025

 

Valhúsaskóli stofnaður 1974

Skólamáltíðir

  • Skólamatur ehf. veitir þjónustu varðandi skólamáltíðir til skólabarna í Grunnskóla Seltjarnarness.
  • Foreldrar sækja sjálfir um mataráskrift fyrir sitt barn í gegnum vefsíðu Skólamatar.
  • Á síðu Skólamatar má nálgast allar upplýsingar um matseðla, næringarinnihald og innihaldslýsingar allra rétta.

Skólastarf á Seltjarnarnesi

Allt skóla- og tómstundastarf á Seltjarnarnesi er samofið og skipulagt með þeim hætti að það falli vel að daglegu lífi fjölskyldna og innan hins hefðbundna vinnudags. Góð íþróttaaðstaða er við grunnskólann en íþróttahús, sundlaug og gervigrasvöllur eru mitt á milli starfsstöðvanna tveggja. Sama á við um Tónlistarskóla Seltjarnarness en góð samvinna er á milli skólanna. Ef svo ber undir geta nemendur stundað tónlistarnám á skólatíma auk þess sem yngstu nemendurnir eiga kost á forskólanámi í tónlistarskólanum.

Frístundamiðstöð fyrir börn í 1.-4. bekk er staðsett í Mýrarhúsaskóla og á neðri hæði í Seltjarnarneskirkju en félagsmiðstöðin Selið er í kjallara tónlistarskólans. Börnin verða fljótt sjálfstæð að fara á milli staða enda allt á sama svæðinu og utan við stórar umferðargötur.

 

Saga Valhúsaskóla

Valhúsaskóli hóf starfsemi sína árið 1974. Undirbúningur að byggingunni hófst með því að Ólafur H. Óskarsson, forstöðumaður framhaldsdeildar Lindagötuskóla, var ráðinn árið 1971 sem ráðgjafi skólanefndar Seltjarnarnesbæjar við hönnun skólans og vann hann náið með arkitekt þess, Vilhjálmi Hjálmarssyni. Ólafur ferðaðist víða til að kynna sér hönnun skólabygginga og þá einnig töluvert erlendis. Karl Bergmann Guðmundsson, þáverandi oddviti hreppsins, tók fyrstu skóflustungu að húsinu árið 1973. Ólafur starfaði síðan sem skólastjóri Valhúsaskóla frá 1974 til 1997 er Sigfús Grétarsson tók við þeim starfa allt til þess tíma er skólinn var sameinaður Mýrarhúsaskóla aftur í Grunnskóla Seltjarnarness árið 2004.

Efstu bekkir Mýrarhúsaskóla voru fluttir yfir í Valhúsaskóla þar sem kennsla fór fram í 4 árgöngum. Útskrifuðust nemendur þá ýmist sem gagnfræðingar úr 4. bekk eða með landspróf úr 3. bekk. Einnig var starfrækt framhaldsdeild við skólann fyrstu 2 árin þar sem boðið var upp á tveggja ára nám. Árið 2001 hófst kennsla nemenda í 7. bekk í Valhúsaskóla sem hélt áfram eftir að skólinn var sameinaður Mýrarhúsaskóla á ný.

Ein af eftirminnilegustu stundum skólans er líklega þegar tékkneski stórmeistarinn í skák, Vlastimil Hort, setti heimsmet í maraþonfjöltefli er hann tefldi við 550 manns í skólanum þann 23.-24. apríl 1977. Ekki þarf að fjölyrða um hvaða áhrif þessi atburður hafði á skáklífið í skólanum lengi á eftir.

Bókasafn skólans hefur vakið sérstaka athygli þar sem það var hannað til að þjóna því hlutveri að vera upplýsingamiðstöð skólans. Er það staðsett í miðju húsinu á efri hæð og því mjög aðgengilegt fyrir alla, bæði nemendur og kennara. Var það fyrsta skólasafn hérlendis sem byggt var sem slíkt.

Nokkrar breytingar hafa verið gerðar innanhúss en viðamesta breytingin er eflaust sú að mötuneyti var sett upp á neðri hæðinni og smá viðbyggingu skeytt við skólann til að rúma það. Nú geta nemendur keypt sér mat eða haft með sér nesti og matast í frímínútum og hádegishléi. Þá kom ný viðbygging kom við skólann árið 2002 með sérstakri aðstöðu til tölvukennslu og náttúrufræðikennslu.

Eitt af útlitseinkennum skólans er turn sem hýsir stjörnukíki Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness. Á göngum á efri hæð getur að líta Náttúrugripasafn Seltjarnarness. Þar er aðal uppistaðan uppstoppaðir fuglar og fiskar, en einnig egg og fleiri dýr.

Leitast hefur verið við að bregðast við þeim breytingum sem orðið hafa í þjóðfélaginu þannig að nemendur geti verið sem best búnir undir líf og starf og hefur tölvuvæðingin verið þar fyrirferðarmest á undanförnum árum.

Síðast uppfært 19. nóvember 2024
Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?