Selið er félagsmiðstöð fyrir ungmenni á Seltjarnarnesi frá 10-16 ára þar sem flestir eiga að geta fundið eitthvað við sitt hæfi og notið samvista við jafnaldra í öruggu umhverfi.
Forstöðukona: Jóna Rán Pétursdóttir
Starfsemi Selsins byggir á fjölbreyttu tómstunda- og hópastarfi. Skipulögð dagskrá hefst í byrjun september og lýkur í lok maí. Skipulagning og framkvæmd félagslífs og tómstundastarfs nemenda er að miklu leyti í höndum unglinganna sjálfra í samvinnu við sérhæfða starfsmenn. Gott samstarf er á milli Selsins og Grunnskóla Seltjarnarness, bæði í Valhúsa- og Mýrarhúsaskóla.
Dagstarf frá 15:00 - 19:00
Í opna dagstarfinu er boðið upp á fjölbreytta dagskrá í samvinnu við unglinga. Félagsmiðstöðin býður upp á biljarð, borðtennis, pílukast, leikjatölvu og ýmis önnur spil, auk þess sem hægt er að vinna heimalærdóminn, horfa á fræðsluefni, lesa, æfa fyrir sýningar og uppákomur, eða bara spjalla saman og slappa af.
Kvöldstarf hefst kl. 19:30
Í kvöldstarfinu er ávallt eitthvað skemmtilegt um að vera, dagskráin er fjölbreytt og miðuð að áhugasviði unglinganna. Fastir liðir hafa m.a. verið: leikjamót, fræðslu- og kynningakvöld, plötusnúðaæfingar, karaokekeppni, bakstur, kvikmyndakvöld, sundlaugarpartý, spurningakeppnir, heimsóknir í aðrar félagsmiðstöðvar, böll og margt fleira.
Aðrar uppákomur eru t.d. haustferð Selsins, viðburðir Samfés, starfsemi nemendaráðs, tenging við Skelina ungmennahús og margt fleira.