Fara í efni

Reglur Æskulýðs- og íþróttaráðs Seltjarnarness fyrir úthlutun afreksmannastyrkja

1.gr.

Almennt.

Sjóðurinn ber nafnið Afreksmannasjóður íþróttamanna og veitir styrki og viðurkenningar til hópa eða einstaklinga með búsetu á Seltjarnarnesi, óháð hvar þeir stunda íþrótt sína.

Afreksmannasjóður íþróttamanna heyrir undir ÍTS.

2. gr.

Markmið.

Markmið Seltjarnarnessbæjar er að styðja enn frekar við afreksíþróttamenn á Seltjarnarnesi með því að styrkja einstaklinga og hópa sem skara framúr í íþróttagrein sinni á lands- eða heimsvísu.

Samhliða tekur Seltjarnarnes undir sameiginlegt markmið íþróttahreyfingarinnar sem er að Íslendingar eigi hverju sinni afreksmenn í íþróttum er skipi sér á bekk með þeim bestu í heiminum og að stöðugt hækki afreksstig íslenskra íþrótta. Í því felst að efla hæfni og færni þeirra sem að afreksíþróttastarfinu koma og sem með afreksíþróttamanninum vinna, tryggja möguleika afreksíþróttamanna framtíðarinnar til að ná settu marki, stuðla að bættum framfærsluaðstæðum íþróttamannsins, og auka íslenska þjálfunarkunnáttu.

3. gr.

Úthlutunarfjárhæðir.

Úthlutunarfjárháðir úr afreksmannasjóði íþróttamanna eru eftirfarandi:

a. Íslandsmeistarar í hópíþrótt í efstu deild meistaraflokks kr. 500.000.

b. Deildarmeistaratitill í hópíþrótt í efstu deild meistaraflokks kr. 200.000.

c. 2. sæti í bikarkeppni Íslands í hópíþrótt í efstu deild meistaraflokks kr. 100.000.

d. Bikarmeistaratitill í hópíþrótt í efstu deild meistaraflokks kr. 300.000.

e. Íslandsmeistaratitill í einstaklingsgreinum í efstu deild/meistaraflokki/opnum flokki kr. 50.000.

f. Bikarmeistaratitill í einstaklingsgreinum í efstu deild/meistaraflokki/opnum flokki kr. 30.000.

g. Sigurvegari í hópíþrótt á viðurkenndu erlendu móti s.s. Evrópu eða heimsmeistaramóti kr. 500.000.

h. Sigurvegari í einstaklingsíþrótt í viðurkenndu erlendu móti eins og Norðurlanda-, Evrópu- eða Heimsmeistaramóti kr. 100.000.

i. Afreksíþróttamaður sem hefur skarað ótvírætt fram úr í sinni íþróttagrein á lands- eða heimsvísu og verið burðarstólpi í sínu félagi í efstu deild meistaraflokks kr. 100.000.

4. gr.

Auglýsing um afreksstyrki.

Auglýst verður eftir umsóknum einu sinni á ári.

ÍTS áskilur sér rétt að tilnefna hópa eða einstaklinga eftir ábendingum eða að eigin frumkvæði.

Allir íþróttamenn sem þiggja styrk skulu hlíta þeim reglum sem Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands setur um lyfjanotkun og lyfjaeftirlit svo og þeim almennu siða- og agareglum sem gilda um framkomu íþróttamanna innan vallar sem utan. Viðkomandi íþróttamenn skulu jafnframt koma fram í skólum og hjá félögum í bænum sé þess óskað af hálfu ÍTS.

ÍTS áskilur sér rétt til að hætta við styrk- og viðurkenningarveitingar ef regla þessi er brotin.

5. gr.

Umsóknir.

Umsóknir um styrki skulu berast til Íþrótta- og tómstundanefndar Seltjarnarness fyrir 15. janúar ár hvert á þar til gerðum eyðublöðum á heimasíðu bæjarins. Með öllum umsóknum skal leggja fram greinargerð um umsækjandann.

Úthlutun úr afreksmannasjóði ÍTS fer fram á kjöri Íþróttamanns- og konu Seltjarnarness.

 

Samþykkt á Seltjarnarnesi, 18. ágúst 2016, endurskoðaðar 8. febrúar 2018

Síðast uppfært 12. desember 2022
Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?