1. gr.
Stofnun og hlutverk sjóðsins
Bílastæðasjóður Seltjarnarnesbæjar er í eigu Seltjarnarnesbæjar. Bæjarráð í umboði bæjarstjórnar fer með stjórn bílastæðasjóðs en sviðsstjóri skipulags- og umhverfissviðs er yfirmaður bílastæðasjóðs og sér um daglegan rekstur hans, þ.m.t. að annast framkvæmd stefnu og verkefna sjóðsins sem og samskipti við stjórnsýslu og stofnanir bæjarins.
Verkefni sjóðsins eru m.a. að sjá um eftirlit með því hvort ökutæki séu stöðvuð eða þeim lagt á tilteknum svæðum innan bæjarmarka Seltjarnarnesbæjar í andstöðu við ákvæði umferðarlaga nr. 77/2019.
Heimilt er bæjarstjórn Seltjarnarnesbæjar að fengnu leyfi samgöngu- og sveitastjórnarráðherra að framselja vald bílastæðasjóðs skv. samþykktum þessum til fyrirtækis er tekur að sér eftirlit með stöðvunarbrotum. Þrátt fyrir framangreint ákvæði skal bílastæðasjóði þó ætíð vera heimilt, án sérstaks samþykkis ráðherra, að eiga í samstarfi við önnur sveitarfélög um eftirlit með stöðvunarbrotum og rekstur stöðuvarða.
2. gr.
Fjármögnun bílastæðasjóðs og ráðstöfun tekna
Bílastæðasjóður skal rekin á grundvelli framlaga úr bæjarsjóði. Tekjur af rekstri bílastæðasjóðs, þ.m.t. stöðvunarbrotagjöld, skulu renna til samgöngumála í Seltjarnarnesbæ í samræmi við ákvæði 2. mgr. 109 gr. umferðarlaga nr. 77/2019.
3. gr.
Daglegur rekstur bílastæðasjóðs, breytingar á samþykkt þessari o.fl.
Sviðsstjóri skipulags- og umhverfissviðs stýrir öllum málefnum sjóðsins og leggur fyrir bæjarráð tillögur að breytingum sem bæjarráð þarf að staðfesta skv. umferðarlögum nr. 77/2019 eða ákvæðum samþykktar þessarar.
Ágreiningi vegna mála er heyra undir bílastæðasjóð ber að vísa til bæjarráðs.
4. gr.
Stöðubrot
Stöðvunarbrotagjald eru gjald vegna ólöglegrar lagningar og stöðvunar ökutækis sbr. 1. mgr. 109. gr. umferðarlaga nr. 77/2019.
Sérstakir stöðuverðir á vegum Þjónustumiðstöðvar Seltjarnarnesbæjar eða aðili sem bílastæðasjóður hefur samið við sjá um eftirlit með stöðu og lagningu ökutækja á bílastæðum og annars staðar í sveitarfélaginu. Nánar tiltekið skulu þeir líta eftir því að ökutæki séu ekki stöðvuð eða þeim lagt ólöglega skv. 109. gr. umferðarlaga nr. 77/2019. Stöðuvörðum er heimilt að leggja gjaldmiða á ökutæki til innheimtu gjalda vegna stöðvunarbrota. Á gjaldmiða skal tekið fram um tíma og stað stöðvunarbrotsins og greint frá því að ökumaður skuli greiða stöðvunarbrotagjald í bílastæðasjóð Seltjarnarness, hvar og hvernig greiðsla megi inna af hendi svo og fjárhæð gjaldsins og hvernig með verði farið ef greiðsla dregst. Tilkynning skal undirrituð af stöðuverði.
Samhliða stöðuvörðum sér lögreglan um eftirlit með stöðvun og lagningu ökutækja. Lögreglunni er heimilt að leggja gjaldmiða á bíla til innheimtu stöðvunarbrotagjalda vegna stöðvunarbrota.
5. gr.
Gjaldtaka
Bæjarráð ákveður í gjaldskrá fjárhæð stöðvunarbrotagjalda að fenginni tillögu bílastæðasjóðs en samgöngu- og sveitastjórnarráðherra staðfestir gjaldskránna.
Gjöld þessi skal greiða innan 14 daga frá álagningu. Tilkynning um gjald er í formi kröfu. Sé gjald samkvæmt 1. mgr. 109. gr. umferðarlaga ekki greitt innan 14 daga hækkar það um 50%. sbr. 5. mgr. 109. gr. umferðarlaga nr. 77/2019. Sé gjald enn ógreitt þegar 28 dagar eru liðnir frá álagningu, hækkar það um 100% frá upphaflegu gjaldi, án tillits til undangenginnar 50% hækkunar eftir 14 daga, sbr. 6. mgr. 109. gr. umferðarlaga nr. 77/2019.
Kröfubréf skulu send til þeirra sem ekki greiða innan greinds frests. Verði gjöld samkvæmt 4. gr. ekki greidd innan 14 daga er heimilt að beita ákvæðum 110. greinar umferðarlaga nr. 77/2019 við innheimtu þeirra.
6. gr.
Gildistaka
Samþykkt þessi er sett með heimild í 2. mgr. 109. gr. umferðalaga nr. 77/2019 og tekur gildi þegar í stað.
Samþykkt á 904. fundi bæjarstjórnar þann 26. febrúar 2020 og á 905. fundi bæjarstjórnar þann 11. mars 2020.