1.
Ferðaþjónusta fatlaðra er ætluð til afnota fyrir þá íbúa á Seltjarnarnesi sem eru:
a. Hjólastólanotendur
b. Blindir og geta eigi notað önnur frartæki.
c. Ófærir um að nota almenningsvagnaþjónustu vegna annarrar fötlunar.
Hafi fatlaður aðgang að eigin farartæki en getur ekki notað það alltaf vegna sérstakra aðstæðna er heimilt að veita viðkomandi aðgang að ferðaþjónustunni að undangengnu mati.
2.
Ferðir til vinnu, skóla, lækninga og hæfingar ganga fyrir öðrum ferðum. Fjöldi ferða til annarra einkaerinda er háður takmörkunum, en við það skal miða að þær verði aldrei fleiri en 18 ferðir á mánuði og heildarfjöldi ferða eigi fleiri en 60 á mánuði. Ferð er skilgreind í reglum þessum sem akstur milli tveggja staða en ekki akstur fram og til baka.
3.
Þjónustutími er sem hér segir:
Virka daga frá kl. 7:00 til kl. 24:00
Laugardaga frá kl. 8:00 til kl. 24:00
Sunnudaga frá kl. 10:00 til kl. 24:00
Á stórhátíðum miðast þjónustutími við akstur almenningsvagna.
4.
Tekið er á móti pöntunum alla virka daga milli kl. 9:00 og 16:00. Beiðnum um akstur þarf að öllu jöfnu að koma á framfæri með dags fyrirvara. Vakthafandi bílstjórum er heimilt að taka við pöntunum með skemmri fyrirvara ef aðstæður leyfa. Fyrir sunnudaga og mánudaga þarf pöntun þó að að berast á föstudegi. Afpöntun ferðar skal vera með sem mestum fyrirvara, að öðrum kosti telst ferðin með í uppgjöri.
Fastar ferðir eru bundnar við atvinnu og nám og skal gera sérstakt samkomulag um þær milli akstursaðila og þess sem þjónustunnar nýtur.
Ef um hópferð er að ræða skal panta með minnst tveggja sólarhringa fyrirvara. Hópur er fjórir einstaklingar eða fleiri.
5.
Umsókn um ferðaþjónustu fatlaðra skal senda til Seltjarnarnesbæjar, félagsþjónustu, Mýrarhúsaskóla eldri við Nesveg. Umsókn er metin á grundvelli möguleika umsækjenda til að nýta sér þjónustu almenningsvagna og eða aðra ferðamöguleika.
Mat umsóknar fer fram hjá Félagsþjónustu. Umsækjandi getur skotið mati til Félagsmálaráðs Seltjarnarness ef hann telur mat á ferðafjölda ófullnægjandi.
6.
Gjald fyrir hverja ferð skal miðast við helming af almennu fargjaldi Strætó. Gjaldið er innheimt samkvæmt uppgjöri um hver mánaðamót.
7.
Þjónustusvæði markast frá Hafnarfirði í suðri að Mosfellsbæ í norðri. Aksturinn miðast við að og frá anddyri. Aðstoð skal vera fyrir hendi gerist þess þörf.
8.
Farþegar skulu vera tilbúnir til brottfarar í anddyri brottfararstaðar á umsömdum tíma. Ekki er tryggt að bíll bíði sé farþegi ekki tilbúinn. Ekki er beðið á meðan farþegi sinnir erindi sínu. Bílstjórar sinna ekki sendiferðum fyrir farþega. Farþega sem ekið er til læknis er heimilt að hringja eftir akstri til baka að viðtali loknu enda var það ekki vitað fyrirfram hve viðtalið tæki langan tíma. Ferðaþjónusta fatlaðra er sérhæfð þjónusta og þurfa farþegar því að vera viðbúnir töfum eða breytingum á áætlun.
9.
Farþegum er heimilt að hafa með sér annan farþega, enda greiði hann sama gjald. Geti farþegi ekki ferðast einsamall er honum heimilt að hafa með sér aðstoðarmann. Aðstoðarmaður er gjaldfrír ef samþykki félagsþjónustu liggur fyrir.
10.
Ferðaþjónusta fyrir eldri borgara er ætluð 67 ára og eldri sem búa sjálfstætt og eru ófærir um að nota almenningssamgöngur vegna langvarandi hreyfihömlunar og hafa ekki aðgang að eigin farartæki.
Markmið með akstursþjónustu eldri borgara er að gera eldri borgurum á Seltjarnarnesi kleift að búa lengur heima. Hámarksfjöldi ferða er 60 ferðir á mánuði. Umsóknir eru metnar tímabundið í mislangan tíma í senn eftir aðstæðum umsækjanda, þó aldrei lengur en til eins árs í senn. Aldraðir sem eru tímabundið hreyfihamlaðir vegna beinbrota eiga að öllu jöfnu ekki rétt á ferðaþjónustu.
Gjald fyrir hverja ferð skal miðast við almennt staðgreiðslugjald hjá Strætó b.s. Hægt er að nálgast umsóknareyðublöð á rafrænt á Seltjarnarnes.is og skal læknisvottorð fylgja umsókn.
11.
Reglur þessar eru settar skv. 35. gr. og 9. gr. laga um málefni fatlaðra nr. 59/1992.
Reglur þessar eru samþykktar í Félagsmálaráði Seltjarnarness þann 16. desember 2003 og staðfestar af Bæjarstjórn Seltjarnarness þann 21. janúar 2004. Breytingar á 10. gr. samþykktar í bæjarstjórn 14. mars 2007 og heiti reglna þá einnig breytt.