Fara í efni

Grótta

Grótta er landföst, gróskumikil eyja utan við Vestanvert Seltjarnarnes og einstök náttúruperla. Grótta og náttúran í kringum eyna er fallegt og vinsælt útivistarsvæði hjá Seltirningum og öðrum sem njóta vilja útivistar í nálægð við sjó og auðugt og fjölbreytt fuglalíf.

Grótta var friðlýst árið 1974 og felst verndargildi friðlandsins í Gróttu í fjölskrúðugu fuglalífi árið um kring og mikilvægi þess sem varpsvæði á sumrin. Þar ber helst að nefna hundruði kríupara sem verpa í og við eyjuna en kría er ábyrgðartegund og alfriðuð og umferð því óheimil um svæðið á varptímanum 1. maí til 15. júlí. Auk kríunnar finnast einnig í eyjunni margar aðrar fuglategundir svo sem æðarfugl, fýll, sendlingur og tjaldur.

Á veturna er Gróttu algengur viðkomustaður stórra hópa fargesta sem dvelja þar til lengri eða skemmri tíma. Þar á meðal eru t.d. rauðbrystingur og sanderla. Mikið er af lífríkum sjávartjörnum og fjörum við Gróttu og á nærliggjandi svæðum, þar á meðal leirur og sjávarfitjar. Fjörurnar í Gróttu eru að mestum hluta stórgrýtis-, hnullunga- og klapparfjörur og ýmsar tegundir þara, þangs og blóma vaxa í fjörunum og fjörukömbunum, svo sem blálilja, hrímblaðka, melgresi, ætihvönn og fleiri. Útivistargildi svæðisins er hátt vegna mikillar náttúru í nálægt við þéttbýli.

Grótta er í raun eyja sem tengd er við land af mjóum granda sem fer á kaf á flóði. Strönd eyjunnar hefur að mestu verið hlaðin upp vegna landsigs og er hún því eins og grunn skál. Eyjan er vel gróin og gróskuleg þrátt fyrir fábreytt gróðurlendi og tiltölulega fáar tegundir.

Til að komast til og frá Gróttu er mikilvægt að fylgjast vel með sjávarföllum og má nálgast flóðatöflu hér.

Náttúran og nánasta umhverfi

Gróttuviti

Grótta er fyrst nefnd í fógetareikningum frá árunum 1547 til 1552, en nafnið þykir fornlegt og benda til að þar hafi lengi verið búið. Glöggt má sjá af elstu kortum af Seltjarnarnesi að Grótta var ekki eyja heldur breiður nyrsti hluti nessins.

Árið 1703 er hún talin hjáleiga frá Nesi. Það er þó tekið fram að hjáleigumaður megi hafa sína eigin skipaútgerð og virðist það hafa verið svo ábatasamt að þar bjuggu menn góðu búi á 18. öld.

Er jörðin alla öldina nefnd meðal hinna 8 bestu jarða á Framnesi og þar bjó um tíma lögréttumaðurinn Ólafur Jónsson. Grótta er þó áfram hjáleiga frá Nesi, en er kölluð hálflenda 1755. Eftir Básendaflóðin miklu 1799 hallar undan fæti, enda var jörðin þá um tíma talin óbyggileg.

Landbrot við Gróttu - Básendaflóðið

Vegna landsigs á síðari öldum hafði sjór brotið land við Gróttu og árið 1788 segja danskir mælingamenn að 5 álnir séu milli flóðafara á nyrðri grandanum og hafa því náttúruhamfarir á borð við Básendaflóðið átt hægt um vik að eyða landinu við Gróttu á þann hátt að hér eftir varð hún eyja í hafi, að vísu landtengd með granda sem stendur upp úr á fjöru.

Upplýstur GróttuvitiHinu ógurlega sjávarflóði Básendaflóði er lýst svo: Aðfaranótt 9. janúar brá til útsuðuráttar um allt Suður- og Vesturland, með þeim býsnum sem fæstir höfðu áður lifað. Um öll Suðurnes, allt austur að Eyrarbakka, gerði feikna hafrót og stórflóð sem olli gífurlegum skemmdum. Básendakauptún á Miðnesi lagðist af með öllu því að sjór og veður braut þar öll bæjar- og verslunarhús; fékk kaupmaðurinn með naumindum forðað lífi sínu og fjölskyldu sinnar að Stafnesi. Fiskgarðar og túngarðar þar syðra sópuðust heim á tún, sumstaðar tók jafnvel af túnin, skipauppsátur og brunnar. Tvær kirkjur fuku, Hvalneskirkja og og kirkjan að Nesi við Seltjörn sem er sögð hafa fokið í heilu lagi af grunni sínum.

Á Seltjarnarnesi gerði óveður þetta mikinn usla og olli miklum skemmdum. Um 18 skip og minni róðrarbátar brotnuðu, svo að sum fóru í spón, en önnur löskuðust svo að ekki gátu sjófær talist. Fyrir innan Lambastaði gekk sjór yfir þvert nesið, milli Skerjafjarðar og Eiðsvíkur, svo að ekki var fært mönnum né hestum. Er haft eftir jafnathugulum heimildarmanni og biskupinum á Lambastöðum að 5 álnum hefði sjór gengið hærra, þverhníptu máli, en í öðrum stórstraumsflóðum.

Í Örfirisey spilltist land svo af sand- og malarburði, að eyjan mátti lítt byggileg teljast, enda lögðust býli þar úti í eyði.

Búseta í Gróttu

GróttuvitiÁ fyrri hluta 19. aldar var Grótta í eyði. Á seinni hluta aldarinnar bjuggu þar útvegsbændur og skipasmiðir en árið 1897 var risinn þar viti og varð Þorvarður Einarsson vitavörður þar.

Þorvarður og kona hans Guðrún Jónsdóttir hófu búskap í Gróttu árið 1895. Í tíð þeirra var túnið í Gróttu stækkað til muna, en sjór braut land og brotnaði úr sjógarði þar veturinn 1926 /1927 en hann var hlaðinn upp myndarlega. Síðar var svo ekið stórgrýti á grandann milli Snoppu og Gróttu til að verja hann frekari niðurbroti.

Er Þorvarður lést 1931 tók sonur hans Jón Albert við vitavörslunni og gengdi þeim starfa til dauðadags en hann drukknaði í róðri 12. júní 1970. Síðan þá hefur íbúðarhúsið í Gróttu verið í eyði. AlbertAlbert stundaði mest sjó á meðan hann bjó í eynni en hafði lítilsháttar búskap með útgerðinni.

Nýr viti var reistur í Gróttu eftir síðari heimstyrjöld, allnokkru austar en gamli vitinn og voru ljós nýja vitans tendruð í nóvember 1947. Lendingaraðstaða í eynni var bætt á búskaparárum Alberts í Gróttu og var gerð bryggja framan við sjóbúð hans og við hlið hennar dráttarbraut og gat Albert þar dregið bát sinn upp. Slysavarnarfélagið á Nesinu var nefnt eftir Alberti. 

Á árinu 1978 var sjóbúðin í Gróttu að falli komin, en þá fékk Rótaryklúbbur Seltjarnarness hana til eignar og lét gera hana upp.

Byggt er á eftirfarandi heimildum
Heimir Þorleifsson; Seltirningabók 1991.
Dr. Jón Helgason; Árbækur Reykjavíkur 1786 – 1936.
Fræðasetur í Gróttu. Tillögur undirbúningsnefndar 1999
Munnleg heimild; Sigurgeir Sigurðsson, bæjarstjóri.

Síðast uppfært 30. nóvember 2022
Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?