Fara í efni

Innritunarreglur í leikskóla á Seltjarnarnesi

Umsóknir:

Til að eiga rétt á leikskóladvöl þarf barn að eiga lögheimili á Seltjarnarnesi. Sækja skal um leikskóladvöl í gegnum mínar síður og er því úthlutað leikskóladvöl eftir aldri þess (kennitölu).

Í umsókninni skal tilgreina æskilegan dvalartíma barns. Hægt er að kaupa 4 - 8,5 tíma á dag. Hámarksdvalartími barna yngri en 24 mánaða er 8 klst. og eldri barna 8,5 klst.

Aðalinnritun í Leikskóla Seltjarnarness fer fram í mars ár hvert. Mikilvægt er að umsóknir hafi borist fyrir 1. mars árið sem leikskóladvöl skal hefjast. Umsóknir sem berast eftir þann tíma verða afgreiddar eftir því sem leikskólapláss losnar.

Þegar barnið hefur fengið inngöngu í leikskóla er foreldrum svarað í rafrænu bréfi. Foreldrar þurfa að staðfesta leikskóladvölina rafrænt innan 14 daga frá því að boð berst. Hafi staðfesting frá foreldrum ekki borist innan tilskilins frests er barnið tekið af lista og öðru barni boðið plássið.

Inntaka nýrra barna í leikskóla á Seltjarnarnesi er að jafnaði í upphafi haustannar.

Leikskólagjöld:

Leikskólagjöld eru auglýst á heimasíðu bæjarins. Leikskólagjöld eru innheimt með gíróseðli, í banka eða með greiðslu VISA og EURO. Greiða skal fyrir 15. hvers mánaðar. Börn einstæðra foreldra og námsmanna greiða lægra gjald.

Einu sinni á ári ber einstæðum foreldrum að framvísa vottorði um hjúskaparstöðu. Námsmenn skulu framvísa staðfestingu um skólavist fyrir hverja önn. Lækkun á gjaldi kemur til framkvæmdar fyrsta dag næsta mánaðar eftir að staðfestingu/vottorði er skilað. Veittur er systkinaafsláttur samanber gjaldskrá.

Leikskólagjald fellur niður í 4 vikur á sumrin v/sumarleyfa. Ef barn er fjarverandi samfellt í 2 vikur eða lengur, vegna veikinda eða fría, geta foreldrar sótt um niðurfellingu fæðiskostnaðar.

Uppsagnarfrestur:

Gagnkvæmur uppsagnarfrestur er einn mánuður og miðast við 1. eða 15. hvers mánaðar. Skuldi foreldrar 3 mánuði er barninu sagt upp leikskóladvölinni.

Framlenging á leikskóladvöl:

Flytji barn úr bæjarfélaginu er hægt að sækja um framlengingu á leikskóladvöl samkvæmt sérstöku samkomulagi á milli sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Barni er heimilt að vera áfram í leikskóla í því bæjarfélagi sem flutt er úr, í allt að 6 mánuði frá flutningi lögheimilis, sækja skal um það sérstaklega. Sé barn á lokaári í leikskóla eða með frávik í þroska/fötlun geta tímamörk verið rýmri.

Dvalarsamningur:

Þegar barnið byrjar í leikskóla skrifa foreldrar undir sérstakan dvalarsamning.

Reglur um forgang að leikskóla:

Seltjarnarnesbær áskilur sér rétt til að forgangsraða börnum í leikskóla þegar taka þarf tillit til sérstakra aðstæðna barna og/eða foreldra. Börn geta fengið forgang, skv. úrskurði fræðslustjóra, vegna fötlunar eða félagslegra aðstæðna/erfiðleika sem ætla megi að hafi áhrif á velferð barnsins. Beiðni um forgang þarf að fylgja bréf frá félagsráðgjafa, lækni eða öðrum eftir því sem við á. Börn starfsfólks leikskóla á Seltjarnarnesi hafa forgang að plássi við leikskóla að því gefnu að öðrum skilyrðum inntöku sé fullnægt.

Síðast uppfært 04. mars 2024
Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?