Fara í efni

Reglugerð fyrir Veitustofnun Seltjarnarness

Nr. 237 - 4. mars 2011 

I. KAFLI
Almennt.
1. gr.
Markmið og hlutverk.

Veitustofnun Seltjarnarness (VS) er stofnun sem Seltjarnarneskaupstaður á og starfrækir.

VS er heimilt að starfa á ýmsum tæknisviðum í því skyni að stuðla að bættri nýtingu dreifikerfis síns. Þá er stofnuninni heimilt að eiga í félögum, að öllu leyti eða með öðrum, þ.m.t. hlutafélög, er vinna að framgangi verkefna tengdum starfssviði hennar.

VS skal rekin sem sjálfstæð stofnun með sjálfstæðan fjárhag og reikningshald. Hún skal skipuð sérstakri stjórn, sem starfar í umboði bæjarstjórnar.

2. gr.
Verkefni og veitusvæði.

Tilgangur VS er að annast um orkuöflun og dreifingu og sölu á heitu vatni á veitusvæðinu. Þá skal VS fara með einkarétt sveitarfélagsins til reksturs fráveitu á því svæði sem fráveitan nær til og hún getur fullnægt innan staðarmarka sveitarfélagsins með þeim réttindum og skyldum sem því fylgir og koma fram í vatnalögum nr. 15/1923. VS annast einnig rekstur vatnsveitu samkvæmt lögum um vatnsveitur sveitarfélaga nr. 32/2004.

Veitusvæði VS er lögsagnarumdæmi Seltjarnarneskaupstaðar og önnur lönd þar sem afnotaréttur Seltjarnarneskaupstaðar nær til, eftir því sem bæjarstjórn semur um og ákveður og ráðherra samþykkir.

VS hefur einkarétt til sölu heits vatns í samræmi við samninga og gildandi lög og reglugerðir hverju sinni.

3. gr.
Stjórn.

Stjórn VS er skipuð fimm mönnum, þar af einum stjórnarformanni og jafnmörgum til vara og skal stjórn og stjórnarformaður kosin af bæjarstjórn, til jafnlengdar kjörtímabili bæjarstjórnar. Stjórn VS fer með málefni stofnunarinnar og annast um að skipulag hennar og starfsemi sé jafnan í réttu og
góðu horfi. Stjórn VS er í höndum stjórnar og forstöðumanns í umboði bæjarstjórnar. Stjórn skipar sjálf með sér verkum að öðru leyti. Stjórnin er ákvörðunarbær þegar meirihluti nefndarmanna sækir fund. Einfaldur meirihluti atkvæða ræður úrslitum.

Stjórn VS skal setja stofnuninni skipurit. Þá setur stjórnin stofnuninni verðskrá og fjárhagsáætlun sem staðfest skal í bæjarstjórn.

Stjórnarfundir eru lögmætir ef meirihluti stjórnarmanna sækir fund. Afl atkvæða ræður úrslitum mála. Halda skal fundargerð um stjórnarfundi. Formaður undirbýr og boðar til stjórnarfunda.

Einungis stjórn VS getur veitt prókúruumboð.

4. gr.
Forstöðumaður.

Stjórn VS ræður forstöðumann er veitir stofnuninni forstöðu. Forstöðumaður skal eiga sæti á stjórnarfundum með málfrelsi og tillögurétt. Forstöðumaður hefur á hendi framkvæmd stefnu stjórnar stofnunarinnar. Skal hann vinna sjálfstætt að stefnumótun hennar og áætlanagerð. Hann annast allan daglegan rekstur stofnunarinnar. Tengiliður bæjarskrifstofu við forstöðumann er bæjarstjóri og skal forstöðumaður ráðfæra sig við hann eftir þörfum. Daglegur rekstur tekur ekki til ráðstafana sem eru óvenjulegar eða mikils háttar. Slíkar ráðstafanir getur forstöðumaður aðeins gert samkvæmt sérstakri heimild frá stjórn. Forstöðumaður kemur fram fyrir hönd stofnunarinnar í öllum málum sem varða venjulegan rekstur. Forstöðumanni ber að veita stjórn og endurskoðanda allar upplýsingar um rekstur stofnunarinnar sem þeir kunna að óska eftir eða veita ber samkvæmt lögnum. 

Forstöðumaður sér um að meðferð eigna fyrirtækisins sé með tryggilegum hætti.

5. gr.
Reikningshald og ráðstöfun tekna.

Skrifstofa Seltjarnarneskaupstaðar sér um bókhald stofnunarinnar en veitustjórn fylgist með stöðu stofnunarinnar á hverjum tíma og gætir þess að bókhald sé rétt og tímanlega fært.

Stjórn gerir samning við Seltjarnarneskaupstað um úthýsingu ýmissa verkefna til bæjarins er tengjast skrifstofuhaldi. Sem dæmi um verkefni sem úthýst er til bæjarins eru: fjárreiður, bókhald, innheimta og starfsmannamál.

VS skal hafa sjálfstæðan fjárhag og sjálfstætt reikningshald. Um er að ræða B-hluta stofnun í reikningum Seltjarnarneskaupstaðar. Reikningsár VS er almanaksárið og skulu endurskoðaðir reikningar stofnunarinnar fylgja reikningum sveitarfélagsins. Skal tekjum fyrst og fremst varið til að standa straum af öllum greiðsluskuldbindingum, s.s. afborgunum af áhvílandi skuldum, vöxtum og öðrum rekstrarkostnaði, þar með talið fullnægjandi viðhaldi og endurnýjun mannvirkja og tækja.

Ráðstöfun hagnaðar eða jöfnun taps skal ákveðin af bæjarstjórn að fengnum tillögum stjórnar.

II. KAFLI
Gjaldskrár og innheimta.
6. gr.
Gjaldskrár.

A. Almennt.

Stjórn VS setur gjaldskrá um verð á seldri orku og vatni til notenda. Skal hún samþykkt í bæjarstjórn og staðfest af ráðherra.

Gjaldskrá fyrir heitt vatn, sem selt er á grundvelli 30. gr. orkulaga, skal lögð fyrir iðnaðarráðherra til staðfestingar sem lætur birta hana í B-deild Stjórnartíðanda og öðlast hún þá gildi.

Aðrar gjaldskrár fyrir heitt vatn sem samþykktar eru af stjórn VS öðlast eigi gildi fyrr en þær hafa verið birtar opinberlega.

Gjaldskrá vatnsveitu skal byggð á lögum um vatnsveitur sveitarfélaga, nr. 32/2004. Stjórn VS ákveður fráveitugjald í sérstakri gjaldskrá sem skal greiðast árlega og varið til þess að standa straum af kostnaði við fráveitu bæjarins.

Viðskiptavinir VS skulu greiða VS orkukaupin samkvæmt gildandi gjaldskrá á hverjum tíma.

Við verðbreytingar skal reikningsfæra notkun í beinu hlutfalli við gildistíma hverrar gjaldskrár á því tímabili sem reikningurinn tekur til.

VS ákveður gjalddaga reikninga.

VS er heimilt að gera sérstaka samninga við notendur á veitusvæði sínu, sem falla utan við gjaldskrá, enda sé samið sérstaklega um orkukaup notanda.

B. Áætlun, álestur og uppgjör.

VS má byggja orkureikninga á áætlun um orkunotkun viðskiptavinar og innheimta reglulega samkvæmt slíkri áætlun en í henni sé orkunotkun jafnað niður á daga. Reikningar sem byggjast á sannreyndri orkunotkun nefnast „uppgjörsreikningar“, en reikningar sem eru byggðir á áætlaðri orkunotkun nefnast „áætlunarreikningar“.

Orkunotkun skal sannreyna eigi sjaldnar en á 6 mánaða fresti. Þegar orkunotkun hefur verið sannreynd skal hún reikningsfærð og gerð upp fyrir tímabilið milli álestra og koma þá áætlunarreikningar til frádráttar. Viðskiptavinur getur jafnan, gegn greiðslu aukagjalds, krafist auka álesturs og uppgjörs miðað
við sannreynda notkun. Enn fremur getur hann óskað eftir breytingu á áætlun um orkunotkun vegna nýrra forsendna.

C. Reikningar, gjalddagi og vextir.

Reikninga skal að jafnaði senda viðskiptavini á það heimilisfang sem viðskiptavinur velur, en heimilt er einnig að senda reikning á notkunarstað. 

Heimilt er að beita rafrænni greiðslumiðlun til greiðslu á reikningum að ósk viðskipavinar. Í þeim tilfellum skal senda viðkomandi viðskiptavini yfirlit um skuldfærslur og notkun árlega. Notkun greiðslumæla er heimil með samþykki VS og viðskiptavinar.

Viðskiptavinum er skylt að hlíta ákvæðum gildandi gjaldskrár og breytingum sem þar kunna að verða á.

Verði greiðslufall á reikningi, hvort sem um er að ræða áætlunar- eða uppgjörsreikning, má VS áskilja sér og innheimta dráttarvexti frá og með gjalddaga reiknings til greiðsludags, auk kostnaðar sem af innheimtu kröfunnar hlýst.

7. gr.
Stöðvun orkuafhendingar.

VS hefur rétt til að stöðva orkuafhendingu til viðskiptavinar sem vanrækir að greiða orkureikninga, þ.m.t. reikninga vegna heimlagnagjalda, ásamt vöxtum og öllum innheimtukostnaði. Til slíkra aðgerða má þó fyrst grípa eftir gjalddaga og að undangenginni skriflegri aðvörun, sem send er viðskiptavini með hæfilegum fyrirvara, sem eigi skal vera skemmri en 14 dagar. VS ber ekki ábyrgð á hugsanlegum afleiðingum slíkrar stöðvunar.

Beri viðskiptavinur ábyrgð á orkukaupum um fleiri en eina veitu (mæli) má stöðva orkuafhendingu um hverja þeirra sem er eða allar, vegna vanskila eða vanefnda varðandi eina þeirra.

Stöðvun orkuafhendingar vegna vanskila hefur engin áhrif á greiðsluskyldu orkukaupanda á skuldum við VS. VS hefur rétt til þess að krefja skuldara um allan kostnað við undirbúning að stöðvun orkuafhendingar, ennfremur við framkvæmd lokunar, svo og opnun veitunnar að nýju.

III. KAFLI
Húsveitur og tenging þeirra.
8. gr.
Eigandi/notandi veitu.

Eigandi húsveitu eða annarrar veitu, sem tengist veitukerfi VS, nefnist húseigandi. Kaupandi orku, eða sá sem ber ábyrgð á greiðslu hennar, nefnist notandi.

9. gr.
Umsókn um heimlögn.

Umsókn um heimlögn eða breytingar á þeim skal undirrituð af húseiganda er skuldbindur sig jafnframt til þess með undirskrift sinni að greiða heimlagnagjald það sem kveðið er á um í verðskrá VS og að hlíta settum reglum um kaup á orku frá VS.

Húseigandi ber kostnað við þær breytingar á heimlögnum sem framkvæmdar eru að hans ósk.

Þegar heimlögn hefur verið lögð er heimlagnagjald gjaldkræft.

10. gr.
Óvenjulegar aðstæður.

Nú eru sérstakir erfiðleikar á tengingu húss og húsveita fullnægir ekki þeim skilyrðum sem sett eru í raforkulögum, skipulagslögum, mannvirkjalögum eða reglugerðum settum samkvæmt þeim, þá getur VS ákveðið að tengja hús samkvæmt sérstöku samkomulagi við húseiganda eða að hús sé ekki tengt.

Heimilt er VS að krefjast þess að húseigandi láti þinglýsa yfirlýsingu á húseignina að hún hafi verið tengd samkvæmt sérstöku samkomulagi.

Heimilt er að krefja húseiganda, sem óskar tengingar, um kostnað við úrbætur á húsveitu.

11. gr.
Frosin jörð.

Húseigandi/notandi skal gæta þess að ekki sé hætta á að vatn frjósi í tengigrind eða inntaki og að sama skapi skal hann tryggja nægjanlegt rennsli til þess og gera aðrar ráðstafanir sem nauðsynlegar eru. Sé þess ekki kostur skal hann tilkynna það VS eins fljótt og auðið er, svo unnt sé að grípa til viðeigandi ráðstafana. Sér í lagi ber húseigendum/notendum sem reka húsveitur þar sem ekki er dagleg viðvera að tryggja óhindrað rennsli heita vatnsins gegnum inntak, tengigrind og stjórnbúnað húsveitnanna til varnar frosthættu.

12. gr.
Aftenging/endurtenging.

Kostnaður við aftengingu og endurtengingu húsveitna við dreifikerfi VS skal greiddur af húseiganda samkvæmt verðskrá. Varanleg aftenging eftir skriflegri beiðni húseiganda er þó gjaldfrjáls.

13. gr.
Takmörkuð bótaábyrgð.

Stöðvun á rekstri veitunnar, eða hluta hennar, vegna viðgerða og tenginga skal tilkynna fyrirfram ef unnt er, og koma skal á eðlilegum rekstri aftur svo fljótt sem unnt er.

Réttur viðskiptavinar til afnota af hitaveituvatni skuldbindur ekki VS til þess að tryggja að þrýstingur í dreifiæðum sé ávallt nægilegur, enda geri VS þær ráðstafanir sem ætlast má til af henni til að halda þrýstingnum í eðlilegu horfi.

VS undanskilur sig, að svo miklu leyti sem lög um skaðsemisábyrgð nr. 25/1991 heimila, bótaábyrgð á tjóni, jafnt beinu sem óbeinu, sem rekja má til frosts, bilana eða takmarkana á orkuvinnslunni, spennubreytinga rafmagns, þrýstibreytinga heits vatns, stöðvunar orkuafhendingar eða annarra óviðráðanlegra atvika. Sama gildir ef rennsli í hitaveituæð er stöðvað eða rafstraumur rofinn vegna viðgerða eða annarra nauðsynlegra aðgerða VS.

Viðskiptavinir eiga ekki bótakröfu á hendur VS, þótt straumur hafi verið rofinn eða rennsli stöðvað fyrirvaralaust.

VS ber ekki ábyrgð á óbeinu eða afleiddu tjóni húseiganda eða notanda. VS tekur ekki ábyrgð á veitu viðskiptavinar með úttekt eða tengingum.

Ábyrgðartakmörkun samkvæmt þessari grein er bundin því að beint tjón húseiganda/orkukaupanda verði ekki rakið til mistaka starfsmanna VS.

14. gr.
Mælitæki.

VS setur upp nauðsynleg mælitæki og ákveður fjölda þeirra, tegund og staðsetningu. Mælitækin má ekki flytja án samþykkis VS en VS getur krafist flutnings þeirra, ef staðsetningin er óhentug. Starfsmenn VS skulu ætíð hafa óheftan aðgang að mælitækjum og þeir einir mega rjúfa innsigli þeirra. Önnur innsigli VS mega faglega ábyrgir aðilar rjúfa að fengnu leyfi VS hverju sinni.
Húseiganda er skylt að tryggja aðgengi VS að mælitækjum. VS getur sent húseiganda áskorun um aðgengi að mælitækjum með 7 daga fyrirvara. Verði eigandi ekki við áskorun VS ber hann fulla ábyrgð á orkunotkun frá þeim tíma er fresturinn rann út og einnig ábyrgð á öllum kostnaði sem hlýst af aðgerðum VS við stöðvun á orkuafhendingu.

Mælitæki telst rétt ef mesta skekkja þess er innan 5% marka. Hafi mælitækið sýnt meira en sem nemur mestri leyfilegri skekkju þess, ber VS að endurgreiða eiganda/notanda mismuninn með frádrætti á næsta orkureikningi eða í reiðufé. Ekki skal miða leiðréttingu reikninga við lengra tímabil en eitt ár enda hafi húseiganda/notanda ekki verið ljóst eða mátt vera það ljóst, að um bilun mælitækis væri að ræða.

VS annast venjulegt viðhald mælitækja á sinn kostnað, en verði mælitæki fyrir óvenjulegu hnjaski eða skemmdum er heimilt að skylda notanda sem ábyrgur er fyrir notkun um mælitækið að greiða kostnað við viðhald eða endurnýjun þess.

15. gr.
Orkukaupendur.

Notandi mælitækis er sá sem skráður er fyrir orkunotkun þeirrar veitu sem mælitækið er skráð fyrir. Skal hann bera ábyrgð á mælitækjum og orkunotkun veitunnar þar til hann lætur af notkun hennar og hefur sagt upp notkun eða tilkynnt flutning.

Láti skráður notandi af notkun skal hann tilkynna það til VS með eðlilegum fyrirvara, sem annast loka álestur.

Húseigandi er ábyrgur fyrir tilkynningu til VS um notendaskipti. Vanræki húseigandi tilkynningarskyldu er heimilt að gera hann ábyrgan fyrir ógreiddri orku notkun þess aðila er áður var notandi viðkomandi veitu.

Ef fasteign er seld nauðungarsölu er VS heimilt að skrá orkunotkun á nýjan eiganda fasteignar frá þeim degi sem uppboðsafsal er gefið út.

Heimilt er VS að neita aðilum um að skrá sig fyrir orkunotkun á sama stað, ef aðili þeim nákominn hefur verið skráður þar og vanskil eru vegna orkunotkunar. Skilgreining á orðinu nákominn er bundin við maka, foreldra og börn, en hvað varðar félög er skilgreiningin sú sama og notast er við í lögum nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti.

IV. KAFLI
Misnotkun og viðurlög.
16. gr.
Misnotkun.

Verði uppvíst að orka hafi verið notuð á annan hátt en um er samið eða að raskað hafi verið mælitækjum eða breytt tengingum, þannig að öll notkun komi ekki fram skal VS áætla þá orku sem fram hefur farið óleyfilega og skal notandi greiða fyrir hana eftir gildandi verðskrá þann tíma sem liðinn er frá síðasta aflestri. Ef ekki liggja fyrir sérstakar upplýsingar um líklega notkun má við matið miða við undangengna hámarksnotkun. Við endurtekningu skal rjúfa tengingar viðkomandi við veitukerfið.

17. gr.
Viðurlög.

Með brot á reglugerð þessari eða skilmálum VS skal fara að hætti opinberra mála. Brot á þessari reglugerð varða sektum nema þyngri refsing liggi við að lögum. Auk þess geta brotin varðað bótaskyldu samkvæmt almennum reglum.

Vanræki viðskiptavinur að gera úrbætur sem VS hefur mælt fyrir um, í samræmi við reglugerð þessa, getur VS látið framkvæma það sem þörf krefur, á kostnað viðskiptavinar.

V. KAFLI
Gildistaka og fleira.
18. gr.
Gildistaka og fleira.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í orkulögum, nr. 58/1967, með síðari breytingum og í samræmi við lög um vatnsveitur sveitarfélaga, nr. 32/2004, sbr. tilvísanir í reglugerð um sama efni nr. 401/2005.

Reglugerð þessi öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð fyrir Hitaveitu Seltjarnarness, nr. 183/1971.

Gjaldskrár settar á grundvelli eldri reglugerða skulu halda gildi sínu þar til nýjar verða settar á grundvelli þessarar reglugerðar.


Iðnaðarráðuneytinu, 4. mars 2011. 

F. h. r.
Kristján Skarphéðinsson.
Ingvi Már Pálsson.


B-deild – Útgáfud.: 11. mars 2011

Niðurhala PDF útgáfu

Síðast uppfært 21. nóvember 2022
Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?