Fara í efni

Reglur um félagslega heimaþjónustu hjá Seltjarnarnesbæ

1. grein.
Markmið

Markmið félagslegrar heimaþjónustu er að efla einstaklinga til sjálfsbjargar og gera þeim kleift að búa sem lengst í heimahúsum við sem eðlilegastar aðstæður.

Þegar þjónustuþörf er metin skulu starfsmenn sem framkvæma matið ávallt hafa að leiðarljósi getu og færni umsækjanda sem og annarra heimilismanna.

2. grein.
Hlutverk

Hlutverk félagslegrar heimaþjónustu er að veita:
a) aðstoð við heimilishald (nánar skilgreint í samningi um heimaþjónustu)
b) aðstoð við persónulega umhirðu að því undanskildu sem lýtur að meðhöndlun sjúkdóma og öðrum þáttum sem þarfnast verkþekkingar og færni heilbrigðisstarfsfólks.
c) félagslegan stuðning
d) heimsendingu á matarbökkum.
e) aðstoð við umönnun barna og ungmenna með hliðsjón af aðstæðum þegar um erfiðar fjölskylduaðstæður er að ræða sbr. 13.gr.laga nr. 125/1999 um málefni aldraðra, 8.gr.laga nr. 59/1992 um málefni fatlaðs fólks, 21.gr.barnaverndarlaga nr. 58/1992 og VII.kafla laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga.

3. grein.
Réttur til félagslegrar heimaþjónustu

Rétt til félagslegrar heimaþjónustu eiga þeir einstaklingar sem búa í heimahúsum og geta ekki séð hjálparlaust um heimilishald og/eða persónulega umhirðu vegna skertrar getu, fjölskylduaðstæðna, álags, veikinda, barnsburðar eða fötlunar.

4. grein.
Stjórn

Félagsmálaráð er stjórnarnefnd félagslegrar heimaþjónustu á vegum Seltjarnarnesbæjar.

5. grein.
Dagleg umsjón og stjórnun

Deildarstjóri öldrunarþjónustu hefur daglega umsjón með heimaþjónustu. Hefur umsjón með starfsmannahaldi og annast nýráðningar starfsfólks. Skipuleggur störf starfsmanna og skráir viðveru þeirra á heimilum. Annast tímaskráningu, skráningu forfalla og sumarleyfa og undirbúning vinnuskýrslna.

6. grein.
Umsókn um þjónustu

Sótt er um heimaþjónustu rafrænt í gegnum mínar síður (opnast í nýjum vafraglugga). Starfsmaður félagsþjónustusviðsyfirfer umsókn og metur þjónustuþörf Umsækjandi skal leggja fram vottorð sérfræðings sem staðfestir þörf umsækjanda fyrir þjónustu. Óski umsækjandi eftir ivilnun vegna greiðslu á gjaldi fyrir þjónustuna skal hann leggja fram staðfest afrit skattframtals. Umsækjandi getur veitt öðrum skriflegt umboð til þess að sækja um fyrir sína hönd. Starfsmanni er heimilt að afla staðfestingar frá sérfræðingi, skriflega eða munnlega, að fengnu samþykki umsækjanda.

7. grein.
Mat á aðstoðarþörf

Þjónustuþörf skal metin í hverju einstöku tilviki og leitast við að veita þá þjónustu sem viðkomandi eða aðrir heimilismenn eru ekki færir um að annast sjálfir. Ef aðrir heimilismenn telja sig ekki geta annast þau störf sem óskað er aðstoðar við þurfa þeir að staðfesta það með vottorði sérfræðings. Við mat á aðstoð skal fara eftir verklagsreglum í félagslegri heimaþjónustu. Ef það er niðurstaða mats að þjónustuþegi þurfi meira en 12 klst á viku í heimaþjónustu skal umsókn um aukinn tímafjölda lögð fyrir fjölskyldunefndtil ákvörðunar. Þegar tveir fullorðnir einstaklingar búa saman og hvorugur getur sinnt heimilisstörfum á að meta þá báða í þörf fyrir þjónustu og gildir það mat þó svo að annar falli frá eða fari í aðra búsetu.

8. grein.
Afgreiðsla og þjónustusamningur

Starfsmaður félagsþjónustu leggur mat á þjónustuþörf eftir að hafa heimsótt þjónustuþega og farið yfir gögn og kynnir mat ásamt umsókn og öðrum fylgigögnum á afgreiðslufundi starfsmanna félagsþjónustusviðs. Þar er umsókn samþykkt eða synjað.

Starfsmaður sem metið hefur þjónustuþörf gengur frá samningi um þjónustu og sér til þess að samþykkt þjónusta sé veitt í samræmi við samning.

9. grein.
Samstarf

Við framkvæmd félagslegrar heimaþjónustu skal þess gætt að hafa sem nánast samstarf og samvinnu við þá sem veita viðkomandi aðstoðarþegum þjónustu,svo sem heilsugæslustöð, heimahjúkrun, dagvist aldraðra, félagsráðgjafa og aðrar sjúkra- og heilbrigðisstofnanir.

10. grein.
Reglur og leiðbeiningar

Í gildi eru verklagsreglur í félagslegri heimaþjónustu fyrir starfsmenn félagsþjónustusviðs Seltjarnarnesbæjar settar af fjölskyldunefnd Seltjarnarness, þar sem m. a. eru nánar tiltekin verkefni starsmanna, skyldur þeirra og réttindi.

11. grein.
Vinnutími starfsmanna

Vinnutími starfsmanna er að jafnaði dagvinnutími, frá mánudegi til föstudags. Vinna utan þess tíma er heimil í þeim tilvikum þegar aðstoðarþegi þarf meiri þjónustu skv. mati starfsmanns félagsþjónustu, sbr. verklagsreglur.

12. grein.
Forföll

Aðstoðarþegi skal tilkynna umsjónarmanni heimaþjónustu ef hann forfallast og getur ekki tekið á móti starfsmanni.

13. grein.
Námskeið

Lögð er áhersla á að sem flestir starfsmenn hafi lokið sérstökum námskeiðum fyrir starfsfólk í félagslegri heimaþjónustu.

14. grein
Þagnarskylda

Starfsmenn skulu gæta þagmælsku um það sem þeir fá vitneskju um í störfum sínum og helst þagnarskyldan þótt viðkomandi láti af störfum. Starfsmönnum er óheimilt að taka við greiðslum eða gjöfum frá aðstoðarþegum.

15. grein.
Gjaldskrá

Fyrir félagslega heimaþjónustu skal greitt eftir gjaldskrá sem bæjarstjórn setur að fengnum tillögum frá fjölskyldunefnd

16. grein.
Afgreiðsla umsókna

Umsækjandi fær skriflegt svar um afgreiðsu umsóknar. Sé umsókn synjað fær umsækjandi skriflegar upplýsingar þar sem forsendur synjunar eru rökstuddar.Umsækjandi fær einnig skriflegar upplýsingar um áfrýjunarrétt.

17. grein.
Áfrýjun

Umsækjandi um félagslega heimaþjónustu getur skotið ákvörðun afgreiðslufundar starfsmanna til fjölskyldunefndar.

Ákvörðun fjölskyldunefndar má afrýja til úrskurðarnefndar velferðarmála, sbr.lög nr.85/2015. Skal það gert innan fjögurra vikna frá því að umsækjanda barst vitneskja um ákvörðun.

18. grein.
Gildistími

Reglur þessar eru settar samkvæmt lögum nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga og öðlast gildi


Reglur þessar voru samþykktar i Bæjarstjórn Seltjarnarnesbæjar 14. mars 2018

Síðast uppfært 14. nóvember 2022
Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?