Fara í efni

Bókasafn Seltjarnarness

Bókasafn Seltjarnarness er upplýsinga- og menningarmiðstöð Seltirninga og er öllum opið. Hlutverk safnsins sem almenningsbókasafn er að veita bæði börnum og fullorðnum greiðan aðgang að fjölbreyttum bókakosti, rafrænum miðlum og tölvubúnaði til fræðslu og afþreyingar.

Starfsfólk bókasafnsins tekur vel á móti gestum safnsins og er ávallt reiðubúið að aðstoða við bókaval og upplýsingaleit. Samstarf er við Borgarbókasafnið og Bókasafn Mosfellsbæjar sem felur í sér að hægt er að fá lánuð gögn á einu safni og skila því á öðru.

Bókasafn Seltjarnarness er vettvangur fyrir félags- og menningarlíf bæjarbúa en reglulega er boðið upp á viðburði og sýningar fyrir alla aldurshópa. Sem dæmi má nefna listsýningar, bókmenntakvöld, sögustundir, fjölbreytt barnastarf, tónleika, sumarlestur, uppákomur, fyrirlestra og námskeið. Einnig er starfandi sjálfbær prjónaklúbbur í safninu. 

Bókasafn Seltjarnarness - Barnahorn

 

Bókasafn Seltjarnarness - Gallerí Grótta

Gallerí Grótta er sýningarsalur innan bókasafnsins þar sem haldnar eru listsýningar allt árið um kring. Salurinn er afar eftirsóttur og geta listamenn sótt um að halda sýningu þar. Nánari upplýsingar um sýningarhald er að finna neðar á síðunni.

Gallerí Grótta er ennfremur fjölnotasalur þar sem haldnir eru hinir ýmsu viðburðir, fyrirlestrar og fundir en hægt er að leigja salinn.

 

 

Náttúrugripasafn Seltjarnarness er að hluta til á bókasafninu en þar má m.a. sjá uppstoppaða fugla, bæði algenga fugla á Seltjarnarnesi eins og kríu, hrafn, heiðlóu og tjald en einnig fáséðari fugla eins og Haförn. Safnið var opnað 18. maí 1982 og er það að stærstum hluta staðsett í Valhúsaskóla.

Bókasafn Seltjarnarness - Náttúrugripasafn Seltjarnarness

Saga safnsins í stuttu máli

Bókasafn Seltjarnarness var upphaflega hluti af starfsemi Framfarafélags Seltirninga sem stofnað var 6. desember 1883. Lestrarfélag Framfarafélagsins hélt sinn fyrsta fund 21. nóvember 1885. Framfarafélaginu var slitið árið 1943 og var þá ákveðið að bókasafn félagsins gengi til Seltjarnarneshrepps en það hafði þá að geyma um 2500 bindi bóka. Upphaflega var safnið til húsa í Mýrarhúsaskóla eldri, en fékk síðar inni í byggingu nýs Mýrarhúsaskóla. Árið 1983 flutti bókasafnið í nýtt húsnæði Heilsugæslunnar að Skólabraut en flutti svo í núverandi húsnæði á Eiðistorgi árið 2003.

Listasafn Bókasafns Seltjarnarness prýðir veggi bókasafnsins en safnið á mikinn fjölda listaverka eftir ýmsa þekkta listamenn sem það hefur fengið að gjöf. Má þar m.a. nefna veglega listaverkagjöf hjónanna Ingibjargar Guðmundsdóttur og Sverris Sigurðssonar árið 1985 en verkin eru eftir meðlimi Septem-hópsins, þau Jóhannes Jóhannesson, Karl Kvaran, Guðmundu Andrésdóttur, Kristján Davíðsson, Þorvald Skúlason og Valtý Pétursson.

 

 

Leigja fjölnotasal - Gallerí Grótta upplýsingar

Salurinn er um 70 m2 að stærð og geta fylgt honum borð og um 70 stólar. Salurinn er leigður út fyrir minni viðburði, fundi, námskeið og fleira og eru í honum skjávarpi og tjald. Einnig er hægt að fá aðgang að eldhúsi vegna veitinga.

Panta má salinn í afgreiðslu Bókasafnsins í síma 5959170.
Salurinn er opinn á afgreiðslutíma safnsins frá 10–18.30 virka daga nema föstudaga frá 10-17 og laugardaga frá 11-14 frá 1. september - 31. maí. Lokað er á laugardögum yfir sumartímann.

Ef óskað er eftir notkun salarins utan hefðbundins opnunartíma má koma óskum um það til starfsfólks.

Leiga á Gallerí Gróttu fylgir gjaldskrá Seltjarnarnesbæjar 

 

Athugið að Gallerí Grótta sýningarsalur er ekki leigður út fyrir myndlistarsýningar.

Fyrirkomulag vegna sýningarhalds í Gallerí Grótta 

  • Stjórnendur salarins velja sýnendur til sýningarhalds en einnig er hægt að sækja um sýningarhald í salnum
  • Sýnendur greiða ekki fyrir sýningarhald í Gallerí Gróttu
  • Sýnendum er ekki greitt fyrir sýningarhald
  • Sýningar eru á ábyrgð sýnenda og trygging verkanna í þeirra höndum
  • Gallerí Grótta tekur ekki þóknun fyrir sölu á verkum sem þar eru til sýnis
  • Sýnendur sjá sjálfir um upphengi og niðurtöku í samráði við starfsmenn salarins (helstu áhöld til upphenginga eru á staðnum s.s. naglar, hamar, hallarmál o.fl.)
  • Sýnendur standa straum af kostnaði sem kann að felast í uppsetningunni nema um annað sé samið sérstaklega
  • Sýnendur skili texta um sýninguna, ferilskrá og myndum í prenthæfri upplausn minnst mánuði fyrir sýningaropnun
  • Sýnendur geta fengið rafræn boðskort sem útbúin verða til að bjóða fólki sérstaklega á sýninguna
  • Sýnendur geta fengið rafræna fréttatilkynningu kjósi þeir að vekja sérstaka athygli fjölmiðla eða einstakra fjölmiðlamanna umfram það sem fer í nafni Gallerí Gróttu
  • Hver sýning er almennt í um það bil 4 vikur nema um annað sé sérstaklega samið
  • Sýnendur sjá sjálfir um að sparsla í göt og pensla yfir að lokinni sýningu (efni og áhöld á staðnum)

Eftirfarandi atriði annast stjórnendur salarins

  • Hönnun og uppsetningu á stuttum veggtexta um sýninguna
  • Hönnun og prentun á staðlaðri sýningarskrá (ein A5 síða) og plakati (stærð A3, 15 stk.) sem dreift er um nágrenni salarins
  • Útsendingu rafrænna fréttatilkynninga og myndefnis til fjölmiðla og á póstlista bókasafnsins
  • Hönnun og útsendingu á rafrænu boðskorti á póstlista og til tengdra félagasamtaka
  • Gerð viðburðar á Facebook
  • Ljósmyndatöku á sýningaropnunum

Gallerí Grótta er opið samkvæmt opnunartíma bókasafnsins, mánudaga til fimmtudaga frá kl. 10:00 - 18:30, föstudaga frá kl. 10:00 - 17:00 og laugardaga frá kl. 11:00 - 14:00 (sept-maí, lokað júní-ágúst). Ef sýnendur óska þess að hafa opið á öðrum tímum þá er það auðsótt mál en sjá þá sjálfir um yfirsetu. Umframopnun þarf helst að liggja fyrir áður en kynning á sýningunni fer fram þannig að slíkt geti komið fram á plakati og á boðskorti.

 

Umsókn um sýningarhald í Gallerí Gróttu fram í gegnum mínar síður.

Gjaldskrá Bókasafns Seltjarnarness

Gjaldskrá Bókasafns Seltjarnarness gildir frá 1. janúar 2024

Árgjald Verð
Lánþegakort (18-67 ára)  3.060 kr. árið
Börn og unglingar undir 18 ára aldri, eldri borgarar og öryrkjar greiða ekki árgjald. Ókeypis
Gild lánþegaskírteini í BS veita lánþegum aðgang að Borgarbókasafni Reykjavíkur og Bókasafni Mosfellsbæjar.  Sömuleiðis gilda lánþega skírteini í BR og BM í Bókasafni Seltjarnarness. Gildistími skírteina er samræmdur í söfnunum.
Dagsektir Verð
Bækur og önnur gögn 75 kr.
Hámarkssekt á gagn 800 kr.
Hámarkssekt 8.230 kr.
Millisafnalán 1.350 kr.
Önnur gjöld Verð
Nýtt lánþegakort fyrir glatað kort
(tilkynna ber bókasafninu ef skírteini glatast)
110 kr.
Ljósrit/prentun A4 sv/hv 65 kr.
Ljósrit/prentun A3 sv/hv 90 kr.
Ljósrit/prentun A4 lit 165 kr.
Ljósrit/prentun A3 lit 220 kr.
Skönnun 55 kr.
Viðmiðunargjald fyrir glötuð gögn Verð
Glatist eða skemmist safnefni í vörslu lánþega greiðir hann andvirði þess skv.:   
Ný gögn innan 2ja ára Innkaupsverð
Eldri bækur, hljóðbækur, myndbönd og tungumálanámskeið 3.900 kr.
Gallerí Grótta - fjölnotasalur með skjávarpa  Verð
Leiga á sal vegna afnota fyrir fundi, fyrirlestra, námskeið o.fl. 27.500 kr.
Glös og þvottur 6.000 kr.
Kaffi - 16 bollar 3.600 kr.
    Það er alltaf á ábyrgð lánþega að skila gögnum safnsins tímanlega. Sending áminningarbréfa í tölvupósti er aukaþjónusta sem safnið veitir og má ekki treysta á að þau berist.
    Gjaldskrá fyrir árið 2024 samþykkt í bæjarstjórn Seltjarnarnesbæjar þann 28. desember 2023
Síðast uppfært 09. desember 2024
Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?