Fara í efni

Reglur Seltjarnarnesbæjar um veitingu fjárstyrks til greiðslu lögmannsaðstoðar samkvæmt barnaverndarlögum

1. gr.

Með vísan til 47. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 veitir fjölskyldunefnd Seltjarnarness for­eldrum eða öðrum forsjáraðilum og barni 15 ára og eldra sem er aðili máls fjárstyrk til greiðslu lög­mannsaðstoðar ef málefni þeirra sæta meðferð fyrir fjölskyldunefnd Seltjarnarness. Veittur er fjár­styrkur vegna fyrirtöku á fundi fjölskyldunefndar og undirbúnings vegna fyrirtöku málsins. Aðeins er veittur fjárstyrkur þegar til greina kemur að beita þvingunarúrræðum samkvæmt barna­vernd­ar­lögum nr. 80/2002. Ekki er veittur styrkur vegna viðveru lögmanns á fundum með starfs­mönnum nefndar­innar nema sérstaklega hafi verið óskað eftir viðveru lögmanns af hálfu starfs­manns.

2. gr.

Fjölskyldunefnd Seltjarnarness veitir einnig aðilum máls fjárstyrk til greiðslu lögmanns­kostn­aðar fyrir úrskurðarnefnd velferðarmála, sbr. 5. gr. reglna þessa, sbr. og 2. mgr. 47. gr. barnaverndar­laga nr. 80/2002.

3. gr.

Foreldrar eða aðrir forsjáraðilar barns og barn 15 ára og eldra sem er aðili að máli velja sér sjálfir lögmann. Fjárstyrkur til greiðslu lögmannskostnaðar er háður því að lögmaður hafi réttindi til mál­flutnings fyrir héraðsdómi eða Hæstarétti, sbr. lög nr. 77/1998 um lögmenn.

4. gr.

Félagsmálastjóri Seltjarnarness afgreiðir umsóknir um fjárstyrk til greiðslu lögmannsaðstoðar skv. 2. mgr. 47. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Með beiðni um fjárstyrk skal fylgja tímaskýrsla lögmanns. Að jafnaði skal ekki veittur fjárstyrkur til greiðslu fleiri en 15 klst. vegna meðferðar máls fyrir fjölskyldunefnd og 10 klst. vegna meðferðar máls fyrir úrskurðarnefnd velferðarmála.

5. gr.

Beiðni um styrk skal vera skrifleg. Fjárhæð styrkjar skal metin með hliðsjón af eðli og umfangi málsins og skal tekið tillit til efnahags styrkbeiðanda þegar ákvörðun um fjárstyrk er tekin. Heimilt er að veita styrk þegar efnahag styrkbeiðanda er þannig háttað að kostnaður af gæslu hagsmuna hans er honum fjárhagslega ofviða. Að jafnaði skal ekki veita styrk ef stofn til útreiknings tekju­skatts og útsvars og fjármagnstekjur styrkbeiðanda nema hærri fjárhæð en kr. 4.000.000. Sé styrkbeiðandi í hjúskap eða sambúð ber að hafa hliðsjón af tekjum maka og skulu samanlagðar árstekjur ekki nema hærri fjárhæð en kr. 5.500.000. Þó má veita styrk ef tekjur eru umfram framan­greindar viðmiðunar­fjár­hæðir í sérstökum undantekningartilvikum, t.d. ef mál er sérstaklega umfangs­mikið og flókið, fram­færslukostnaður styrkbeiðanda er óvenjulega hár af einhverjum ástæðum, aflahæfi hans eða maka eða sambúðaraðila er verulega skert til frambúðar eða aðrar knýjandi ástæður mæla með því.

6. gr.

Viðmiðunartímagjald er ákveðið af félagsmálastjóra að höfðu samráði við afgreiðslufund starfs­manna félagsþjónustunnar.

7. gr.

Ákvörðun um fjárhæð styrkjar er kæranleg til úrskurðarnefndar velferðarmála, sbr. 6. gr. barna­verndarlaga nr. 80/2002.

8. gr.

Reglur þessar skulu kynntar aðilum máls sem sæta meðferð fjölskyldunefndar Seltjarnar­ness (sem fer með málefni barnaverndar) og þeim lögmönnum sem taka að sér að aðstoða aðila, sbr. 47. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.

Reglur þessar voru samþykktar í fjölskyldunefnd Seltjarnarness þann 19. september 2019 og sam­þykktar af bæjarstjórn Seltjarnarnesbæjar þann 9. október 2019. Reglurnar taka gildi þann 1. janúar 2020.

 

Birt í B deild Stjórnartíðinda - Útgáfud.: 17. desember 2019

Síðast uppfært 15. nóvember 2022
Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?