I. KAFLI
Skilgreiningar og grundvöllur
1. gr.
Grundvöllur
Samþykkt þessi er sett á grundvelli 3. mgr. 12. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002, með síðari breytingum („barnaverndarlög‟). Í samþykkt þessari er þar til greindum starfsmönnum barnaverndarþjónustu Seltjarnarnesbæjar falið umboð til könnunar, meðferðar og ákvarðanatöku í einstökum barnaverndarmálum og öðrum málum þar sem barnaverndarþjónusta fer lögum samkvæmt með ákvörðunarvald. Sé ekki sérstaklega mælt fyrir um það í samþykkt þessari hver hefur heimild til að taka ákvörðun f.h. barnaverndarþjónustu Seltjarnarnesbæjar hefur deildarstjóri félagsþjónustu og barnaverndar, eða sviðsstjóri heimild til að taka slíka ákvörðun. Sviðsstjóri getur tekið ákvarðanir og gegnt hlutverkum sem eru á valdi deildarstjóra samkvæmt samþykkt þessari í hans fjarveru.
2. gr.
Skilgreining á hugtökum
Deildarstjóri félagsþjónustu og barnaverndar er stjórnandi barnaverndarþjónustunnar.
Tilkynninga- og barnaverndarmálafundur er fundur teymis barnaverndarþjónustu, þar sem fram fara umræður um einstök mál, sjónarmið fagaðila, barna og foreldra eru ígrunduð og lagt mat á stefnu máls. Tilkynninga- og barnaverndarmálafundur eru að jafnaði haldnir vikulega og stýrt af deildarstjóra félagsþjónustu og barnaverndar.
Séræfður starfsmaður er starfsmaður barnaverndarþjónustu Seltjarnarnesbæjar og telst til sérhæfðs starfsfólks í skilningi 3. mgr. 11. gr. barnaverndarlaga.
Starfsfólk fjölskyldusviðs er starfsfólk á fjölskyldusviði Seltjarnarnesbæjar sem tilheyrir hvort sem er deild barnaverndarþjónustu eða öðrum deildum sem undir fjölskyldusvið heyra, svo sem stuðnings- eða stoðþjónustudeild.
Sviðsstjóri er stjórnandi fjölskyldusviðs.
Teymi barnaverndarþjónustu samanstendur af starfsmönnum fjölskyldusviðs sem skv. starfslýsingu hefur aðkomu að barnaverndarþjónustu.
Tilkynninga- og barnaverndarmálafundur er vikulegur fundur deildarstjóra og teymis barnaverndarþjónustu þar sem teknar eru ákvarðanir um könnun máls og úthlutun tiltekinna mála til starfsmanna. Í fjarveru deildarstjóra getur sviðsstjóri eða tiltekinn sérhæfður starfsmaður stýrt fundi fyrir hans hönd og tekið ákvarðanir í hans umboði.
3. gr.
Heimildir og umboð starfsmanna
Í forföllum eða fjarveru deildarstjóra félagsþjónustu og barnaverndar leysir tiltekinn sérhæfður starfsmaður eða sviðsstjóri hann af.
4. gr.
Valdsvið og samstarf barnaverndarþjónustna
Deildarstjóri félagsþjónustu og barnaverndar getur samið við aðrar barnaverndarþjónustur um að mál skuli að einhverju eða öllu leyti unnið í þeirra umdæmi, þó barn hafi fasta búsetu á Seltjarnarnesi. Sömuleiðis getur deildarstjóri samið við aðrar barnaverndarþjónustur um að mál skuli að einhverju eða öllu leyti unnið í umdæmi barnaverndarþjónustu Seltjarnarnesbæjar þó barn hafi fasta búsetu annars staðar. Að öðru leyti fer um þessi mál samkvæmt 15. gr. barnaverndarlaga.
Ef vinda þarf bráðan bug að ráðstöfun, skv. 31. gr. barnaverndarlaga, vegna barns sem statt er á Seltjarnarnesi en hefur fasta búsetu annars staðar getur sérhæfður starfsmaður, í samráði við deildarstjóra, án undangenginnar málsmeðferðar skv. VIII. kafla barnaverndarlaga, framkvæmt hana. Starfsmaður skal án tafar tilkynna viðkomandi barnaverndarþjónustu um málið sem skal taka málið til meðferðar og taka allar frekari ákvarðanir. Viðkomandi barnaverndarþjónusta sendir tilkynningu til Gæða- og eftirlitsstofnunar um ráðstöfun barns til bráðabirgða.
II. kafli
Upphaf og könnun barnaverndarmáls
5. gr.
Nafnleynd
Tilkynnandi skv. 16. gr. barnaverndarlaga skal njóta nafnleyndar gagnvart öðrum en barnaverndarþjónustu Seltjarnarnesbæjar, óski hann þess, nema sérstakar ástæður mæli gegn því. Óski aðili máls eftir afléttingu á nafnleynd getur deildarstjóri eða sviðsstjóri tekið ákvörðun um að synja um afléttingu nafnleyndar.
Ef rökstuddur grunur er um að tilkynnandi hafi vísvitandi komið á framfæri rangri eða villandi tilkynningu getur deildarstjóri eða sviðsstjóri tekið ákvörðun um að aflétta nafnleyndinni. Ef tekin er ákvörðun um að aflétta nafnleynd getur deildarstjóri eða sviðsstjóri óskað lögreglurannsóknar á meintu broti gegn 96. gr. barnaverndarlaga.
6. gr.
Ákvörðun um könnun máls
Þegar tilkynning berst skal sérhæfður starfsmaður eða deildarstjóri taka afstöðu til þess hvort ástæða sé til að vísa máli til tilkynningarfundar til ákvarðanatöku.
Deildarstjóri ásamt teymi barnaverndarþjónustu tekur ákvörðun á tilkynningarfundi um hvort hefja skuli könnun máls. Ákvörðun um að hefja könnun máls skal ekki tekin nema rökstuddur grunur sé um að tilefni sé til.
Deildarstjóri ásamt teymi barnaverndarþjónustu tekur ákvörðun um að fresta tilkynningu til foreldra vegna ríkra rannsóknarhagsmuna, sbr. 4. mgr. 21. gr. barnaverndarlaga og bókar þar um.
Ef brýna nauðsyn ber til hefur sérhæfður starfsmaður, að höfðu samráði við deildarstjóra, heimild til að hefja könnun án þess að tilkynningarfundur hafi fjallað um málið.
Þegar tekin hefur verið ákvörðun um að hefja könnun máls vinnur deildarstjóri málið eða úthlutar því til sérhæfðs starfsmanns.
7. gr.
Úthlutun annarra mála
Mál sem heyra undir barnaverndarþjónustu Seltjarnarnesbæjar en eru ekki unnin á grundvelli V. kafla barnaverndarlaga skal deildarstjóri úthluta til sérhæfðs starfsmanns.
8. gr.
Skipan talsmanns
Þegar tekin hefur verið ákvörðun um að hefja könnun máls skal sérhæfður starfsmaður að höfðu samráði við deildarstjóra taka afstöðu til þess í bókun hvort þörf sé á að skipa barni talsmann.
9. gr.
Könnun máls
Deildarstjóri eða sérhæfður starfsmaður sem fer með könnun máls sér um að afla upplýsinga í samræmi við ákvæði barnaverndarlaga og reglugerða, leita aðstoðar sérfræðinga og óska eftir þjónustu Barnahúss eftir því sem við á, sbr. 22. gr. barnaverndarlaga. Leitast skal við að könnun fari fram í samráði og samvinnu við forsjáraðila, þó ætíð með hagsmuni barns að leiðarljósi. Deildarstjóri og sérhæfður starfsmaður fara með þær rannsóknarheimildir sem mælt er fyrir um í 43. gr. barnaverndarlaga. Deildarstjóri og sérhæfður starfsmaður taka þátt í samþættingu þjónustunnar frá upphafi barnaverndarmáls ef fyrir liggur beiðni um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barns. Ef ekki liggur fyrir beiðni um samþættingu þjónustu ber ráðgjafa við upphaf könnunar og eftir þörfum á meðan könnun vindur fram, að leiðbeina foreldrum og/eða barni um rétt samkvæmt lögum um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna nr. 86/2021.
Að lokinni könnun máls skulu sérhæfður starfsmaður og deildarstjóri taka ákvörðun á meðferðarfundi um hvort loka eigi málinu eða gera áætlun um meðferð máls, sbr. 1. mgr. 23. gr. barnaverndarlaga.
10. gr.
Lögreglurannsókn
Ef grunur leikur á að alvarlegt refsivert brot hafi verið framið gagnvart barni tekur sérhæfður starfsmaður ákvörðun um að óska lögreglurannsóknar. Eftir atvikum skal leita samþykkis forsjáraðila sem hefur barn í sinni umsjá og hafa samráð við barn. Deildarstjóri skal upplýstur um að máli hafi verið vísað í lögreglurannsókn.
11. gr.
Neyðarráðstafanir
Ef vinda þarf bráðan bug að ráðstöfun skv. 31. gr. barnaverndarlaga sem heyrir undir barnaverndarþjónustu Seltjarnarnesbæjar getur deildarstjóri eða sérhæfður starfsmaður að höfðu samráði við deildarstjóra, framkvæmt hana án undangenginnar málsmeðferðar skv. VIII. kafla barnaverndarlaga.
Með samþykki forsjáraðila getur deildarstjóri eða sérhæfður starfsmaður tekið ákvörðun um neyðarráðstöfun gagnvart barni sem er 15 ára eða eldra. Deildarstjóra skal þá gert viðvart um ráðstöfunina.
Við aðstæður þær sem 1. mgr. 31. gr. barnaverndarlaga tekur til er deildarstjóra eða sérhæfðum starfsmanni heimilt, þrátt fyrir ákvæði 4. mgr. 43. gr., að fara inn á heimili enda sé ástæða til að ætla að barn sé í bráðri hættu. Deildarstjóra skal gert viðvart um ákvörðunina.
Ef beita þarf neyðarráðstöfun skv. 31. gr. barnaverndarlaga sendir deildarstjóri eða sérhæfður starfsmaður tilkynningu um ráðstöfun barns til bráðabirgða til Gæða- og eftirlitsstofnunar.
III. kafli
Ráðstafanir barnaverndarþjónustu
12. gr.
Áætlun um meðferð máls
Sérhæfður starfsmaður, í samvinnu við forsjáraðila og eftir atvikum barn sem náð hefur 15 ára aldri, skal gera skriflega áætlun um meðferð máls og undirritar áætlunina f.h. barnaverndarþjónustu Seltjarnarnesbæjar.
Deildarstjóri eða sérhæfður starfsmaður skal, í samráði við deildarstjóra, gera einhliða áætlun um framvindu máls og beitingu úrræða, náist ekki samkomulag við foreldra eða barn, þegar það á við, sbr. 24. gr. reglugerðar nr. 56/2004 og 4. mgr. 23. gr. barnaverndarlaga.
Sérhæfður starfsmaður og deildarstjóri taka ákvörðun um lokun máls þegar áætlun rennur út eða meðan meðferðaráætlun er í gangi ef aðstæður barns verða viðunandi eða ekki er af öðrum ástæðum þörf á áframhaldandi vinnslu á grundvelli barnaverndarlaga.
13. gr.
Framkvæmd meðferðaráætlunar
Deildarstjóri eða sérhæfður starfsmaður skal sjá um alla framkvæmd meðferðaráætlunar. Hann skal koma á þeim stuðningi sem þar er mælt fyrir um og þörf er á, þar á meðal samþættingu þjónustu í þágu farsældar barns. Hann skal meta þörf á samstarfi við aðra aðila sem veitt gætu stuðning eða vinna í málum barnsins og koma á slíku samstarfi sé þess þörf. Deildarstjóri eða sérhæfður starfsmaður geta, með samþykki foreldra, beitt þeim úrræðum sem kveðið er á um í 24. og 26. gr. barnaverndarlaga, sbr. einnig 10. gr. reglugerðar nr. 652/2004. Ef beita þarf úrræði utan heimilis með samþykki foreldra og barns, skv. 25. gr. barnaverndarlaga, sendir sérhæfður starfsmaður tilkynningu um ráðstöfun barns til bráðabirgða til Gæða- og eftirlitsstofnunar.
14. gr.
Úrræði utan heimilis með samþykki foreldra og barns
Sérhæfður starfsmaður og deildarstjóri geta, með samþykki foreldra og barns sem náð hefur 15 ára aldri mælt fyrir um að:
a) barnaverndarþjónusta Seltjarnarnesbæjar taki við forsjá eða umsjá barns og ráðstafað barni í fóstur,
b) barnaverndarþjónusta Seltjarnarnesbæjar taki við forsjá eða umsjá barns og vistað barn utan heimilis á heimili eða stofnun eða leitað annarra úrræða skv. XIII. og XIV. kafla barnaverndarlaga til umönnunar, rannsóknar, meðferðar eða stuðnings.
Ákvörðun um að taka við forsjá eða umsjá barns sbr. a. og b. lið skal tekin að undangengnu samráði á meðferðarfundi.
Sérhæfður starfsmaður og deildarstjóri geta ákveðið með samþykki ungmennis að ráðstöfun í fóstur eða vistun haldist eftir að ungmenni verður 18 ára, allt til 20 ára aldurs. Ákvörðun skal tekin að undangengnu samráði á meðferðarfundi. Ungmenni getur skotið synjun, um að ráðstöfun í fóstur eða vistun haldist eftir að viðkomandi verður 18 ára, til úrskurðarnefndar velferðarmála.
15. gr.
Vinnsla máls meðan vistun og fóstur varir
Þegar fyrir liggur ákvörðun um vistun eða fóstur barns skal deildarstjóri eða sérhæfður starfsmaður fara með alla vinnslu máls á meðan vistun eða fóstur varir. Í því felst m.a. að sækja um vistun á meðferðarheimili á vegum Barna- og fjölskyldustofu, gera vistunarsamning á grundvelli 80. gr. barnaverndarlaga, sækja um vistun/fóstur á grundvelli 84. gr. barnaverndarlaga, ganga frá áætlun um trygga umsjá barns á grundvelli 25. gr. reglugerðar nr. 56/2004 og 33. gr. barnaverndarlaga, koma á stuðningi við barn og/eða vistunaraðila, hafa frumkvæði að umgengni við nákomna eftir því sem þörf er á og gera samning um umgengni, fylgja eftir áætlun um meðferð og vistun barns, meta tímanlega árangur af fóstri eða vistun áður en henni lýkur og þörf á beitingu frekari úrræða.
16. gr.
Úrræði án samþykkis foreldra
Sérhæfður starfsmaður og deildarstjóri taka ákvörðun, að höfðu samráði við lögfræðing, um að fara fram á það við umdæmisráð barnaverndar að ráðið kveði upp úrskurð gegn vilja foreldra og/eða barns sem er 15 ára eða eldra í samræmi við 26. - 29. gr. barnaverndarlaga. Ákvörðun skal tekin að undangengnu samráði á meðferðarfundi. Ef beita þarf úrræðum skv. 27.- 29. gr. barnaverndarlaga sendir deildarstjóri eða sérhæfður starfsmaður tilkynningu um ráðstöfun barns til bráðabirgða til Gæða- og eftirlitsstofnunar.
17. gr.
Úrræði vegna ófæddra barna
Sérhæfður starfsmaður og deildarstjóri taka ákvörðun, að höfðu samráði við lögfræðing, hvort gera skuli kröfu fyrir dómi um sviptingu sjálfræðis barnshafandi einstaklings samkvæmt ákvæðum lögræðislaga, í samræmi við 2. Mgr. 30. Gr. barnaverndarlaga. Ákvörðun skal tekin að undangengnu samráði á meðferðarfundi.
18. gr.
Endurskoðun ráðstafana
Sérhæfður starfsmaður og deildarstjóri taka afstöðu til beiðni um endurskoðun ráðstafana í samræmi við 2. Mgr. 34. Gr. barnaverndarlaga. Ákvörðun skal tekin að undangengnu samráði á meðferðarfundi.
19. gr.
Brottvikning heimilismanns og nálgunarbann
Sérhæfður starfsmaður og deildarstjóri taka ákvörðun um að setja fram beiðni til lögreglu í samræmi við 37. Gr. barnaverndarlaga. Ákvörðun skal tekin að undangengnu samráði á meðferðarfundi.
20. gr.
Fyrirsvar vegna dómsmála
Bæjarstjóri Seltjarnarnsbæjar fer með fyrirsvar barnaverndarþjónustu fyrir dómi. Deildarstjóri, að höfðu samráði við sérhæfðan starfsmann, tekur nauðsynlegar ákvarðanir um meðferð máls fyrir dómi, svo sem hvort afla eigi mats dómkvaddra matsmanna o.s.frv. Ákvarðanir um sættir eða að falla frá máli skulu staðfestar af sviðsstjóra í hans fjarveru.
IV. kafli
Ráðstöfun barna í fóstur
21. gr.
Fóstur
Sérhæfður starfsmaður og deildarstjóri, að höfðu samráði á meðferðarfundi, taka ákvörðun um að ráðstafa barni í fóstur í samræmi við XII. kafla barnaverndarlaga þegar fyrir liggja þær aðstæður sem mælt er fyrir um í 65. gr. barnaverndarlaga og 2. gr. reglugerðar nr. 858/2013. Sérhæfður starfsmaður og deildarstjóri taka ákvörðun um þau atriði sem mæla skal fyrir um í fóstursamningi sbr. 68. gr. barnaverndarlaga, svo sem forsjárskyldur fósturforeldra, fósturtíma, greiðslur til fósturforeldra, umgengni í fóstri, stuðning við barn og fósturforeldra og annað sem máli skiptir.
22. gr.
Beiðni um fósturheimili og val á fósturforeldrum
Sérhæfður starfsmaður sendir beiðni um fósturheimili til Barna- og fjölskyldustofu í samræmi við 15. gr. reglugerðar nr. 804/2004. Deildarstjóri eða sérhæfður starfsmaður velur fósturforeldra úr hópi þeirra sem eru á skrá í samráði við Barna- og fjölskyldustofu, sbr. 16. gr. reglugerðar nr. 804/2004. Deildarstjóri eða sérhæfður starfsmaður undirbýr barn undir viðskilnað við foreldra. Deildarstjóri eða sérhæfður starfsmaður skal leita umsagnar forsjárlauss foreldris áður en barni er ráðstafað í fóstur.
23. gr.
Réttarstaða foreldris sem ekki fer með forsjá barns
Ef aðeins annað foreldra fer með forsjá barns þegar úrskurður eða svipting á sér stað eða foreldri sem fer eitt með forsjá afsalar sér umsjá eða forsjá til barnaverndarþjónustu Seltjarnarnesbæjar getur sérhæfður starfsmaður og deildarstjóri, að höfðu samráði á meðferðarfundi, taka ákvörðun um að ráðstafa barni til hins foreldrisins eða fela því forsjá barnsins, sbr. 67. gr. a. barnaverndarlaga.
24. gr.
Réttarstaða foreldris sem barn býr ekki hjá þegar um sameiginlega forsjá er að ræða
Ef foreldri sem barn býr hjá þegar báðir fara sameiginlega með forsjá, afsalar sér umsjá barns skv. 25. gr. barnaverndarlaga eða kveðinn er upp úrskurður um tímabundna vistun utan heimilis skv. 27. eða 28. gr. barnaverndarlaga taka sérhæfður starfsmaður og deildarstjóri, ákvörðun um að hitt foreldrið eða aðrir taki við umsjá þess. Ákvörðun skal tekin að undangengnu samráði á meðferðarfundi.
25. gr.
Fóstursamningur
Þegar fóstur barns hefur verið samþykkt skal sérhæfður starfsmaður ganga frá fóstursamningi og undirrita f.h. barnaverndarþjónustu Seltjarnarnesbæjar.
Ef breytingar verða á högum fósturforeldra á fósturtíma skal sérhæfður starfsmaður meta hvort þörf sé á að endurskoða fóstursamning í samræmi við 77. gr. barnaverndarlaga. Sérhæfður starfsmaður og deildarstjóri taka ákvörðun um hvort þörf sé á endurskoðun fóstursamnings, að undangengnu samráði á meðferðarfundi. Ákvörðun getur falið í sér að breyta fóstursamningi, halda honum óbreyttum eða fella hann úr gildi. Ákvörðun er kæranleg til úrskurðarnefndar velferðarmála.
26. gr.
Greiðslur til fósturforeldra
Sérhæfður starfsmaður og deildarstjóri, að undangengnu samráði á meðferðarfundi, taka ákvörðun um fjárhæð fósturlauna í samræmi við 5. gr. reglugerðar nr. 858/2013. Fósturforeldrar geta óskað eftir endurskoðun á fjárhæð fósturlauna ef þeir telja að umönnunarþörf barns hafi breyst frá því að fóstursamningur var gerður. Ákvörðun er kæranleg til úrskurðarnefndar velferðarmála.
Sérhæfður starfsmaður og deildarstjóri, að undangengnu samráði á meðferðarfundi, taka ákvörðun um greiðslur í styrktu fóstri með Barna- og fjölskyldustofu, í samræmi við 6. gr. reglugerðar nr. 858/2013.
Fari fósturforeldrar fram á greiðslur á ófyrirséðum kostnaði með rökstuddri beiðni í samræmi við 8. gr. reglugerðar nr. 858/2013 skulu sérhæfður starfsmaður og deildarstjóri, að undangengnu samráði á meðferðarfundi, taka afstöðu til beiðninnar með rökstuddri bókun. Sú ákvörðun er kæranleg til úrskurðarnefndar velferðarmála.
27. gr.
Slit fóstursamnings
Sérhæfður starfsmaður og deildarstjóri, að undangengnu samráði á meðferðarfundi, taka ákvörðun um að breyta fóstursamningi eða fella hann úr gildi, eins og mælt er fyrir um í 32. gr. reglugerðar nr. 804/2004. Ef ekki næst samkomulag við fósturforeldra þar um getur barnaverndarþjónusta Seltjarnarnesbæjar með rökstuddri ákvörðun breytt fóstursamningi eða fellt hann úr gildi.
28. gr.
Framfærsluskylda foreldra
Sérhæfður starfsmaður og deildarstjóri, að undangengnu samráði á tilkynninga- og barnaverndarmálafundi, taka ákvörðun um hvort krafa verði gerð á foreldra um greiðslu framfærslueyris, sbr. 11. gr. reglugerðar nr. 858/2013 með hliðsjón af þörfum barnsins og fjárhagsstöðu og öðrum högum beggja foreldra. Með sömu sjónarmiðum geta sérhæfður starfsmaður og deildarstjóri, að undangengnu samráði á tilkynninga- og barnaverndarmálafundi, ákveðið að aðstoða foreldra við kostnað vegna umgengni við barn í fóstri að hluta eða öllu leyti.
29. gr.
Umgengni í fóstri
Við ráðstöfun barns í fóstur skal deildarstjóri eða sérhæfður starfsmaður hafa frumkvæði að því að gera tillögur um umgengni barns við foreldra og aðra nákomna þegar það á við. Leitast skal við að ná samkomulagi við þá sem umgengni eiga að rækja og ganga frá skriflegum samningi um fyrirkomulag umgengninnar, að undangenginni samráði á tilkynninga- og barnaverndarmálafundi.
Ef ekki næst samkomulag um umgengni geta sérhæfður starfsmaður og deildarstjóri, að höfðu samráði á tilkynninga- og barnaverndarmálafundi, farið fram á að umdæmisráð barnaverndar úrskurði um ágreiningsefni er varða umgengni barns við foreldra eða nákomna í samræmi við 81. og 74. gr. barnaverndarlaga.
30. gr.
Leyndur dvalarstaður
Sérhæfður starfsmaður og deildarstjóri, að undangengnu samráði á tilkynninga- og barnaverndarmálafundi, taka ákvörðun um að halda dvalarstað barns leyndum og kynna aðila máls þá ákvörðun sína. Aðili máls getur borið þá ákvörðun undir umdæmisráð barnaverndar sem kveður upp úrskurð í samræmi við 7. mgr. 74. gr. og 8. mgr. 81. gr. barnaverndarlaga.
V. kafli
Málsmeðferð barnaverndarmála
31. gr.
Aðgangur að gögnum máls
Sviðsstjóri og/eða deildarstjóri, að höfðu samráði við sérhæfðan starfsmann og lögfræðing, taka ákvörðun um að takmarka aðgang aðila að tilteknum gögnum máls í samræmi við 2. mgr. 45. gr. barnaverndarlaga. Sú ákvörðun er kæranleg til úrskurðarnefndar velferðarmála.
32. gr.
Aðstoð lögmanns
Bæjarstjórn setur reglur um greiðslur fjárstyrks til að greiða fyrir lögmannsaðstoð, sbr. 2. mgr. 47. gr. barnaverndarlaga.
Deildarstjóri og sviðsstjóri, að höfðu samráði við lögfræðing, taka ákvörðun um greiðslu fjárstyrks á grundvelli 47. gr. barnaverndarlaga og í samræmi við reglur Seltjarnarnesbæjar um veitingu fjárstyrks til greiðslu lögmannsaðstoðar sbr. 47. gr. barnaverndarlaga.
VI. kafli
Úrræði á ábyrgð sveitarfélaga
33. gr.
Sumardvöl fyrir börn
Starfsmaður fjölskyldusviðs skal sjá um móttöku, vinnslu og meðferð beiðna frá Gæða- og eftirlitsstofnun um umsagnir vegna umsækjenda um leyfi til að starfrækja sumardvöl fyrir börn í umdæmi Seltjarnarnesbæjar, sbr. IV. kafla reglugerðar nr. 652/2004. Þegar starfsmaður hefur skrifað greinargerð um málið að lokinni gagnaöflun skal hún kynnt umsækjanda og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum áður en umsögnin er send Gæða- og eftirlitsstofnun.
34. gr.
Stuðningsfjölskyldur
Starfsmaður fjölskyldusviðs skal sjá um móttöku, vinnslu og meðferð beiðna frá Gæða- og eftirlitsstofnun um umsagnir vegna umsækjenda um leyfi til að gerast stuðningsfjölskylda, sbr. 8. og 9. gr. laga um Gæða- og eftirlitsstofnun nr. 88/2021, 85. gr. barnaverndarlaga og VI. kafla reglugerðar nr. 652/2004. Þegar starfsmaður hefur skrifað greinargerð um málið að lokinni gagnaöflun skal hún kynnt umsækjanda og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum áður en umsögnin er send Gæða- og eftirlitsstofnun.
35. gr.
Heimili og önnur úrræði á vegum barnaverndarþjónustu Seltjarnarnesbæjar
Deildarstjóri eða sérhæfður starfsmaður skal sjá um að útbúa umsóknir, afla leyfa, gera samninga við vistunaraðila skv. 5. gr. reglugerðar nr. 652/2004, hafa samskipti við Barna- og fjölskyldustofu, Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála og aðra aðila vegna þeirra úrræða sem fjallað er um í VII. kafla reglugerðar nr. 652/2004.
36. gr.
Útvistun mála samkvæmt þessum kafla
Deildarstjóri getur gert samninga við starfseiningar eða stofnanir Seltjarnarnesbæjar til að sjá um afgreiðslu umsókna, gerð umsagna, öflun leyfa, gerð greinargerða, gerð samninga og annað sem til þarf vegna úrræða á ábyrgð sveitarfélaga samkvæmt þessum kafla og reglugerð nr. 652/2004.
VII. kafli
Umsagnarmál
37. gr.
Umsagnir samkvæmt ættleiðingarlögum nr. 130/1999
Deildarstjóri eða sérhæfður starfsmaður annast könnun mála vegna umsagnar barnaverndarþjónustu Seltjarnarnesbæjar um ættleiðingar skv. 16. gr. og 31. gr. laga um ættleiðingar. Umsagnir vegna ættleiðingarmála skulu lagðar fyrir tilkynninga- og barnaverndarmálafundi með skriflegri greinargerð þar sem m.a. koma fram upplýsingar um hagi og aðstæður væntanlegra kjörforeldra í samræmi við ættleiðingarlög.
VIII. kafli
Annað
39. gr.
Gildistaka og birting
Samþykkt þessi tekur gildi jafnhliða samþykki bæjarstjórnar. 25.01.2023. Birta skal samþykktina á heimasíðu Seltjarnarnesbæjar. Við gildistöku samþykkt þessarar fellur brott samþykkt um hlutverk fjölskyldunefndar Seltjarnarnesbæjar varðandi meðferð mála er undir barnaverndarnefnd heyra.
Samþykkt á fundi bæjarstjórnar Seltjarnarnesbæjar, 25. 01.2023.