Fara í efni

Reglur Æskulýðs- og íþróttaráðs fyrir úthlutun almennra styrkja sem falla undir íþrótta-, tómstunda- og æskulýðsstarfsemi

Markmið styrkjanna er að styrkja einstaklinga 13 ára og eldri, íþróttafélög og önnur frjáls félagasamtök á sviði íþrótta- og æskulýðsstarfsemi til framtaks, athafna og keppni. ÍTS áskilur sér þó rétt á að endurmeta aldur í hverju tilfelli fyrir sig.

Umsækjendur skulu vera einstaklingar eða félagasamtök sem tengjast skipulögðu íþrótta- eða æskulýðsstarfi á Seltjarnarnesi.

Sé umsækjandi ekki fjárráða sökum aldurs, skal forráðamaður sækja um styrkinn. Ferðir öldungaliða eða trimmflokka eru ekki styrkhæfar.

Styrkveitingum ÍTS er sérstaklega ætlað að styðja við eftirfarandi verkefni.

  1. Sérstök verkefni á vegum íþrótta- og æskulýðsfélaga og samtaka þeirra sem miða að því að bæta aðstöðu til iðkunar.
  2. Útbreiðslu- og fræðsluverkefni.
  3. Sérstök verkefni á vegum æskulýðsfélaga, íþróttafélaga og æskulýðssamtaka sem unnin eru fyrir börn og/eða ungmenni.
  4. Sérstök verkefni á vegum æskulýðsfélaga, íþróttafélaga og æskulýðssamtaka sem eru skipulögð og framkvæmd af börnum og/eða ungmennum.
  5. Þjálfun æskulýðsleiðtoga og leiðbeinenda til virkrar þátttöku í æskulýðsstarfi m.a. með námskeiðum og þátttöku í þeim hérlendis eða erlendis.
  6. Nýjungar og tilraunir í félagsstarfi barna og ungmenna.
  7. Samstarfsverkefni æskulýðsfélaga og æskulýðssamtaka á sviði félagsstarfa.

Það sem ÍTS hefur að leiðarljósi við styrkveitingar:

  • Að verkefnin stuðli að virkri þátttöku barna og/eða ungmenna.
  • Að verkefnin stuðli að nýsköpun og eflingu íþrótta- og æskulýðsstarfs fyrir börn og unglinga.
  • Að verkefnin efli þekkingu þjálfara og leiðbeinenda í íþrótta- og æskulýðsstarfi.
  • Að verkefnin auki gildi íþrótta- og æskulýðsstarfs í forvörnum gegn neyslu hvers kyns fíkniefna.
  • Að verkefnin auki veg og virðingu íþrótta- og æskulýðsstarfs í samfélaginu.
  • Að verkefnin séu í þágu rannsókna eða þróunar er efli nýsköpun og þekkingu á íþrótta- og æskulýðsstarfi.

Í umsóknum skulu koma fram upplýsingar um:

  1. Nafn og heimilisfang umsækjanda.
  2. Heiti, lýsing og markmið verkefnis, ásamt kostnaðar- og tímaáætlun.
  3. Fjölda þátttakenda.
  4. Samstarfsaðila eftir því sem við á.

Annað:

Umsóknum skal skilað til framkvæmdastjóra íþrótta-, tómstunda og æskulýðssviðs á skrifstofu hans eða í rafpósti.

Allar styrkbeiðnir sem sendar eru til ÍTS eru teknar til umfjöllunar á fundum ÍTS.

Úthlutun styrkja miðast við fjárframlög ÍTS.


Samþykkt á fundi ÍTS þann 8. janúar 2014.

Síðast uppfært 12. desember 2022
Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?