Seltjarnarnesbær – Ráðning skólastjóra
Bæjarstjórn Seltjarnarness hefur samþykkt að ráða Sigfús Grétarsson í starf skólastjóra við grunnskóla bæjarins. Skólanefnd mælti með ráðningu Sigfúsar með 4 atkvæðum af 5 en minnihlutinn klofnaði í afstöðu sinni til ráðningarinnar. Sigfús tekur við starfinu 1. ágúst en mun hefja störf tengd undirbúningi á næstunni. Sigfús er núverandi skólastjóri Valhúsaskóla og hefur gegnt því starfi frá árinu 1998.
Nemendamötuneyti í Mýrarhúsaskóla fyrir næsta haust
Byggingarnefnd Mýrarhúsaskóla hefur mælt með að útbúið verði fullkomið mötuneyti við skólann í sumar sem tilbúið verði fyrir upphaf næsta skólaárs. Leitað hefur verið til Önnu Margrétar Hauksdóttur, arkitekts, um útfærsluleiðir og er fyrirhuguð staðsetning mötuneytisins þar sem eldhús skólans var upphaflega ráðgert. Eldað verður fyrir alla nemendur skólans í mötuneytinu.
Íþróttamenn ársins 2003 á Seltjarnarnesi eru Elísabet Sólbergsdóttir langhlaupari og Gísli Kristjánsson handknattleiksmaður.
Kjör íþróttamanns Seltjarnarness fór fram fimmtudaginn 18. mars sl. í samkomusal Gróttu. Kjör þetta hefur verið árviss viðburður síðan 1993 og er í umsjón Æskulýðs- og íþróttaráðs sem vill með þessu vekja athygli á gildi íþrótta, stuðla enn frekar að öflugu íþróttalífi á Seltjarnarnesi og láta íþróttafólk vita að bæjarfélagið styðji við bakið á því. Aðeins þeir sem hafa búsetu eða lögheimili á Seltjarnarnesi geta fengið tilnefningu til kjörsins, óháð því hvar þeir stunda íþróttina.
Skref framávið í rafrænni stjórnsýslu
Seltjarnarnesbær hefur gert samning við Hugsmiðjuna um hönnun og smíði nýs vefjar fyrir bæinn í veftólinu Eplica. Undanfarið hefur verið unnið að þarfagreiningu og stefnumörkun um vefmál innan Seltjarnarnesbæjar og er samningurinn gerður á grundvelli þeirrar vinnu. Með þessu er bærinn að leggja grunn að næstu skrefum í innleiðingu rafrænnar stjórnsýslu.
Framkvæmdir við Tónlistarskólann að hefjast
Á næstunni hefjast framkvæmdir við Tónlistarskóla Seltjarnarness sem miða að endurnýjun og stækkun hans. Í lok febrúar voru teikningar og útboðsgögn send út og er reiknað með að hægt verði að hefja framkvæmdir í lok þessa mánaðar. Áætlað er að framkvæmdum verði lokið fyrir upphaf næsta skólaárs en þá fagnar skólinn 30 ára starfsafmæli sínu.
Heildstæð skólastefna verði mótuð - Vinnuhópur um umbætur í skólamálum skilar niðurstöðum
Í febrúar skilaði vinnuhópur um nýjungar í rekstri grunnskólanna á Seltjarnarnesi niðurstöðum sínum. Hópurinn hóf störf að frumkvæði meirihluta skólanefndar í nóvember á síðasta ári í kjölfar ákvörðunar um að sameina yfirstjórn grunnskólanna. Í hópnum sátu Gísli Ellerup, aðstoðarskólastjóri Valhúsaskóla og Marteinn M. Jóhannsson, aðstoðarskólastjóri Mýrarhúsaskóla, Helga Kristín Gunnarsdóttir og Ólína Thoroddsen, deildarstjórar, Lúðvík Hjalti Jónsson og Margrét Harðardóttir frá bæjarskrifstofu og Rögnvaldur Sæmundsson sem fulltrúi foreldra.
Dagvist fyrir aldraða á Seltjarnarnesi í sumar
Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið hefur veitt Seltjarnarnesbæ rekstarleyfi fyrir fimm dagvistarrýmum frá 1. júlí n.k. Bæjarstjóri sótti um leyfin fyrir hönd bæjarins í desember sl. í framhaldi af skýrslu starfshóps um málefni aldraðra á Seltjarnarnesi er lögð var fyrir bæjarstjórn á haustdögum.
Óbreyttar álögur opinberra gjalda til 2007
Langtímafjárhagsáætlun Seltjarnarnesbæjar 2005 til 2007 var samþykkt á fundi bæjarstjórnar sl. miðvikudag. Áætlunin undirstrikar áframhaldandi skilvirkni í rekstri, markvissa niðurgreiðslu langtímalána og metnaðarfulla þjónustu við íbúa á hagkvæmum skattkjörum. Hvorki er gert ráð fyrir hækkun á álagningarstuðli opinberra gjalda á tímabilinu né töku nýrra langtímalána. Þvert á móti er stefnt að því að Seltjarnarnes verði áfram í fararbroddi sveitarfélaga hvað snertir lágar álögur á íbúa en samkeppnisfæra þjónustu við bæjarbúa og sterka fjárhagsstöðu. Peningaleg staða Seltjarnarnesbæjar hefur stöðugt styrkst frá árinu 2001 og lækkaði nettóskuld samstæðunnar pr. íbúa t.d. úr 102 þús.kr. í árslok 2001 í 94 þús.kr í árslok 2002.
Nýtt Seltjarnarnes?
Seltjörn opnaði í lok apríl og veiddust 98 urriðar fyrsta daginn sem einkenndist af miklum vindi en góðu sólskini. Var stærsti urriðinn sem veiddist um 56 cm langur eða um 4 pund. Þetta var mjög góð byrjun á veiðisumrinu og staðarhaldarar því ánægðir og bjartsýnir á framhaldið en nýlega var sleppt um 3.000 urriðum í vatnið til viðbótar við þá sem sleppt var í fyrra og eru að mestu leyti ennþá í vatninu. Áætlað er að sleppa að minnsta kosti 3.000 urriðum til viðbótar í sumar.
Neshlaup Trimmklúbbs Seltjarnarness á laugardaginn 8. maí
Laugardaginn 8. maí næstkomandi stendur Trimmklúbbur Seltjarnarness (TKS) fyrir Neshlaupinu sem verið hefur árviss viðburður á Seltjarnarnesi um árabil og nýtur mikilla vinsælda meðal götuhlaupara og skemmtiskokkara. Rúmlega 30 félagar í trimmklúbbnum sjá um framkvæmd hlaupsins en að auki er sjúkraþjónusta á bakvakt og lögregla fylgir hlaupurunum í upphafi. Tímataka er í höndum starfsmanns Frjálsíþróttasambands Íslands.
Starfsfólk leikskólanna í Madrid
Stjórnendur og starfsmenn leikskóla Seltjarnarness héldu í náms- og kynnisferð til Madrid, höfuðborgar Spánar, á sumardaginn fyrsta. Tilgangur ferðarinnar var m.a. að kynnast leikskólastarfi á Spáni og safna hugmyndum sem nýst geta í starfinu hér heima. Seltjarnarnesbær styrkti þátttakendur til fararinnar með líkum hætti og grunnskólakennara bæjarins er fóru í náms- og kynnisferðir á síðasta ári.