Skipting Grunnskóla Seltjarnarness í tvo sjálfstæða skóla
Bæjarstjórn Seltjarnarnesbæjar staðfesti á fundi sínum í byrjun febrúar tillögu bæjarráðs um að kanna kosti og galla þess að skipta Grunnskóla Seltjarnarness í tvo sjálfstæða skóla. Litið skyldi til rekstrarlegra og faglegra sjónarmiða við könnunina auk þess að eiga samráð við skólastjórnendur, kennara og foreldra. Könnun á fýsileika þess að skólanum verði skipt í tvo sjálfstæða skóla var unnin í febrúar og mars og samantekt hennar var lögð fyrir skólanefnd þann 20. mars sl.
Skólanefnd tók vel í skipulagsbreytingu með það að sjónarmiði að skipta skólanum í tvo sjálfstæða skóla frá og með næsta skólaári. Skólanefnd telur rekstrarleg og fagleg rök fyrir skipulagsbreytingu liggja fyrir en leggur áherslu á að taka þurfi tillit til fram kominna skilaboða og ábendinga skólastjórnenda, kennara og foreldra um málið. Af u.þ.b. 180 grunnskólum er Grunnskóli Seltjarnarness meðal þeirra 10 fjölmennustu á landsvísu og er það mat skólanefndar að uppskipting skólans sé til þess fallin að auðvelda skólastjórnendum faglega yfirsýn og skapa um leið markvissari eftirfylgni og fjárhagslega stjórnun á málefnum hvors skóla.
Á fundi bæjarráðs fimmtudaginn 4. apríl 2024 tók ráðið undir bókun skólanefndar og ákveðið var að vinna við skiptingu skólanna verði hafin nú þegar og hefur falið bæjarstjóra að vinna málið áfram í samvinnu við sviðsstjóra og skólanefnd.