Fara í efni

Reglur Seltjarnarnesbæjar um stuðning við börn og fjölskyldur þeirra

I. kafli
Almennt um stuðning við börn og fjölskyldur þeirra
 
1. gr.
Lagagrundvöllur
Í reglum þessum er kveðið á um útfærslu á þjónustu sem Seltjarnarnesbæ er skylt að veita, sbr. VII. og VIII. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, og 8. gr. sem og IV. kafla laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, nr. 38/2018 og barnaverndarlög nr. 80/2002, með síðari breytingum.
 
Í reglum þessum er fjallað um þjónustu samkvæmt framangreindum lögum. Orðið stuðningur er í reglum þessum notað yfir þá þjónustu sem fellur undir framangreind ákvæði.
 
2. gr.
Markmið
Stuðningurinn er til handa foreldrum, forsjáraðilum og eftir atvikum vistunaraðilum við uppeldi barna eða til að styrkja þá í uppeldishlutverki sínu svo þeir geti búið börnum sínum örugg og þroskavænleg uppeldisskilyrði. Einnig er stuðningurinn til handa börnum og fjölskyldum þeirra sem þurfa aðstoð vegna fötlunar, skerðinga, langvinnra veikinda og/eða félagslegra aðstæðna.
 
Lögð skal áhersla á að styrkja fatlaða foreldra við að halda heimili og taka þátt í samfélaginu. Leggja ber áherslu á sérhæfða ráðgjöf og félagslegan stuðning til þess að hvetja til félagslegs samneytis.
 
Þegar börnum er veittur stuðningur skal hafa það að leiðarljósi sem er viðkomandi barni fyrir bestu og stuðlar að félagslegri aðlögun þess og þroska.
 
Stuðningur samkvæmt reglum þessum skal ætíð koma fram í stuðningsáætlun, áætlun máls eða einstaklingsbundinni þjónustuáætlun, eftir því sem við á hverju sinni og vera í eðlilegu samhengi við aðra aðstoð.
 
3. gr.
Stuðningur
Stuðningur fyrir börn og fjölskyldur er til handa þeim sem þurfa aðstoð vegna félagslegra aðstæðna, skertrar getu, álags, veikinda eða fötlunar. Stuðningur samkvæmt reglum þessum er veittur bæði innan heimilis og utan.
 
Við veitingu stuðnings til fjölskyldna skal ætíð leita eftir sjónarmiði barns eftir því sem aldur þess og þroski leyfir.
 
Um umfang stuðnings skv. liðum a, c, d og g í grein þessari vísast til 26. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, þar sem fram kemur að aðstoð geti numið samanlagt allt að 15 klukkustundum á viku þegar um stuðningsþjónustu er að ræða. Um umfang stoðþjónustu vegna fötlunar vísast til laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, nr. 38/2018.
 
Um er að ræða eftirfarandi stuðning:
 
a) Foreldrafræðsla og uppeldisráðgjöf: Markmið með foreldrafræðslu og uppeldisráðgjöf er að aðstoða og leiðbeina foreldrum, forsjáraðilum eða vistunaraðilum við að tryggja þroskavænleg uppeldisskilyrði og aðbúnað barna. Stuðningur er veittur innan sem utan heimilis, s.s. með skipulag heimilishalds og ráðgjöf. Allur stuðningur miðar að því að mæta mismunandi þörfum foreldra og að því að valdefla þá í hlutverki sínu.
 
b) Námskeið: Markmið námskeiða er að efla félagsfærni, uppeldisfærni og líðan barna og fjölskyldna.
 
c) Hópastarf fyrir 6-9 ára: Markmið hópastarfs er að rjúfa félagslega einangrun og efla lífsleikni og samfélagsþátttöku. Lögð er áhersla á félagsfærni og athafnir sem krefjast samskipta auk þess að kenna barni að vera í hópi og efla sjálfstraust þess og jákvæð samskipti. Hópastarf er liður í að efla einstaklinga til aukinnar sjálfshjálpar.
 
d) Einstaklingsstuðningur fyrir 6-18 ára: Markmið með einstaklingsstuðningi er að rjúfa félagslega einangrun, efla lífsleikni, samfélagsþátttöku og efla börn til aukinnar sjálfshjálpar.
 
e) Stuðningsfjölskylda fyrir 0-18 ára: Markmið með stuðningsfjölskyldu er að styðja foreldra, forsjáraðila eða vistunaraðila í uppeldishlutverki sínu, veita þeim hvíld og/eða styrkja stuðningsnet barns eftir því sem við á og auka möguleika barnsins á félagslegri þátttöku. Heimilt er að veita þeim sem orðnir eru 18 ára og búa í foreldrahúsum áframhaldandi stuðningsfjölskyldu á meðan beðið er eftir annars konar stuðningi. Dvöl hjá stuðningsfjölskyldu getur að hámarki verið sjö sólarhringar á mánuði.
 
f) Skammtímadvöl fyrir fötluð börn eða börn með miklar þroska- og/eða geðraskanir á aldrinum 6-18 ára: Markmið með skammtímadvöl er að gefa börnum kost á að dvelja tímabundið utan heimilis síns þegar um er að ræða miklar stuðningsþarfir umfram jafnaldra og til að styðja við fjölskyldu barnsins. Stuðningur í skammtímadvöl getur verið allt að 14 sólarhringar í mánuði. Foreldrar, forsjáraðilar eða vistunaraðilar barns sem á rétt á skammtímadvöl geta fengið stuðning inn á heimili sitt í stað vistunar utan heimilis sé þess óskað og það talið samræmast faglegu mati og hagsmunum barns.
 
Heimilt er að veita þeim sem orðnir eru 18 ára og búa í foreldrahúsum áframhaldandi skammtímadvöl á meðan beðið er eftir annars konar stuðningi.
 
Um skammtímadvöl gilda reglur um skammtímadvalir fyrir fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.
 
g) Heimili fyrir fötluð börn eða börn með miklar þroska- og/eða geðraskanir á aldrinum 0-18 ára: Markmið slíkra heimila er að veita börnum sem þurfa umfangsmikla umönnun aðgæslu allan sólarhringinn. Þessi úrræði eru aðeins veitt að undangengnu mati sérfræðingateymis velferðarráðuneytisins um að fullreynt hafi verið að styðja barn á heimili fjölskyldu eða í nærsamfélagi þess.
 
4. gr.
Skilyrði fyrir því að umsókn um stuðning við börn og fjölskyldur verði samþykkt
 
Umsækjandi skal uppfylla öll eftirtalin skilyrði til að fá stuðning samkvæmt reglum þessum.
 
a) Umsækjandi og barn/börn hans sem umsókn lýtur að skulu eiga lögheimili á Seltjarnarnesi þegar sótt er um eða mál viðkomandi barns/barna til vinnslu hjá Barnavernd Seltjarnarnesbæjar.

b) Umsækjandi skal hafa forsjá barns/barna sem umsókn lýtur að.
 
c) Umsækjandi og barn/börn hans skulu vera metin í þörf fyrir stuðning samkvæmt matsviðmiðum á fylgiskjali 1 með reglum þessum.
 
Fatlað fólk sem er með lögheimili utan sveitarfélags getur sótt um stuðning samkvæmt reglum þessum en skilyrði er að umsækjendur skrái lögheimili sitt í sveitarfélag þegar stuðningur hefst.
 
lI. kafli
Umsóknir og mat
 
5. gr.
Aðgengi að stuðningi
 
Umsóknir um ráðgjöf og stuðning eru aðgengilegar á heimasíðu Seltjarnarnesbæjar. Sé mál til vinnslu hjá Seltjarnarnesbæ geta starfsmenn þar haft milligöngu varðandi stuðning samkvæmt reglum þessum.
 
Uppfylli umsókn skilyrði skv. 4. gr. reglna þessara skal lagt mat á stuðningsþörf umsækjanda, samkvæmt matsviðmiðum á fylgiskjali 1.
 
6. gr.
Mat á stuðningsþörf
 
Mat á stuðningsþörf er gert í samvinnu umsækjanda og ráðgjafa og tekur mið af þörfum fjölskyldunnar. Mat á stuðningsþörf fer fram á Fjölskyldusviði Seltjarnarnesbæjar, á heimili umsækjanda eða á öðrum vettvangi umsækjanda. Niðurstaða mats skal koma fram í áætlun máls. Við mat á stuðningsþörf er horft til heildaraðstæðna fjölskyldunnar og skipulags daglegs lífs.
 
Við mat á þörf og forgangsröðun skal líta til eftirfarandi atriða:
a) Færni/getu og styrkleika.

b) Félagslegra aðstæðna og félagslegs tengslanets.
 
c) Samfélagsþátttöku, valdeflingar og virkni.
 
d) Hvaða afleiðingar töf á veitingu stuðnings hafi fyrir umsækjanda.
 
e) Annars veitts stuðnings.
 
Vísað er til matsviðmiða á fylgiskjali 1 með reglum þessum.
 
Sé niðurstaða mats sú að aðstæður barns og fjölskyldu séu með þeim hætti að ekki sé þörf á stuðningi samkvæmt reglum þessum ber að synja umsókninni.
 
7. gr.
Stuðningsáætlun
 
Áður en stuðningur hefst skal liggja fyrir áætlun um meðferð máls hjá Barnavernd ef um barnaverndarmál er að ræða en annars skal gera stuðningsáætlun eða einstaklingsbundna þjónustuáætlun. Þar skal m.a. koma fram gildistími samþykktar, hvers konar stuðningur verði veittur, verkefni og vinnutilhögun. Stuðningurinn skal ætíð byggja á skýrum markmiðum og koma skal fram hvernig árangur verði metinn.
 
Í þeim tilvikum sem stuðningsþörf er viðvarandi skal 12 mánuðum áður en umsækjandi nær 18 ára aldri liggja fyrir áætlun um áframhaldandi stuðning.
 
8. gr.
Forgangsröðun umsókna
 
Að mati loknu raðast umsóknir í forgangsröð á grundvelli viðmiða sem tilgreind eru á fylgiskjali 2 með reglum þessum.
 
Ef fyrirséð er að stuðningurinn geti ekki hafist innan þriggja mánaða skal umsókn sett á biðlista. Umsækjandi er upplýstur um áætlaða lengd á biðtíma og hvaða stuðningur standi honum til boða á biðtímanum, sbr. ákvæði reglugerðar um biðlista, forgangsröðun og úrræði á biðtíma eftir þjónustu, nr. 1035/2018, ef við á.
 
III. kafli
Framkvæmd
 
9. gr.
Tími og umfang stuðnings
 
Almennt er stuðningur veittur milli kl. 08:00 og 22:00 en þó skal ávallt taka mið af þörfum barns og fjölskyldu. Sólarhringsþjónusta fellur ekki undir umrædd tímamörk.
 
Stuðningur samkvæmt reglum þessum er veittur í samræmi við einstaklingsbundnar þarfir í samráði við ráðgjafa.
 
10. gr.
Gildistími og endurmat
 
Þegar stuðningur hefst skal uppfæra stuðningsáætlun og samþykkja stuðning til ákveðins tíma, í fyrsta skipti til þriggja mánaða en að þeim tíma liðnum skal endurmeta fyrirkomulagið með tilliti til framlengingar. Eigi sjaldnar en á 12 mánaða fresti skal árangur metinn, gerðar viðeigandi breytingar eða stuðningi lokið.
 
Þegar breytingar verða á aðstæðum og högum fjölskyldu skal endurmeta stuðningsþörf. Í þeim tilvikum sem stuðningsþörf er viðvarandi þarf ekki að sækja um að nýju heldur skal endurnýja áætlun á tveggja ára fresti.
 
IV. kafli.
Málsmeðferð
 
Um málsmeðferð gilda ákvæði stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, ákvæði XVI. og XVII. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991 og ákvæði VII. laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, nr. 38/2018, með síðari breytingum.
 
11. gr.
Könnun á aðstæðum
 
Kanna skal aðstæður umsækjanda svo fljótt sem unnt er eftir að umsókn berst. Fjölskyldusvið Seltjarnarnesbæjar skal taka ákvörðun í máli án óhóflegra tafa og tryggja að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin. Þegar fyrirsjáanlegt er að afgreiðsla máls muni tefjast ber að skýra aðila máls frá því. Skal þá upplýsa um ástæður tafanna og hvenær ákvörðunar sé að vænta.
 
12. gr.
Samvinna við umsækjanda
 
Við meðferð umsóknar, öflun gagna og ákvarðanatöku skal leitast við að hafa samvinnu og samráð við umsækjanda eftir því sem unnt er en að öðrum kosti við lögráðamann eða persónulegan talsmann hans eftir því sem við á. Leita skal eftir afstöðu barns eða eftir atvikum hafa samráð við það, eftir því sem aldur og þroski þess leyfir, um málefni þess áður en ákvörðun um veitingu stuðnings er tekin.
 
13. gr.
Endurskoðun
 
Rétt til stuðnings samkvæmt reglum þessum má endurskoða hvenær sem er. Meta skal hvort umsækjandi fullnægi skilyrðum reglna þessara og hvort breytingar sem orðið hafa á aðstæðum umsækjanda og/eða annarra heimilismanna hafi áhrif á rétt hans.
 
14. gr.
Rangar eða villandi upplýsingar
 
Ef sannreynt er við meðferð máls að upplýsingar sem umsækjandi hefur veitt eru rangar eða villandi, stöðvast afgreiðsla umsóknarinnar á meðan umsækjanda er gefið tækifæri til að leiðrétta eða bæta úr annmörkum.
 
Ef umsókn um stuðning samkvæmt reglum þessum er lögð fram á grundvelli rangra eða villandi upplýsinga af hálfu umsækjanda veldur það ógildi umsóknar eða getur leitt til afturköllunar ákvörðunar.
 
15. gr.
Varðveisla gagna, trúnaður og aðgangur að gögnum
 
Málsgögn er varða persónulega hagi einstaklinga skulu varðveitt með tryggilegum hætti. Hafi starfsmenn kynnst einkahögum umsækjanda eða annarra í starfi sínu er leynt eiga að fara samkvæmt lögum eða eðli máls er þeim óheimilt að fjalla um þau mál við óviðkomandi nema að fengnu samþykki viðkomandi.
 
Umsækjandi á rétt á að kynna sér upplýsingar úr skráðum gögnum sem varða mál hans að svo miklu leyti sem það stangast ekki á við trúnað gagnvart öðrum.
 
Vinnsla mála og varðveisla gagna byggist á lögum um opinber skjalasöfn nr. 77/2014 og lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, nr. 90/2018.
 
16. gr.
Leiðbeiningar til umsækjanda
 
Við afgreiðslu umsóknar skal starfsmaður fjölskyldusviðs Seltjarnarnesbæjar bjóða umsækjanda ráðgjöf ef þörf er á og veita upplýsingar um réttindi sem hann kann að eiga annars staðar. Þá skal starfsmaður einnig upplýsa umsækjanda um þær skyldur sem kunna að hvíla á honum vegna framkvæmdar samkvæmt reglum þessum.
 
Sérstaklega skal gætt að frumkvæðisskyldu hvað varðar afgreiðslu umsókna um stuðningsþjónustu fyrir fatlað fólk, sbr. 32. gr. laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir nr. 38/2018.
 
17.gr.
Heimildir til ákvarðana samkvæmt reglum þessum
 
Starfsmenn fjölskyldusviðsSeltjarnarnesbæjar taka ákvarðanir samkvæmt reglum þessum í umboði Fjölskyldunefndar
 
18. gr.
Niðurstaða og rökstuðningur synjunar
 
Kynna skal niðurstöðu umsóknar með skriflegum hætti svo fljótt sem unnt er. Sé umsókn hafnað skal umsækjandi fá skriflegt svar þar sem vísað er með skýrum hætti til viðeigandi ákvæða reglna þessara og leiðbeint um heimild til að óska rökstuðnings fyrir synjun.
 
Upplýsa skal umsækjanda um rétt hans til að fara fram á endurskoðun ákvörðunar. Umsækjandi getur áfrýjað ákvörðun fjölskyldusviðs til Fjölskyldunefndar innan fjögurra vikna frá því honum barst vitneskja um ákvörðun. Um leið skal honum kynntur réttur hans til að kæra ákvörðunina til úrskurðarnefndar velferðarmála.
 
Ákvörðun Fjölskyldunefndar skal kynnt umsækjanda bréflega og aftur kynntur réttur hans til að kæra ákvörðunina til úrskurðarnefndar velferðarmála.
 
19. gr.
Kæra til úrskurðarnefndar velferðarmála
 
Umsækjandi getur kært ákvörðun Fjölskyldunefndar til úrskurðarnefndar velferðarmála. Skal það gert innan þriggja mánaða frá því að umsækjanda var kunngerð ákvörðun Fjölskyldunefndar.
 
20. gr.
Gildistaka
 
Reglur þessar kveða á um útfærslu á þjónustu sem sveitarfélögum er skylt að veita og eru settar með stoð í VII. og VIII. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, 8. gr. sem og IV. kafla laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, nr. 38/2018 og barnaverndarlögum nr. 80/2002.
 
Reglur þessar öðlast þegar gildi.
 
Samþykkt í bæjarstjórn Seltjarnarnesbæjar 07.febrúar 2024.
 
Birt í B deild Stjórnartíðinda. Nr. 260/2024 - Útgáfudagur 29. febrúar 2024.
 
 
Fylgiskjal 1
Mat á stuðningsþörf samkvæmt reglum um stuðning við börn og fjölskyldur þeirra
 
Grundvallargildi við mat á stuðningsþörfum
  • Matið tekur til heildaraðstæðna fjölskyldna.
  • Foreldrar þekkja börn sín best og vilja þeim það besta.
  • Börn og fjölskyldur eru ólík og einstök.
  • Börn dafna best í fjölskyldu og samfélagi þar sem stuðningur er góður.
  • Heildaraðstæður fjölskyldna hafa áhrif á líðan og hegðun barns.
Vinna skal í samstarfi við foreldra og börn við að greina þarfir og forgangsraða út frá þeirra eigin sjónarhorni.
 
Við mat á stuðningsþörf skal horft til eftirfarandi atriða og við lok mats skal tekin saman niðurstaða ráðgjafa/fagfundar/teymis :
1. Færni/geta og styrkleikar
a. Færni og styrkleikar
b. Samskipti og virkni
c. Áhugamál
d. Umönnunar – og stuðningsþörf (ef við á)
 
2. Félagslegar aðstæður og tengslanet
a. Fjölskylduaðstæður
b. Nánasta tengslanet
c. Ráðgjöf og stuðningur utan sveitarfélags.
d. Líðan barns/barna
 
3. Samfélagsleg þátttaka, valdefling og virkni
a. Samskipti og félagsleg virkni
b. Virkni í skóla, frístund, frítíma og/eða vinnu
 
4. Önnur atriði (ef við á)
a. SIS- mat
b. Umönnunarmat
c. Fötlunargreining og/eða aðrar greiningar sem taldar eru skipta máli við mat á stuðningsþörf
d. Upplýsingar um fötlun/líkamlegt heilsufar
e. Stuðningsþarfir
f. Annað sem umsækjandi vill taka fram varðandi fötlun eða andlega og líkamlega heilsu
g. Virk einstaklingsbundin þjónustuáætlun eða einstaklingsáætlun
h. Tekjuupplýsingar
i. Aðrar mikilvægar upplýsingar
 
Fylgiskjal 2
Forgangsröðun samkvæmt reglum um stuðning við börn og fjölskyldur þeirra
 
Við mat á forgangi er byggt á matsviðmiðum, á fylgiskjali 1, þar sem litið er til eftirfarandi atriða þegar metið er hversu brýn þörf er fyrir stuðning:
  • Færni, getu og styrkleika
  • Félagslegra aðstæðna og félagslegs tengslanets
  • Samfélagsþátttöku, valdeflingar og virkni
  • Hvaða afleiðingar töf á veitingu á stuðningi hafi fyrir umsækjanda
  • Annars stuðnings sem viðkomandi fær
1. Neyðarástand.
Aðstæður barns og fjölskyldu eru með þeim hætti að veita þarf stuðning tafarlaust. Um er að ræða stuðning s.s. þegar barni er hætta búin og mál þess er til meðferðar hjá Barnavernd, alvarleg áföll verða eða veikindi koma upp. Töf á veitingu stuðnings hefur alvarlegar afleiðingar í för með sér fyrir notendur.
 
2. Snemmtæk íhlutun.
Aðstæður barns og fjölskyldu eru með þeim hætti að grípa þarf inn í aðstæður fjölskyldu í forvarnarskyni, til þess að fyrirbyggja þróun til verri vegar og þörf fyrir meiri háttar inngrip síðar meir. Töf á veitingu stuðnings hefur miklar afleiðingar í för með sér fyrir notendur.
 
3. Stuðningur til staðar.
Aðstæður barns og fjölskyldu eru með þeim hætti að viðeigandi stuðningur er til staðar og mikilvægt er að viðhalda honum. Áframhaldandi stuðningur er nauðsynlegur. Einnig getur verið um að ræða umsækjendur sem eru með langvarandi stuðningsþarfir.
 
4. Töf hefur óverulegar afleiðingar.
Aðstæður barns og fjölskyldu eru ekki með þeim hætti að veita þurfi stuðninginn strax, m.a. með hliðsjón af félagslegum aðstæðum og öðrum veittum stuðningi. Töf á veitingu stuðnings hefur óverulegar afleiðingar.
 
Síðast uppfært 20. janúar 2025
Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?