Fara í efni

Fögnum 9. apríl 2024, 50 ára afmæli Seltjarnarnesbæjar

Afmælishátíð og opinber heimsókn forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessonar og frú Elizu Reid í tilefni af 50 ára kaupstaðarafmæli Seltjarnarnesbæjar þann 9. apríl 2024.

Forsetahjónin, Guðni og Eliza heiðra Seltirninga með opinberri heimsókn á afmælisdaginn

Þriðjudaginn 9. apríl nk. eru 50 ár liðin frá því að Seltjarnarneshreppur hlaut kaupstaðarréttindi og varð Seltjarnarnesbær. Þessum merku tímamótum verður að sjálfsögðu fagnað og er ánægjulegt að upplýsa að forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson og Eliza Reid forsetafrú koma í opinbera heimsókn á Seltjarnarnes í tilefni afmælisins.

Dagskrá forsetahjónanna verður fjölbreytt frá morgni til kvölds en þau munu fara víða, upplifa margt og hitta bæjarbúa á öllum aldri á ferð sinni um Seltjarnarnesið. Að auki taka þau þátt í sérstakri afmælishátíð fyrir alla bæjarbúa á Eiðistorgi frá kl. 16.30-18.30.

Á afmælishátíðinni flytja forseti Íslands og bæjarstjóri Seltjarnarnesbæjar hátíðarávörp í tilefni dagsins, boðið verður upp á mikla tónlistarveislu með mörgum af okkar þekktasta tónlistarfólki auk þess sem öllum afmælisgestum verður boðið upp á afmælisköku og sirkusfólk svo nokkuð sé nefnt.

Dagskrá forsetahjónanna og afmælishátíðarinnar í heild sinni verður kynnt á allra næstu dögum svo fylgist vel með!

 

Seltirningar eru eindregið hvattir til að taka daginn frá og fjölmenna á Eiðistorg til að heiðra Forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannesson og Elizu Reid forsetafrú sem og til að fagna 50 ára kaupstaðarafmæli Seltjarnarnesbæjar. 


Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?