Fara í efni

Sala á fasteigninni Safnatröð 1 frágengin

Kaupandinn er félagið Safnatröð slhf. sem er í eigu innviðasjóðsins Innviðir fjárfestingar II slhf. og er í eigu lífeyrissjóða. Innviðasjóðurinn er í umsjón Summu rekstrarfélags hf.
Þór Sigurgeirsson bæjarstjóri Seltjarnarnesbæjar og Ómar Tryggvason framkæmdastjóri Innviða fjárfest…
Þór Sigurgeirsson bæjarstjóri Seltjarnarnesbæjar og Ómar Tryggvason framkæmdastjóri Innviða fjárfestinga II slhf.

Seltjarnarnesbær hefur gengið frá sölu á fasteigninni Safnatröð 1 þar sem að hjúkrunarheimilið Seltjörn er til húsa.

Kaupandinn er félagið Safnatröð slhf. sem er í eigu innviðasjóðsins Innviðir fjárfestingar II slhf. en sá sjóður er í eigu lífeyrissjóða. Innviðasjóðurinn er í umsjón Summu rekstrarfélags hf.

Sala fasteignarinnar hefur engin áhrif á rekstur hjúkrunarheimilisins sem rekið er með myndarbrag af Vigdísarholti ehf.

Kaupsamningurinn gerir ráð fyrir því að heilbrigðisráðuneytið leigi áfram hluta hjúkrunarheimilisins sem er stærsti hluti eignarinnar. Seltjarnarnesbær mun hins vegar leigja það húsnæði sem ráðuneytið hefur ekki verið með á leigu fram til þessa og hýsir dagdvöl fyrir aldraða.

 

Þór Sigurgeirsson bæjarstjóri ánægður með söluna og samninginn

Samkvæmt Þór Sigurgeirssyni, bæjarstjóra Seltjarnarnesbæjar bárust fjölmörg góð tilboð en að bærinn hafi tekið þá ákvörðun að ganga til samninga við Safnatröð slhf. Við undirritun afsalsins lýsti Þór yfir sérstakri ánægju sinni með að tekist hafi að klára samninga við þennan öfluga kaupanda og telur að um mikið framfaraskref sé að ræða.

Enn fremur lýsti Þór því yfir að sala fasteignarinnar, þar sem rekið er blómlegt hjúkrunarheimili, sé bæjarfélaginu afar mikilvæg. Með þeim fjármunum sem fást fyrir fasteignina gefst bænum kostur á frekari uppbyggingu innviða í bæjarfélaginu. Í því sambandi nefnir Þór að bærinn standi í stórræðum við kostnaðarsama endurbyggingu á húsnæði grunnskólans og að fram undan sé bygging leikskólahúsnæðis svo eitthvað sé nefnt.

"Það er mjög ánægjulegt að ljúka þessum kaupum og við hlökkum til samstarfs við Seltjarnarnesbæ og ríkið um verkefnið. Veruleg og vaxandi þörf er á hjúkrunarheimilum og fjármögnun þeirra. Slík fjármögnun til langs tíma hentar lífeyrissjóðum mjög vel. Við vonumst til að geta tekið þátt í frekari slíkum samstarfsverkefnum í framtíðinni”, segir Ómar Tryggvason framkvæmdastjóri Innviða fjárfestinga II slhf.

Umsjónaraðili með söluferlinu fyrir hönd bæjarins voru Libra lögmenn ehf.

Lögfræðilegur ráðgjafi kaupanda var Juris slf.

 


Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?