Skólabyggingar Grunnskóla Seltjarnarness hafa nú í vor og sumar verið rannsakaðar með tilliti til rakaástands og innivistar. Skýrslur fyrir bæði Mýrarhúsaskóla og Valhúsaskóla liggja nú fyrir.
Starfsmenn bæjarins, skólastjórnendur og bæjaryfirvöld hafa unnið hörðum höndum að fyrsta viðbragði og útfærslu viðeigandi úrbóta í samráði við sérfræðinga Eflu en allt kapp er lagt á að skólastarf hefjist á tilsettum tíma.
Sérfræðingar verkfræðistofunnar Eflu framkvæmdu rannsóknirnar fyrir hönd bæjaryfirvalda. Niðurstöður þeirra hafa leitt í ljós að aðgerða er þörf í húsnæði beggja skólahúsnæðanna, mismikil þó. Ástandið er verra í Valhúsaskóla þar sem umtalsverður raki fannst víðsvegar um bygginguna og mygla í einhverjum tilvikum. Ljóst er að þrjár stofur verða ónothæfar þar til að þær hafa verið lagfærðar að fullu. Í Mýrarhúsaskóla mældist raki og mygla á einhverjum stöðum, aðallega í heimilisfræðistofu í kjallaranum og verður henni lokað þar til viðeigandi úrbætur hafa verið gerðar.
Eins og fram hefur komið í fyrri tilkynningum verður ekki unað við þær aðstæður sem niðurstaða rannsóknanna gaf til kynna. Strax var brugðist við og eru bæjarstjóri, starfsmenn Seltjarnarnesbæjar og skólastjórnendur í stöðugu sambandi við verkfræðistofuna Eflu um réttu viðbrögðin og ráðleggingar um aðgerðaáætlun og framkvæmdir. Aðgerðaráætlun úrbótavinnunnar er og verður unnin til skemmri og lengri tíma eftir því sem þörf krefur og við á.
Nú þegar hafa eftirfarandi aðgerðir meðal annars verið framkvæmdar eða eru að koma til framkvæmda á allra næstu dögum:
Valhúsaskóli:
- Frárennslisrör í lagnakjallara hafa þegar verið lagfærð
- Sérhæfðir fagaðilar eru í dag að sótthreinsa skólastofur sem ekki komu vel út úr rannsókninni
- Sérstök lofthreinsitæki hafa verið gangsett
- Loftstokkar verða hreinsaðir og loftræsingu komið á alla bygginguna
- Verktakar munu skoða aðstæður í kennslustofum á morgun, þriðjudag og í framhaldi verður útbúin verkáætlun í samvinnu við Eflu
- Raka- og mygluskemmt efni verður rifið og fjarlægt á viðeigandi hátt samkvæmt ráðleggingum Eflu
- Tréverk innan á útveggjum verður ennfremur endurnýjað og þétt á bakvið það samkvæmt ráðleggingum Eflu
Mýrarhúsaskóli:
- Ýmist verður unnið að úrbótum í Mýrarhúsaskóla samhliða eða í beinu framhaldi af aðgerðum í Valhúsaskóla.
Velferð nemenda og starfsfólks er fyrir öllu!
Áhersla verður lögð á gott upplýsingaflæði og samvinnu bæjaryfirvalda, starfsfólks, nemenda og foreldra enda mun sú staða sem nú er uppi og þær framkvæmdir sem framundan eru óneitanlega hafa áhrif á alla. Allt starfsfólk Grunnskóla Seltjarnarness og foreldrar/forráðamenn barna í báðum skólabyggingunum hafa fengið upplýsingar um stöðu mála og fyrstu aðgerðir. Fljótlega mun skólinn upplýsa um tilhögun fyrstu skóladaganna en það er ljóst að þessar aðstæður munu valda einhverri röskun á eðlilegu skólastarfi. Allt verður hins vegar reynt til þess að það megi verða í lágmarki svo að skólastarf í Grunnskóla Seltjarnarness geti gengið sem best fyrir sig þrátt fyrir stöðu mála.
Það er mikill hugur í öllum sem að málum koma að skólinn komist í gott lag sem fyrst enda velferð nemenda og starfsfólks fyrir öllu. Með góðri samvinnu allra gerist það vonandi fyrr en síðar.
Úttekt Eflu, skýrslur: