Ragnheiður Steindórsdóttir, leikkona var útnefnd bæjarlistamaður Seltjarnarness fyrir árið 2009 við hátíðlega athöfn sem haldin var á bókasafni bæjarins. Í ræðu sinni sagði Sólveig Pálsdóttir formaður menningarnefndar Seltjarnarness að leikkonan hefði allt það til að bera sem prýtt gæti bæjarlistamann því ,,auk ótvíræðra hæfileika, listræns metnaðar og sannfæringar, þá einkennir einstök vandvirkni hvert hennar verk."
Ragnheiður Steindórsdóttir sagðist vera bæði þakklát og snortin og taka við viðurkenningunni með miklu stolti.
Hún gladdi síðan gesti með stuttu atriði úr ,,Sem yður þóknast" eftir Shakespeare í þýðingu Helga Hálfdanarsonar og upplestri úr ,,Brekkukotsannál" eftir Halldór Laxness. Þá söng hún ásamt Felixi Bergsyni nokkur lög eftir bræðurna Jónas og Jón Múla Árnasyni við undirleik Jóhanns G. Jóhannssonar.
Ragnheiður Steindórsdóttir útskrifaðist frá The Bristol Old Vic Theare School árið 1975. Hún hefur verið fastráðin við Þjóðleikhúsið frá árinu 1983 og leikið þar fjölda hlutverka. Má þar nefna Ratched yfirhjúkrunarkonu í Gaukshreiðrinu, Nancy í Oliver, Fantine í Vesalingunum, Söru Brown í Gæjar og Píur, Siddý í Taktu lagið Lóa og Þórhildi í Ég heiti Ísbjörg, ég er ljón eftir Vigdísi Grímsdóttur en fyrir það hlutverk var hún tilnefnd til menningarverðlauna DV.
Ragnheiður á einnig að baki fjölmörg hlutverk hjá Leikfélagi Reykjavíkur svo sem Skáld-Rósu í samnefndu verki Birgis Sigurðssonar, Lillu í Saumastofunni eftir Kjartan Ragnarsson og Abbie Putnam í Undir álminum. Hjá Leikfélagi Akureyrar steig hún á svið í hlutverki Elísu Dolittle í My fair Lady.
Þá hefur Ragnheiður leikið í fjölmörgum útvarpsleikritum, sjónvarpsþáttum og í kvikmyndum. Má þar nefna BBC þáttaröðina Running Blind, íslensku myndirnar Útlaginn og Stóra planið, sjónvarpsþáttaraðirnar Fastir liðir eins og venjulega, Undir sama þaki, Svartir englar og Spaugstofan. Þessa dagana má sjá hana í hluverki Urðar saksóknara í Réttur.
Nafnbót bæjarlistamanns fylgir starfsstyrkur og ætlar Ragnheiður að takast það mikla verkefni á hendur að lesa Passíusálma Hallgríms Péturssonar í Seltjarnarneskirkju á föstudaginn langa. Þá mun hún koma fram við ýmis tilefni og uppákomur í bæjarfélaginu á árinu.
Þetta er í 13 skipti sem bæjarlistamaður er útnefndur á Seltjarnarnesi. Fráfarandi bæjarlistamaður er Kristín Gunnlaugsdóttir myndlistarmaður en meðal fyrri bæjarlistamanna eru Bubbi Morthens tónlistarmaður, Gunnar Kvaran sellóleikari, Auður Hafsteinsdóttir fiðluleikari, Jóhann Helgason tónlistarmaður og Margrét Helga Jóhannsdóttir leikkona.