RAGNA Ingimundardóttir leirkerasmiður hefur verið valin bæjarlistamaður Seltjarnarness árið 1998 og var henni afhentur starfsstyrkur að upphæð 400.000 kr. við hátíðlega athöfn í Koníaksstofunni á Eiðistorgi í gær.
Þetta er í þriðja sinn sem valinn er bæjarlistamaður á Seltjarnarnesi en menningarnefnd bæjarins stendur fyrir valinu. Í fréttatilkynningu frá menningarnefndinni segir að tilgangurinn með vali bæjarlistamanns sé að styðja listamenn búsetta á Seltjarnarnesi til frekari dáða á menningar- og listasviðinu og veita þeim viðurkenningu fyrir framlag sitt til bæjarfélagsins með listsköpun sinni.
Ragna stundaði nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands á árunum 19771982 og við Gerrit Rietveld Academic í Hollandi 19821984. Hún hefur rekið sitt eigið verkstæði frá 1984 og verið stundakennari við Myndlista- og handíðaskóla Íslands frá 1987. Hún hefur haldið fjölmargar sýningar á verkum sínum hér á landi og erlendis og ráðgerir nú stóra einkasýningu árið 2000, auk þess sem tvær samsýningar eru í undirbúningi. Ragna hefur á síðustu árum unnið að því að þróa tækni við að mála á stór leirker líkt og listmálari málar á striga, auk þess sem hún hefur unnið að útfærslu á mósaíkborðum sem hún vinnur sjálf alveg frá grunni.