Kveðjukaffi var haldið í dag fyrir þrjá leikskólakennara með samtals 136 ára starfsaldur þar af hartnær 100 ár hér á Seltjarnarnesi.
Anna Stefánsdóttir, Arna Þorvalds og Þórdís Einarsdóttir voru heiðraðar í dag og þeim þökkuð vel unnin störf á Leikskóla Seltjarnarness. Þær útskrifuðust allar frá Fóstruskóla Íslands, Anna árið 1974, Þórdís árið 1975 og Arna árið 1992 og hafa unnið sem leikskólakennarar allar götur síðan, lengst af á hér á Seltjarnarnesi eða sameiginlega í hartnær 100 ár sem hlýtur að vera nokkuð einstakt.
Í kveðjuræðu Margrétar Gísladóttur leikskólastjóra kom fram að þær stöllur hafi verið virkir þátttakendur í þeirri framþróun sem hefur átt sér stað í Leikskóla Seltjarnarness í gegnum tíðina og munu skilja eftir sig djúp fótspor sem samfélagið á Seltjarnarnesi, börn og leikskólakennarar munu njóta til framtíðar.
Þið hafið allar verið farsælar í starfi og snert mörg hjörtu enda gæddar öllum þeim kostum sem sannir leikskólakennarar hafa. Að vinna traust barna og foreldra, vera í þessari miklu nánd, ná augnsambandi, veita hlýju, eiga í samskiptum alla daginn og sýna umburðarlyndi eru mikilvægir eiginleikar sem ykkur hefur frá upphafi verið í lófa lagið að gera. Ykkar verður sárt saknað en þakklæti fyrir samstarfið og allt sem þið hafið gefið af ykkur er mér og okkur öllum efst í huga.
Margrét veitti þeim Önnu, Örnu og Þórdísi blóm og viðurkenningarskjöl venju samkvæmt þegar að starfsfólk Seltjarnarnesbæjar hættir eftir langan starfsaldur. Kveðjuathöfnin fór fram í hátiðarsalnum á Mánabrekku þar sem boðið var upp á kaffiveitingar þar sem fjöldi starfsmanna safnaðist saman auk nokkurra gesta m.a. bæjarstjóri og tveir fyrrum leikskólastjórar, þær Anna Harðardóttir og Soffía Guðmundsdóttir sem lengi unnu með þeim stöllum.