Fara í efni

Leiðbeiningar til íbúa á höfuðborgarsvæðinu vegna fuglaflensufaraldurs

Dýraþjónusta Reykjavíkur tekur á móti tilkynningum í síma 822 7820 og dyr@reykjavik.is um dauða fugla á öllu höfuðborgarsvæðinu og er með meindýraeyða á sínum snærum til að takast á við þessi verkefni. Íbúar á Seltjarnarnesi sem rekast á dauða fugla eru beðnir um að tilkynna það strax og meðhöndla alls ekki dauða eða veika fugla.
Starfsfólk Dýraþjónustu Reykjavíkur hefur sótt margar dauðar gæsir undanfarna daga vegna skæðrar fug…
Starfsfólk Dýraþjónustu Reykjavíkur hefur sótt margar dauðar gæsir undanfarna daga vegna skæðrar fuglaflensu.

Heilbrigðiseftirlit Garðabæjar, Hafnarfjarðar, Kópavogs, Mosfellsbæjar og Seltjarnarness hefur samið við Dýraþjónustu Reykjavíkur um að annast móttöku á tilkynningum um dauða fugla á svæðinu fyrir hönd sveitarfélaganna í þeirri skæðu fuglaflensu sem nú stendur yfir. 

Starfsfólk Dýraþjónustu hefur staðið í ströngu undanfarið vegna fuglaflensufaraldurs sem herjar á fugla, einkum gæsir, og vilja þau koma skilaboðum á framfæri til borgarbúa. Dýraþjónusta Reykjavíkur mun sjá um þjónustu vegna þessa á öllu höfuðborgarsvæðinu í samstarfi við Matvælastofnun.

Fólk beðið að láta vita af veikum eða dauðum fuglum

Íbúar á höfuðborgarsvæðinu sem verða varir við dauða eða veika fugla er beðið um að meðhöndla þá ekki heldur hafa tafarlaust samband við Dýraþjónustuna. Hægt er að hringja í Dýraþjónustuna frá klukkan 9-21 á virkum dögum og klukkan 9-17 um helgar í síma 822 7820 eða senda tölvupóst á netfangið dyr@reykjavik.is


Fólk er beðið um að gefa góða lýsingu á staðsetningu fuglanna og ef mögulegt er, senda myndir. Ef fólk verður vart við fugla í vanda eða dauða fugla utan þjónustutíma Dýraþjónustunnar er það beðið um að hafa samband við Lögregluna á höfuðborgarsvæðinu.

Passa vel upp á heimilisketti og hunda

Dýraþjónusta Reykjavíkur tekur undir ráðgjöf frá dýralæknum og sérfræðingum Matvælastofnunar að halda heimilisköttum inni á meðan þessi skæða inflúensa gengur yfir en hún er bráðsmitandi og getur borist í ketti líkt og fugla. Ef viðra þarf kettina er mælt með að hafa þá í taumi. Þá er þeim tilmælum beint til hundaeigenda að gæta þess að hundar þeirra fari ekki í hræ af fuglum þótt engin staðfest smit yfir í hunda séu þekkt á þessum tímapunkti.

Mikilvægt hlutverk Dýraþjónustunnar

Starfsfólk Dýraþjónustunnar í Reykjavík hefur unnið þétt með sérfræðingum á Matvælastofnun undanfarna mánuði. Í síðasta mánuði hafa þau meðal annars tekið um 40 blóðsýni af fuglum sem grunur leikur á að hafi smitast af þessari skæðu fuglainflúensu. Síðustu daga hafa komið fjölmargar tilkynningar um veika eða dauða fugla sem þau hafa sinnt.


Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?