Fara í efni

Jákvæður viðsnúningur á rekstri bæjarins

Ársreikningur Seltjarnarnesbæjar fyrir árið 2024 sem var samþykktur á fundi bæjarstjórnar þann 9. apríl sýnir jákvæðan viðsnúning í rekstri bæjarins. Helstu ástæður eru aukið aðhald í rekstri og mótvægisaðgerðir.

Ársreikningur Seltjarnarnesbæjar fyrir árið 2024 sem var samþykktur á fundi bæjarstjórnar þann 9. apríl sýnir jákvæðan viðsnúning í rekstri bæjarins.

Skýrist sá viðsnúningur af auknu aðhaldi í rekstrinum eftir mjög þungt rekstrarár árið 2023. Enn fremur höfðu mótvægisaðgerðir sem gripið var til, m.a. sala á húsnæði hjúkrunarheimilisins, góð áhrif á sjóðsstöðu bæjarins. Með því var unnt að greiða upp skammtímaskuldir þannig að það létti verulega á fjármagnskostnaði.

Halli á samstæðu nemur 107 m.kr. á árinu 2024, samanborið við 798 m.kr. árið áður, sem er viðsnúningur upp á 691 m.kr. Gjaldfærsla lífeyrisskuldbindinga nemur 227 m.kr. á árinu, sem er töluverð lækkun milli ára. Viðsnúningurinn er þó verulegur að teknu tilliti til þessarar lækkunar, ekki síst þar sem enn er að skapast kostnaður vegna framkvæmda í grunnskólahúsnæði bæjarins, þótt þær framkvæmdir hafi að miklu leyti einkennst af uppbyggingu. Fjármagnskostnaður á árinu nam 277 m.kr., en vextir og verðbólga eru nú á niðurleið sem er jákvæð þróun. Halli á A-hluta nemur tæpum 464 m.kr. á árinu 2024 samanborið við 867 m.kr. halla árið 2023. Er það viðsnúningur upp á nær 404 m.kr., sem má teljast gott.

Skatttekjur bæjarfélagsins aukast um 8,5% milli ára og framlög Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga aukast um 28,1%. Útlit er fyrir að tekjustofn bæjarins muni styrkjast enn frekar með fjölgun íbúa þegar fólk flyst í Gróttubyggð. Það mun renna enn styrkari stoðum undir grunnrekstur bæjarins. Áfram verður lögð áhersla á aðhald og ábyrgð í rekstri. Það er forsenda þess að áfram sé hægt að halda úti framúrskarandi grunnskólum og leikskólum, auk þess að veita bæjarbúum aðra þjónustu á sem bestan hátt.

Kennitölur endurspegla styrkari rekstur bæjarins:

Kennitölur 2024: A hluti  2024: A & B hluti 2023: A hluti 2023: A & B hluti
Skuldaviðmið 90% 81% 92% 93%
Skuldahlutfall A hluta 122% 107% 142% 138%
Rekstrarniðurstaða -463.600.586 kr. -107.262.592 kr. -867.051.131 kr. -797.622.329 kr.
Fjárfesting í varanlegum rekstrarfjármunum 16% 15% 8% 10%
Veltufé frá rekstri 3% 6% 0% 3%
Ég er þakklátur starfsfólki bæjarfélagsins fyrir elju og útsjónarsemi við sín störf og að hafa náð þessum árangri við erfiðar aðstæður segir Þór Sigurgeirsson bæjarstjóri. Við höldum áfram að vinna niður hallann mikla frá árinu 2023 með það að leiðarljósi að skila bæjarsjóði í jákvæðri afkomu á yfirstandandi ári. Það er markmiðið en sá viðsnúningur sem við erum að ná sýnir að grunnreksturinn er að styrkjast verulega eftir erfið ár. Við horfum bjartsýn fram á veginn með það verðuga markmið sem er velferð og ánægja íbúa Seltjarnarnesbæjar.

Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?