Tilgangurinn með vali bæjarlistamanns er að styðja listamenn búsetta á Seltjarnarnesi í menningarstarfi sínu og veita þeim viðurkenningu fyrir framlag sitt til betra og blómlegra mannlífs. Útnefningunni fylgir starfsstyrkur að fjárhæð 400 þúsund krónur. Styrkinn hyggst Gunnar nota til þess að efla hlustun á góða tónlist í skólum landsins, sérstaklega grunnskólum, með heimsóknum, tónleikum og fyrirlestrum.
Gunnar Kvaran var valinn úr hópi átta umsækjenda en stjórn Lista- og menningarsjóðs auglýsti fyrr í sumar eftir umsóknum. Gunnar er fæddur í Reykjavík 1944. Hann stundaði nám við Tónlistarskólann í Reykjavík og lauk einleikaraprófi frá Det Kgl. Danske Musikkonservatorium í Kaupmannahöfn 1971. Gunnar hefur haldið tónleika sem einleikari eða með öðrum í fjölda landa og hlotið margs konar viðurkenningu fyrir list sína.
Jón Hákon Magnússon forseti bæjarstjórnar Seltjarnarness afhenti Gunnari Kvaran viðurkenninguna sem fyrsti bæjarlistamaður Seltjarnarness.