Fara í efni

Grunnskóli Seltjarnarness verður að tveimur sjálfstæðum skólum og nýr skólastjóri ráðinn að Valhúsaskóla

Mýrarhúsaskóli og Valhúsaskóli taka til starfa sem sjálfstæðir skólar þann 1. ágúst næstkomandi þar sem að Kristjana Hrafnsdóttir verður skólastjóri Mýrarhúsaskóla og Helga Þórdís Jónsdóttir tekur við sem skólastjóri Valhúsaskóla.

Bæjaryfirvöld Seltjarnarnesbæjar ákváðu fyrr á þessu ári að kanna skyldi fýsileika þess að skipta Grunnskóla Seltjarnarness í tvo sjálfstæða skóla. Í ljósi niðurstaðna þeirrar könnunar var sú ákvörðun tekin í bæjarráði þann 4. apríl sl. að vinna við skiptingu skólanna skyldi hafin þegar í stað og fól ráðið bæjarstjóra að vinna málið áfram í samvinnu við sviðsstjóra og skólanefnd. Bæjarráð staðfesti svo á fundi sínum sl. fimmtudag stjórnskipulag fyrir Mýrarhúsaskóla og Valhúsaskóla, sem taka til starfa sem sjálfstæðir skólar f.o.m. 1. ágúst næstkomandi.

Nýtt stjórnskipulag felur í sér að í hvorum skóla verði einn skólastjóri, en gert er ráð fyrir því að flest starfsfólk Grunnskóla Seltjarnarness í dag fylgi sinni núverandi starfsstöð og verði frá komandi skólaári starfsfólk Mýrarhúsaskóla og Valhúsaskóla eftir því sem við á. Þó má gera ráð fyrir að í einhverjum tilvikum komi til samnýtingar við kennslu í einstaka greinum og verður það útfært í samstarfi við stjórnendur og kennara sem um ræðir hverju sinni.

Nýr skólastjóri Valhúsaskóla og Kristjana Hrafnsdóttir skólastjóri Mýrarhúsaskóla

Helga Þórdís Jónsdóttir hefur verið ráðin skólastjóri Valhúsaskóla frá 1. ágúst 2024. Hún starfar í dag sem deildarstjóri í Víðistaðaskóla og hefur starfað við grunnskóla sl. 14 ár, við kennslu, verkefnastjórnun og sem deildarstjóri auk þess að veita sértæku skólaúrræði forstöðu. Helga Þórdís hefur B.Ed-gráðu í grunnskólakennarafræði auk viðbótardiplómagráðu í Stjórnunarfræði menntastofnana, með áherslu á stjórnun og forystu og þróunarstarf í menntastofnunum. Þá hefur hún viðbótardiplómagráðu í Farsæld barna. Hún hefur því víðtæka reynslu af starfi í grunnskóla, m.a. með þátttöku í innleiðingu Uppeldis til ábyrgðar, sem er uppeldisstefna Grunnskóla Seltjarnarness, á sviði upplýsingartækni og innleiðingu færniþátta sem snúa að kennslufræði 21. aldar. Þá hefur Helga Þórdís haldgóða reynslu af rekstri og starfsmannahaldi og hefur komið að ákvarðanatöku varðandi flesta þætti starfsins og þekkir mjög vel til starfshátta grunnskóla.

Kristjana Hrafnsdóttir verður sem fyrr skólastjóri Mýrarhúsaskóla, en hún tók við starfi skólastjóra Grunnskóla Seltjarnarness þann 1. ágúst 2022. Kristjana er mörgum Seltirningum að góðu kunn þar sem hún hefur starfað við skólann í rúma tvo áratugi og þar af sem aðstoðarskólastjóri frá árinu 2018. Kristjana hefur M.Ed.-gráðu í uppeldis- og menntunarfræði auk þess að hafa viðbótardiplómagráðu í stjórnunarfræði menntastofnana, með áherslu á starfsþróun, skólaþróun og lærdómssamfélög undir faglegri forystu skólastjóra.

Ný foreldrafélög og víðtækt samstarf skólanna.

Lögð verður áhersla á samstarf milli skólanna til að tryggja samfellu í námi og starfi. Í fámennari skólum má gera ráð fyrir betra aðgengi nemenda og foreldra að stjórnendum. Skipting Grunnskóla Seltjarnarness í tvo sjálfstæða skóla hefur í för með sér að stofna þarf nemendafélag og foreldrafélag fyrir hvorn skóla um sig og verður það meðal fyrstu verkefna skólastjóra í kjölfar skólasetningar að taka frumkvæði að því. Þá þarf einnig að stofna skólaráð í hvorum skóla.

Mikill vilji stendur til þess að viðhalda því góða samstarfi sem þróast hefur milli Mýrarhúsaskóla og Valhúsaskóa í tíð Grunnskóla Seltjarnarness. Það er mikilvægt að skólarnir eigi í góðu samstarfi um

  • Gerð skóladagtals.
  • Stundatöflugerð, þar sem litið er til afnota og nýtingu húsnæðis; íþróttahúss og sundlaugar.
  • Námskeið og símenntun.
  • Skil milli skóla þegar nemendur færast úr Mýrarhúsaskóla í Valhúsaskóla.

Þá er einnig mikilvægt að skólarnir eigi í góðu samstarfi við skilgreinda samstarfsaðila skólanna eins og leikskóla, frístundaheimili, tónlistarskóla, félagsmiðstöð og íþróttafélagið Gróttu.


Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?