Fara í efni

Frítt í sund fyrir börn og unglinga að 18 ára aldri

Bæjarstjórn samþykkti í lok árs 2024 fella í fyrsta sinn niður gjaldtöku í Sundlaug Seltjarnarness fyrir aldurshópinn 0-18 ára.
Frá Sundlauganótt 2024
Frá Sundlauganótt 2024

Gjaldfrjálst í Sundlaug Seltjarnarness fyrir börn og ungmenni að 18 ára aldri

Samkvæmt einróma samþykkt bæjarstjórnar Seltjarnarness í lok árs 2024 var ákveðið að börn og unglingar að 18 ára aldri fengju frítt í sund frá og með 1. janúar 2025 og hefur það mælst afar vel fyrir hjá börnum og fjölskyldum á Seltjarnarnesi.

Samkvæmt Hauki Geirmundssyni forstöðumanni sundlaugarinnar eru þetta merkileg tíðindi því aldrei áður hefur verið frítt fyrir þennan aldurshóp í sundlaugina okkar.

Þetta gefur krökkunum færi á að fara í sund hvenær sem þeim hentar án þess að hafa áhyggjur að vera með peninga eða kort í vasanum. Við viljum samt benda á að útivistareglur verði virtar og foreldrar þurfa að vera meðvitaðir um að börnum yngri en 10 ára er óheimilt að sækja sundlaugina nema í fylgd með fullorðnum. Þessi breyting verður vonandi til þess að yngri kynslóðin sæki sundlaugina oftar.

Og það er ekki úr vegi að hvetja alla Seltirninga til þess að koma í sund. Sundlaugin er þvílík heilsuparadís þar sem allir geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Það að synda er mikil heilsubót, heilsurækt sem reynir á flesta vöðva líkamans og styrkir um leið liðbönd og eykur þol. Sundlaugin býður uppá fría sundleikfimi 4 sinnum í viku þ.e. mánudaga og miðvikudaga kl. 18:30-19:00 og þriðjudaga og fimmtudaga kl. 7:10-7:40.

Margir nýta sér sundlaugina eftir að hafa hlaupið/gengið úti eða verið í ræktinni og skella sér í pottana sem eru með mismunandi hitastigi, köldu pottana sem og í eimbaðið. Það er nefnilega allt í lagi að koma í sundlaugina og slappa af, hitta annað fólk, spjalla og leysa vandamál hversdagsins. Á morgnana njóta þess svo margir að setjast niður eftir sund, halda áfram spjallinu í anddyrinu og þiggja frítt kaffi til kl. 10 á morgnana.

Verið ávallt velkomin. Við starfsfólkið í sundlauginni, þar sem hjartað slær, tökum vel á móti ykkur segir Haukur.


Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?