Fara í efni

Frísk í Gróttu, heilsuefling fyrir 65 ára og eldri á Seltjarnarnesi

Nýverið gerðu Seltjarnarnesbær og Frísk til framtíðar ehf. með sér samning um heilsueflingu fyrir íbúa 65 ára og eldri sem fer fram í íþróttahúsinu og hefst fyrsta námskeiðið þann 11. mars.
Þór Sigurgeirsson bæjarstjóri, Eva Katrín Friðgeirsdóttir og Fríða Karen Gunnarsdóttir íþróttafræðin…
Þór Sigurgeirsson bæjarstjóri, Eva Katrín Friðgeirsdóttir og Fríða Karen Gunnarsdóttir íþróttafræðingar og forsprakkar Frísk til framtíðar við undirritun samstarfssamningsins.

Frísk í Gróttu er heilsueflandi verkefni fyrir einstaklinga 65 ára og eldri á Seltjarnarnesi.

Seltjarnarnesbær gerði nýverið samning við þær Evu Katrínu Friðgeirsdóttur og Fríðu Karen Gunnarsdóttur íþróttafræðinga og forsprakka heilsueflingar fyrir einstaklinga 60 ára og eldri. Með samningnum verður verkefninu Frísk í Gróttu fyrir íbúa 65 ára og eldri hrint í framkvæmd hjá Gróttu og niðurgreiðir Seltjarnarnesbær þátttökugjald hvers og eins. 

Starfsemi Frísk í Gróttu verður byggð í kringum hópþjálfun þar sem þátttakendur fá tækifæri á því að stunda líkamsrækt í skemmtilegum félagsskap undir handleiðslu fagmenntaðra þjálfara. Um er að ræða markvissa og skipulagða þjálfun þar sem sem þjálfarar útbúa 6 vikna æfingaráætlanir sem þeir aðlaga eftir getu hvers og eins þátttakanda. Á æfingum verður lögð áhersla á styrktar-, þol-, liðleika- og jafnvægisæfingar. Ekki síður verður lögð áhersla á andlega og félagslega heilsu og verður starfsemin í heild sinni unnin með það að leiðarljósi.

Æfingar fara fram 2x í viku þ.e. fyrir hádegi á þriðjudögum og fimmtudögum í íþróttamiðstöðinni í nýjum styrktarsal Gróttu. Fyrsta námskeið verður 12. vikur og hefst þriðjudaginn 11. mars nk. og er hægt að velja um tvær tímasetningar klukkan 09:00 og 09:45. Þátttökugjaldið á þetta fyrsta námskeið er 5.500 kr. á mánuði (16.500 kr. fyrir allt námskeiðið) og fer skráning fram á grotta@frisktilframtidar.com. Einnig hefur verið stofnuð FB síða Frísk í Gróttu sem tilvalið er að fylgja og til fá allar fréttir af starfinu beint í æð.

Við væntum mikils af samstarfsverkefninu Frísk í Gróttu og Seltjarnarnesbæjar sem er hreyfi- og lífstílsverkefni fyrir bæjarbúa 65 ára og eldri. Verkefnið tekur við af vel sóttu verkefni Janusar sem við kunnum bestu þakkir fyrir og þökkum samstarfið. Frísk í Gróttu er styrkt af Seltjarnarnesbæ og er tilgangurinn aukin hreyfing auk almennrar vellíðunar og líkamlegrar færni eldri bæjarbúa. Ég hvet alla 65 ára og eldri til að nýta sér þetta frábæra tækifæri sagði Þór Sigurgeirsson bæjarstjóri við undirritun samningsins.

Velsóttur kynningarfundur

Hann var vel sóttur kynningarfundurinn sem haldinn var í hátíðarsal Gróttu um heilsueflinguna Frísk í Gróttu eins og sjá má á myndinni. Áhuginn var mikill og fjöldi fólks sem skráði sig á upphafsnámskeiðið og bíður spennt eftir því að byrja þann 11. mars nk.


Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?