Leikskólakennarar, starfsfólk leikskóla, stuðningsfólk, foreldrar og nokkur börn á Seltjarnarnesi gengu í dag fylktu liði með áletruð skilti að bæjarskrifstofum Seltjarnarnesbæjar til að hitta Þór Sigurgeirsson bæjarstjóra sem fór út og ræddi við hópinn.
Samstöðugangan var haldin í tengslum við verkfallsaðgerðir Kennarasambands Íslands en verkfall hefur nú staðið yfir í rúmar tvær vikur á Leikskóla Seltjarnarness. Fulltrúi leikskólakennara las upp yfirlýsingu sem bæjarstjóri fékk afhenta með hvatningu um að þrýsta á deiluaðila að leysa verkfallið. Samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga sem fer með samningsumboðið fyrir hönd sveitarfélaganna í viðræðum við Kennarasamband Íslands. Þór bæjarstjóri tók við yfirlýsingunni, hélt stutta tölu, bauð þeim sem vildu upp á kaffi og fullvissaði hópinn sem taldi yfir 150 manns um að hann myndi koma yfirlýsingunni áfram til samninganefndarinnar auk þess sem hann vonaðist eftir því að verkfallið myndi leysast sem allra fyrst.