Eiðistorgið skartar sínu fegursta í sumar með blómstrandi Eldblómum, fallegum gróðri og heildar ásýndin í takt við upprunalega hönnun torgsins.
Bæjarbúar hafa vonandi tekið eftir því hversu blómlegt og fallegt er um að litast á Eiðistorgi.
Það var gert mikið átak í að fegra torgið fyrir 50 ára kaupstaðarafmæli Seltjarnarnesbæjar þann 9. apríl sl. þegar að það var m.a. hreinsað hátt og lágt, málað í upprunalegum litum, beð og gróður endurbætt, gróðursettar nýjar plöntur og settar upp ljósaseríur í glerþakið.
Farið var í sérstakt samstarf við Sigríði Soffíu Níelsdóttur bæjarlistamann Seltjarnarness 2024 sem hefur af mikilli snilld unnið að því að setja upp lifandi listaverk, Eldblóm - hægvaxandi flugeldasýningu blóma, á Eiðistorgi í formi blómainnsetninga. Eldblómin má sjá í einu beði á torginu sem og í öllum blómakössunum sem voru enduropnaðir af þessu tilefni og skarta nú sínu fegursta með blómstrandi Skjaldfléttu og Daglilju.
Í útlitshönnun blómanna lagði Sigga Soffía upp með að heiðra upphaflega hönnun útlits og gróðurs á Eiðistorgi. Ormar Þór Guðmundsson arkitekt hannaði Eiðistorgið í takt við evrópsk útitorg en Auður Sveinsdóttir landslagsarkitekt hafði veg og vanda af hönnun og vali á gróðrinum inni á torginu á sínum tíma.
Að mati Siggu Soffíu er Eiðistorg einstakur staður. "Ótrúlega flott hönnun hjá Ormari og stórkostlegt að sjá rauða litinn á öllum súlum aftur. Mikið af áhugaverðum trjám eru á torginu sem flugeldar hafa einmitt verið hannaðir eftir, stórir pálmar og kirsuberjatré/sakura. Svo eru líka gamalt ólífutré og blómstrandi monstera."
Skjaldfléttan var í upphaflegu hönnun blómakassana á Eiðistorgi og lét Sigga Soffía rækta öll litaafbrigði sem hún komst yfir. Bleik, appelsínugul og rauð skjaldfléttublóm má nú sjá flæða niður blómakassana sem og Daglilju Frans Hals sem nefnd er eftir hollenska listamanninum en gulur og rauður eru einkennandi litir í hans verkum. Samkvæmt Siggu Soffíu er Dagliljan skemmtilegt blóm því hún blómstrar bara í sólarhring svo fólk verður að fylgjast vel með til að missa ekki af henni. Öll Eldblómin eru ræktuð af Íslensku Flugeldaræktuninni (instagram: Eldblóm.studios) og munu mismunandi blóm blómstra út sumarið og því alltaf eitthvað nýtt að sjá í beðunum.
En hvaða blóm eru Eldblóm?
Samkvæmt Siggu Soffíu er Hanabi japanska orðið yfir flugelda Hana þýðir Eldur og Bi þýðir blóm - Japanir tala því um eldblóm þar sem flugeldar voru upphaflega hannaðir til að líkja eftir blómum. Upp springur stilkur og svo springur út blóm. Í beðið á Eiðistorgi eru 3 stærðir af Dalíum - risastórar, mið og litlarar hybrid. Mingus Alex er XL dalían sem mun blómstra í öllu sínu veldi rauðu blómi, sillkibygg eru litlu stráin sem falla eins og litlar rakettur, röð af liljum og sólblóm bæði gul og bleik.
Öll Eldblómin eru fjölær svo innsetningin er varanleg og sérstaklega spennandi að sjá hversu vel þau dafna í innigarði en allar innsetningar Siggu Soffíu hafa verið utandyra og dafnað vel þrátt fyrir "íslenska sumarið" Hægt er að lesa meira um verkefnið á Eldblom.com og kaupa sér frækassa - þar sem Seltirningar og aðrir geta keypt sér fræ eða haustlaukakassa. með lítilli útgáfu af listaverkinu fyrir sinn eiginn garð.
Í lok sumars mun Seltjarnarnesbær standa fyrir viðburði á Eiðistorgi í samstarfi við Siggu Soffíu þar sem að hún ætlar m.a. segja frá hugmyndinni á bakvið Eldblómin, ræktuninni og bjóða upp á leiðsögn um Eiðistorgið í kjölfarið. Viðburðurinn verður kynntur sérstaklega þegar nær dregur.
Njótið Eiðistorgs og sumarsins á Seltjarnarnesi