ARI ELDJÁRN - BÆJARLISTAMAÐUR SELTJARNARNESS 2025
Ari Eldjárn uppistandari var útnefndur Bæjarlistamaður Seltjarnarness 2025 við hátíðlega athöfn á Bókasafni Seltjarnarness föstudaginn 14. mars.
Þetta er í 29unda sinn sem bæjarlistamaður Seltjarnarness er útnefndur en Menningarnefnd Seltjarnarness sér um val bæjarlistamanns ár hvert. Í heiðursathöfninni veitti Þórdís Sigurðardóttir formaður menningarnefndar Ara viðurkenningarskjal ásamt starfsstyrk að upphæð 1.000.000 kr. sem fylgir nafnbótinni.
Ari Eldjárn er fæddur árið 1981. Hann lauk stúdentsprófi frá Nýmáladeild II í Menntaskólanum í Reykjavík árið 2001 og kláraði svo MA nám í handritsgerð í London Film School árið 2006. Frá árinu 2009 hefur uppistand verið hans aðalatvinna. Ari hefur komið fram með uppistandshópnum Mið-Ísland á meira en 400 sýningum og skrifað handrit að fjórum Áramótaskaupum. Þá hefur Ari hefur komið fram í sýningarröðum með Sinfóníuhljómsveit Íslands og skrifað og leikið í þáttunum Mið-Ísland og Drekasvæðið. Á erlendri grundu hefur hann komið fram í sjónvarpsþáttunum Mock the Week, ABC Comedy Gala, Detta om detta og ýmsum útvarpsþáttum á BBC.
Seinasta áratuginn hefur Ari sýnt yfir 100 sýningar af Áramótaskopinu um allt land, sýnt yfir 100 sýningar á ensku á Fringe hátíðinni í Edinborg, Melbourne International Comedy Festival og í Soho Theatre í London. Árið 2020 sendi Ari frá sér þáttinn Pardon My Icelandic sem sýndur er á Netflix og er aðgengilegur í 190 löndum. Þá hlaut Ari hlaut Bjartsýnisverðlaunin 2020, Edduverðlaunin 2021 og er handhafi Verðlauna Jónasar Hallgrímssonar á degi íslenskrar tungu árið 2024.
Ari hefur verið búsettur á Seltjarnarnesi síðan 2018, á tvær dætur sem ganga í Mýrarhúsaskóla og er stoltur Gróttupabbi. Ara Eldjárn eru færðar innilegar hamingjuóskir með heiðursnafnbótina, Bæjarlistamaður Seltjarnarness 2025 og munu Seltirningar að sjálfsögðu fá að njóta hæfileika hans á árinu.
Þórdís Sigurðardóttir formaður menningarnefndar Seltjarnarness, Ari Eldjárn Bæjarlistamaður Seltjarnarness 2025 og Þór Sigurgeirsson bæjarstjóri.
Ari Eldjárn, Tinna Brá Baldvinsdóttir og dætur fagna útnefningu Ara sem bæjarlistamaður.