Fara í efni

Bæjarlistamaður Seltjarnarness 2010 er Freyja Gunnlaugsdóttir klarínettuleikari

Í dag laugardaginn 16. janúar á Bókasafni Seltjarnarness fór fram útnefning bæjarlistamanns Seltjarnarness en val á bæjarlistamanni Seltjarnarness hefur farið fram frá árinu 1996. Að þessu sinni varð Freyja Gunnlaugsdóttir klarínettuleikari fyrir vali menningarnefndar Seltjarnarness sem bæjarlistamaður ársins 2010.

Í dag laugardaginn 16. janúar á Bókasafni Seltjarnarness fór fram útnefning bæjarlistamanns Seltjarnarness en val á bæjarlistamanni Seltjarnarness hefur farið fram frá árinu 1996. Að þessu sinni varð Freyja Gunnlaugsdóttir klarínettuleikari fyrir vali menningarnefndar Seltjarnarness sem bæjarlistamaður ársins 2010. Við athöfnina spilaði Freyja Rúmenska dansa eftir Ferenc Farkas og Béla Bartók við undirleik píanóleikarans Bjarna Frímanns Bjarnasonar.

Í ræðu Sólveigar Pálsdóttur formanns menningarnefndar kom m.a. fram að „Freyja er borinn og barnfæddur Seltirningur og hóf tónlistarnám sitt við Tónlistarskóla Seltjarnarness aðeins fimm ára gömul og var yngsti nemandinn í skólanum. Hún lærði á blokkflautu hjá Gylfa Gunnarssyni skólastjóra Tónlistarskóla Seltjarnarness og á klarínettu hjá Önnu Benassi. Þá spilaði hún í fjölda ára í lúðrasveitum skólans“.

Síðar stundaði hún nám við Tónlistarskólann í Reykjavík hjá Kjartani Óskarssyni, þaðan sem hún útskrifaðist vorið 1999. Næstu árin nam hún við Tónlistarháskólann í Berlín og lauk þaðan Magisterprófi í klarínettuleik vorið 2005 með hæstu einkunn. Ekki lét hún staðar numið fyrr en hún hafði lokið hæstu gráðu sem hægt er að taka ,,Konzertexamen” (doktor of performance) úr einleikaradeild en kennari hennar var prof. Karlheinz Steffens, sólóklarínettuleikari við Berlínar fílharmóníuna.

Freyja hefur leikið við ýmsar hljómsveitir og kammerhópa svo sem Berliner Symphoniker, Staatsorchester Frankfurt, Komische Oper Berlin og við Óperuhljómsveitina í Madrid (Theatro de la Opera). Hún hefur komið fram sem einleikari með hljómsveitum á borð við pólsku kammersveitina, Berliner Symphoniker, Preussische Kammerorchester, Ensemble fur neue Musik Berlin. Síðastliðið sumar kom Freyja fram sem einleikari í klarínettukonsert Mozart á þýsk-íslenskri listahátíð í Berlín. Hún hefur frumflutt fjöldann allan af einleiksverkum fyrir klarínettu víða um heim.

Freyja hlaut fyrstu verðlaun fyrir flutning í Hanns Eisler nútímatónlistarkeppninni í Berlín árin 2000 og 2001. Þá hefur hún unnið frumlegt og gefandi starf með myndlistarmönnum. Nýlega voru gefnir út geisladiskar með leik Freyju. Sá fyrri var gefinn út af ítalska útgáfufyrirtækinu Stradivarius 2007 en sá seinni inniheldur íslensk söng-og danslög og kallast ,,Ern er vor sál”

Framundan á árinu 2010 eru tónleikar í New York og í Berlín á vegum þýsku Listakademíunnar og tónleikar í Reykjavík, meðal annars á listahátíð. Tónleikferð um Pólland, og tónleikar í Frankfurter Hof með verkum eftir íslensk tónskáld

Freyja sagði í ræðu sinni ætla að halda útgáfutónleika á Seltjarnarnesi á árinu í tilefni af útgáfu geisladisksins Kviðu með Freyja‘s Tríó. Þá er vilji hennar að „...leyfa yngstu kynslóðinni að kynnast klarínettunni t.d. með því að kynna hana á leikskólum Seltjarnarness“. Í ágústlok mun Freyja halda aðra útgáfutónleika sem verða á Seltjarnarnesi, í Reykjavík og Vestmannaeyjum í tilefni af útgáfu geisladisks með nýjum útsetningum Atla Heimis Sveinssonar á verkum eftir, afa Freyju, hinn þjóðþekkta Ása í Bæ og ekki síður þjóðþekkta Oddgeirs Kristjánssonar


Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?