Bubbi Morthens tónlistarmaður var útnefndur bæjarlistamaður Seltjarnarnesbæjar árið 2002 í gær. Þetta er í sjöunda sinn sem valinn er bæjarlistamaður Seltjarnarness, en menningarnefnd Seltjarnarness stendur fyrir vali bæjarlistamannsins. Tilnefningu bæjarlistamanns fylgir 500 þúsund króna starfsstyrkur.
Bubba Morthens þekkja flestir en hann er einn af virtustu rokktónlistarmönnum landsins. Hann tók við verðlaununum úr hendi Sólveigar Pálsdóttur, formanns menningarnefndar Seltjarnarness, í gær og sagðist þakklátur fyrir nafnbótina þegar Morgunblaðið átti við hann samtal. "Titlar þýða í sjálfu sér ekki neitt, en það er alltaf gaman að fá viðurkenningu. Mér þykir mjög vænt um þetta og þykir þetta um leið dálítill kjarkur hjá þeim hérna á Nesinu að velja mig. Ekki bara vegna tónlistarinnar, hún er allra góðra gjalda verð, en ég er mjög umdeildur maður og skoðanir um mig skiptar," segir Bubbi.
Segist hvergi annars staðar vilja vera
Bubbi Morthens hefur verið búsettur á Seltjarnarnesinu í 12 ár og segist hvergi annars staðar vilja vera. "Nesið er ákaflega góður staður til að búa á, hér er allt til alls og hér er gert vel við barnafólk. Síðan er það náttúrlega Grótta, sem er algjör paradís."
Bubbi mun eiga annríkt á næstunni við að kynna nýju plötuna sína, Sól að morgni, sem út kemur 24. október næstkomandi. "Ég er síðan að gæla við þá hugmynd eftir áramótin að bjóða Seltjarnarnesbúum til tónleika í kirkjunni hér," segir Bubbi Morthens, bæjarlistamaður Seltjarnarnesbæjar.