Ari Bragi Kárason (1989) trompetleikari var í dag tilnefndur bæjarlistamaður Seltjarnarness 2014, en hann er átjándi Seltirningurinn til að hljóta nafnbótina og langyngstur til þessa. Hinn nýkrýndi bæjarlistamaður hefur frá unga aldri verið áberandi í tónlistarlífi bæjarins. Hann býr að fjölbreyttu tónlistarnámi, sem hófst við Tónlistarskóla Seltjarnarness og var snemma áberandi í íslensku tónlistarlífi. Þrátt fyrir ungan aldur hefur Ari Bragi nú þegar skipað sér í raðir okkar fremstu tónlistarmanna.
Ari Bragi hefur leikið inn á hljómplötur með stórstjörnum á borð við Norah Jones, Tigran Hamaysian, Ane Brun auk fjölmörgum af þekktustu tónlistarmönnum landsins á borð við Bubba Morthens, Hjaltalín, Jóel Pálsson og Kristjönu Stefánsdóttur.
Ari Bragi útskrifaðist frá Tónlistarskóla FÍH árið 2008 úr jazz- og rokkbraut auk þess að ljúka á sama tíma námi úr klassískri braut skólans. Eftir það hélt hann til náms í New York og útskrifaðist með láði frá New School for Jazz and Contemporary Music árið 2012. Ari Bragi kennir nú trompetleik við Tónlistarskóla Seltjarnarness ásamt því að koma reglulega fram og leika inn á hljóðupptökur.
Ari Bragi hefur unnið til fjölda tónlistar- og hvatningarverðlauna en aðeins níu ára gamall hlaut hann hvatningarverðlaun ungra og efnilegra Íslendinga frá forseta Íslands. Hann bar sigur úr býtum í Samfés, tónlistarkeppni félagsmiðstöðva árið 2005 fyrir besta frumsamda lagið og var sigurvegari Skrekks, hæfileikakeppni grunnskólanna sama ár. Hann var fyrsti tónlistarmaðurinn til að hljóta styrk úr Minningarsjóði Árna Scheving árið 2008 og hampaði Íslensku tónlistarverðlaununum árið 2010 í flokknum Bjartasta vonin. Árið 2012 hlaut Ari Bragi styrk úr minningarsjóði Kristjáns Eldjárns gítarleikara.
Ari Bragi er um þessar mundir að leggja lokahönd á hljómplötu sem hann og píanóleikarinn Eyþór Gunnarsson hafa tekið upp í Tónlistarskóla Seltjarnarness og í Seltjarnarneskirkju. Í sumar frumflytur hann í Sviss trompetverk sem þarlent tónskáld hefur skrifað fyrir hann og sinfóníuhljómsveit.
Tilnefning Ara Braga ber upp á 40 ára afmæli Seltjarnarnesbæjar en af því tilefni og sem þakklætisvott fyrir viðurkenninguna mun hann standa fyrir tónleikaröð á Seltjarnarnesi þar sem hann teflir saman ólíkum tónlistarmönnum á ólíkum stöðum og við ólík tilefni á árinu.
Að mati menningarnefndar Seltjarnarness er það til marks um mikla grósku í tónlistarlífi bæjarfélagsins að í sjöunda sinn skuli tónlistarmaður verða fyrir valinu sem Bæjarlistamaður Seltjarnarness. Einnig er það mikið fagnaðarefni að Ari Bragi haldi enn ríkri tryggð við samfélagið sem ól hann upp og mótaði, með reglulegu tónleikahaldi og með því að miðla ungum tónlistarnemum, sem eru að stíga sín fyrstu skref af sinni dýrmætu reynslu og þekkingu.
Á meðfylgjandi myndum má sjá nýkrýndan Bæjarlistamann Seltjarnarness 2014, Ara Braga Kárason ásamt bæjarstjóra Seltjarnarness, Ásgerði Halldórsdóttur. Einnig er Ari Bragi á myndum með Katrínu Pálsdóttur, formanni menningarnefndar Seltjarnarness og foreldrum sínum Ingunni Þorláksdóttur og Kára Húnfjörð Einarssyni.