Mættir voru: Ingimar Sigurðsson (IS), Margrét Pálsdóttir (MP), Stefán Bergmann (SB), Kristín Ólafsdóttir (KÓ) og Magnús Örn Guðmundsson (MÖG), sem ritaði fundargerð. Auk nefndarmanna sátu fundinn þau Steinunn Árnadóttir garðyrkjustjóri og Haukur Kristjánsson bæjartæknifræðingur.
Dagskrá fundarins
- Fundur settur
- Kynning á nýjum tillögum um sjóvarnargarða við Kotagranda
- Umhverfisviðurkenningar SSH 2002
- Erindi Lionsklúbbs Seltjarnarness
- Önnur mál
- Fundi slitið
1. IS setti fund kl. 17:03 og bauð fundarmenn velkomna.
2. Sjóvarnargarðar. Haukur lagði fram yfirlitsskýrslu um sjóvarnir frá Siglingamálastofnun og annað efni tengt sjóvörnum á Seltjarnarnesi. Kynnti teikningar af fyrirhuguðum sjóvarnargarði við Kotagranda. Farið yfir kostnað og þörf á garðinum. Kom fram að ekki sé gert ráð fyrir að garðurinn verði hærri en sandhólarnir á svæðinu.
Samþykkt umsögn um fyrirhugaðar framkvæmdir við sjóvörn við Kotagranda:
Til Skipulags-og mannvirkjanefndar Seltjarnarness
Efni: Umsögn um fyrirhugaðar framkvæmdir við sjóvörn á Kotagranda.
Fyrirliggjandi gögn: Teikningar frá Siglingastofnun,
Yfirlitsskýrsla um sjóvarnir. Sept 2000.Siglingastofnun
Bréf Skipulagsstofnunar frá17.apríl 2002
Náttúruminjaskrá
Auglýsing um friðlýsingu Bakkatjarnar.
Lög um náttúruvernd 44/1999
Umhverfisnefnd hefur athugað teikningar Siglingastofnunar að sjóvarnagarði á sunnanverðum Kotagranda við Seltjörn. Teikningarnar sýna megingerð garðsins, útlit og hæð í landslag og aðgengi að fjöru. Í skýrslu stofnunarinnar er áhættumati lýst og fellur svæðið í B-C og C flokk. Ekki liggur fyrir lýsing á verklagi, hugsanlegri röskun á framkvædatíma né mótvægisaðgerðum og mat á eðli svæðisins sem útivistar- og náttúruverndarsvæðis er takmarkað.
Umhverfisnefnd lítur svo á að hlutverk sjóvarnargarðs á þessum stað sé að hamla gegn landskemmdum af völdum sjávar en ekki til að verja mannvirki eða eignir. Nefndin bendir á að umrætt svæði er hluti af útivistarsvæði sem mótað er af sterkri landslagsheild og er viðkvæmt fyrir röskun og breytingum á útliti og landslagi. Fjaran og Kotagrandi er á náttúruminjaskrá ríkisins vegna landslagsins, fjölbreytts strandgróðurs og fuglalífs, fjörumós í Seltjörn og gildis þess til útivistar. Framkvæmdasvæðið liggur einnig að mörkum friðlands við Bakkatjörn sem stofnað er til vegna fuglalífs, gróðurs og búsvæða við tjörnina. Náttúruverndarsvæði þessi eru í umsjá Umhverfisnefndar Seltjarnarness í umboði Náttúruverndar ríkisins.
Hér er um að ræða framkvæmdir á viðkvæmu og verðmætu svæði sem ekki er mikil reynsla af að vinna með tilliti til þeirrar stöðu og einkenna sem svæðið hefur. Það stendur Seltirningum og mörgum öðrum nærri og mikið er í húfi að vel sé staðið að verki.
Umhverfisnefnd telur að fyrirhuguð framkvæmd þurfi ekki að hafa umtalsverða umhverfisröskun í för með sér, en telur vinnulag, varúðarráðstafanir og eftirlit skipta miklu um áhrif framkvæmdanna.
Nefndin telur að markmið eigi að vera, að sjóvarnargarðurinn verji land, en hverfi sem mest inn í landslag svæðisins, að röskun á strandgróðri verði sem minnst og aðgengi fólks að fjörunni við Seltjörn skerðist ekki.
3. Umhverfisviðurkenningar SSH 2002. Ingimar lýsti eftir hugmyndum. Það þarf að senda inn tilkynningar fyrir 18.október. Rætt um nokkrar tillögur og verkefni sem eru efnileg til slíkrar viðurkenningar.
4. Erindi Lionsklúbbs Seltjarnarness. Nefndinni hefur borist erindi frá Lions klúbbnum um 4 ný umhverfismerki og lagfæringar á tveimur gömlum. Beiðni um styrk að upphæð 100.000. Um er að ræða merki með sögustöðum og kennileitum. Samþykkt samhljóða.
5. Önnur mál.
Æfingaskáli golfklúbbsins. Lagðar fram til kynningar nýjar teikningar af æfingaskála Golfklúbssins.
Kristín ræddi um ferli við samþykkt fundargerða. Heppilegast að mati fundarmanna að samþykkja fundargerðir í lok hvers fundar og sendar á tölvutæku formi til fundarmanna daginn eftir.
Fleira ekki rætt.
6. Fundi slitið klukkan 19:05
MÖG