331. fundur Umhverfisnefndar haldinn í fundarsal bæjarstjórnar á bæjarskrifstofunni, þriðjudaginn 8. apríl 2025 kl. 8:15
Mættir: Grétar Dór Sigurðsson, Hannes T. Hafstein, Guðrún Brynja Vilhjálmsdóttir, Magnea Gylfadóttir og Stefán Bergmann
Fundarritari: Gunnlaugur Jónasson skipulags- og byggingarfulltrúi
Í upphafi fundar lagði formaður til að eitt mál yrði tekið á dagskrá með afbrigðum. Það er mál nr. 2 sem fjallar um þurrsalerni við golfvöll.
Dagskrá:
1. 2024010300 - Endurskoðun friðlýsingar Gróttu
Á 925. bæjarstjórnarfundi þann 10. mars 2021 fól bæjarstjórn fulltrúum í umhverfisnefnd að taka sæti í starfshópi Umhverfisstofnunar um endurskoðun á friðlýsingarskilmálum Gróttu og mögulegri stækkun friðlandsins. Starfshópurinn hefur lokið störfum.
Starfshópurinn telur mikilvægt að Seltjörn verði hluti af friðlandi Gróttu en undir öðrum friðlýsingarskilmálum sem ná aðeins til truflandi umferðar farartækja á varptíma en sjósund, kajakar, árabátar og sambærileg faratæki verða samkvæmt tillögunni áfram leyfð. Umferð fólks árið um kring verður áfram heimil um Seltjörn, hvort tveggja í fjörunni og í sjónum, en Grótta sjálf er lokuð á varptíma eins og verið hefur síðan árið 1974.
Seltjörn er varin úthafsöldu af rifi og er afar mikilvæg fuglalífi á Seltjarnarnesi og víðar. Hún er umlukin fjölbreyttum fjörum, þangfjörum, fjörupollum, sandfjörum, leirum og setmyndunum, fjörumó og jökulseti. Seltjörn er grunn, lífrík sjávarvík og mikil fæðuuppspretta fyrir unga jafnt sem fullvaxta fugla og þar eru hagstæð skilyrði fyrir uppeldi ungviðis. Seltjörn er í C-hluta náttúruminjaskrár skv. 3. tl. 2. mgr. 33. gr. náttúruverndarlaga nr. 60/2013 ásamt fjörum kringum nesið frá Bakka að mörkum byggðar við Bygggarða. Innan svæðisins er Suðurnes allt, Kotagrandi, Bakkagrandi og Bakkatjörn en Bakkatjörn var friðlýst 30. nóvember 2000 en Seltjörn hefur verið á náttúruminjaskrá síðan 1981.
Jafnframt er nauðsynlegt að uppfæra friðlýsingarskilmála Gróttu en núgildandi skilmálar eru frá 1974. Samkvæmt drögum að nýjum skilmálum verður m.a. heimilt að fara út í eyna til að sinna viðhaldi mannvirkja og meindýravörnum en núgildandi skilmálar taka fyrir slíkt nema að fenginni undanþágu. Starfsmenn bæjarins hafa lent í vandræðum við nauðsynlega umsýslu í Gróttu en munu að samþykktum nýjum skilmálum geta sinnt slíkum verkefnum án tafar.
Afgreiðsla: Umhverfisnefnd samþykkir að beina tillögu starfshópsins að nýjum friðlýsingarskilmálum til bæjarstjórnar til kynningar og eftir atvikum samþykktar.
2. 2025030125 - Þurrsalerni við golfvöll
Borist hefur erindi frá Golfklúbbi Seltjarnarness það sem óskað er eftir leyfi til að setja upp þurrsalerni á golfvelli félagsins. Á síðasta fundi var eftirfarandi bókað: „Umhverfisnefnd leggst ekki gegn hugmyndinni en óskar eftir frekari gögnum, meðal annars um nákvæmari staðsetningu og hæðarsetningu í landi, áður en endanleg ákvörðun er tekin. Einnig telur nefndin nauðsynlegt að afla umsagnar Náttúruverndarstofnunnar.“
Afgreiðsla: Nefndin gerir ekki athugasemd við að stöðuleyfi verði veitt fyrir salernunum en beinir því eftir sem áður til skipulagsfulltrúa að hann afli umsagnar Náttúruverndarstofnunar enda er svæðið á náttúruminjaskrá.
Fundi lauk 9:56