Fara í efni

Umhverfisnefnd

330. fundur 17. mars 2025 kl. 08:15 - 09:58 fundarsal bæjarstjórnar að Austurströnd 2, Seltjarnarnesi

330. fundur Umhverfisnefndar haldinn í fundarsal bæjarstjórnar á bæjarskrifstofunni, þriðjudaginn 18. mars 2025 kl. 8:15

Mættir: Grétar Dór Sigurðsson, Hannes T. Hafstein, Guðrún Brynja Vilhjálmsdóttir, Stefán Bergmann og Magnea Gylfadóttir

Fundarritari: Gunnlaugur Jónasson skipulags- og byggingarfulltrúi

Dagskrá:

1. 2024060033 – Erindi um Saunavagn.

Eftirfarandi erindi barst sveitarfélaginu og var tekið fyrir á fundi nefndarinnar í september: „Sótt er um heimild til að staðsetja svokallaðan sánavagn á bílastæði við vesturenda Suðurstrandar. Ætlunin er að bjóða upp á Sauna upplifun, þar sem að fólk kemur saman, upplifir hita sánunnar í þremur lotum og kælir úti undir berum himni, í sjó eða vatni á milli hverrar lotu. Hver Sauna “gusa” sem leidd er af fagaðila hverju sinni tekur um u.þ.b eina klukkustund. Svona sauna “gusur” njóta mikilla vinsælla í Evrópu, m.a í Finnlandi, Danmörku, Þýskalandi og Noregi og má sjá þær við hafnir í Kaupmannahöfn og Oslo svo eitthvað sé nefnt. Þessi aldargamla hefð er talin mjög heilsueflandi bæði fyrir líkama og sál. Fordæmi fyrir slíkri starfsemi er í Reykjavík þar sem að ferða Sauna er rekin bæði við Skarfaklett sem og við Ægisíðu."

Þá bókaði nefndin: Bókun: Umhverfisnefnd felur formanni að kanna nánar eðli og umfang fyrirhugaðrar starfsemi.

Afgreiðsla: Nefndin telur ekki æskilegt að atvinnustarfsemi sé við friðlandið en setur sig ekki á móti því að einstakir viðburðir fari þar fram utan varptíma, að undangengin umsókn.

2. 2025030125 Þurrasalerni við golfvöll.
Borist hefur erindi frá Golfklúbbi Seltjarnarness það sem óskað er eftir leyfi til að setja upp þurrsalerni á golfvelli félagsins.

Afgreiðsla: Umhverfisnefnd leggst ekki gegn hugmyndinni en óskar eftir frekari gögnum, meðal annars um nákvæmari staðsetningu og hæðarsetningu í landi, áður en endanleg ákvörðun er tekin. Einnig telur nefndin nauðsynlegt að afla umsagnar Náttúrverndarstofnunar.

3. 2024030006 – Stækkun bílastæðis við golfvöll.

Fjallað var um málið á 324. og 327. fundum nefndarinnar. Á 327. fundi var bókað: „Niðurstöðu fuglatalningarskýrslu Jóhanns Óla Hilmarssonar fuglafræðings er að vænta fyrir áramót, nefndin telur rétt að bíða eftir niðurstöðu um áhrif aðgerða.“ Skýrslan hefur nú borist og var fjallað var um hana á 329. fundi nefndarinnar.

Afgreiðsla: Nefndin telur að ekki sé komin nægjanleg reynsla af tilraunum að mótvægisaðgerðum, sem farið var í síðastliðið vor, það er að setja út sandfláka fyrir kríuvarp neðan við fyrirhugaða stækkun bílastæðis. Nefndin felur sviðsstjóra að láta bæta við sandflákann í vor og óska eftir umsögn Náttúrverndarstofnunnar um framkvæmdina.

4. 2025030013 Fuglatalning og undirbúningur fyrir varp.

Nú líður að voru og ekki seinna vænna að hefja undirbúning fyrir varp og minna á þau vorverk sem vinna þarf í því sambandi. Árið 2024 var í heildina nokkuð gott fyrir fuglalífið, þrátt fyrir fremur kalt vor og sumar. Menn og fuglar lifðu í sátt og samlyndi og engir stórárekstrar urðu milli þeirra eins og fram kemur í skýrslu Jóhann Óli Hilmarsson vann fyrir nefndina. Nú þarf að fara að huga að skipulagningu á fuglatalningu og vöktun fyrir sumarið 2025.

Agreiðsla: Nefndin felur Jóhanni Óla Hilmarssyni, fuglafræðingi, að framkvæma fuglatalningu í sumar. Vel tókst til með verndaraðgerðir og fuglatalningu á síðasta ári og leggur nefndin til að því góða starfi verði fylgt eftir. Fuglatalning er eini mælikvarðinn sem nefndin hefur til að fylgjast með fuglavarpi, fæðuöflun, afráni o.fl. Nefndin óskar eftir því að bæjarráð veiti fjármagni í verkið. Sviðsstjóra er falið að óska eftir fjárheimild vegna fuglatalningar.

5. 2025020110 – Saurgerlavöktun og sýnataka neysluvatns

Borist hafa niðurstöður úr reglubundinni sýnatöku á neysluvatni á Seltjarnarnesi 2024 og mælingar á saurgerlavöktun í sjó.

Afgreiðsla: Málinu frestað.

6. 2025030127 – Sjóvarnargarðar og skemmdir eftir stórviðri

Sjóvarnargarðar umhverfis Seltjarnarnes skemmdust víða í stórviðrinu um daginn. Starfsmenn bæjarins hafa unnið að hreinsun á svæði bæjarins meðfram ströndinni og lagfæringum á strandstígnum sem víða brotnaði úr. Sjóvarnargarðar eru víða laskaðir og er stórt verkefni að lagfæra þá. Eins vaknar spurning hvort ráðast þurfi í úrbætur til að verja nesið betur fyrir flóðum í framtíðinni.

Afgreiðsla: Umhverfisnefnd telur að skapast hafi víðtækari skilnningur á hættu af sjávarflóðum á Seltjarnarnesi í ljósi nýlegra atburða og á nauðsyn markvissari vinnubragða til varnar byggðinni.

Umhverfisnefnd telur að verja þurfi alla strandlengju Seltjarnarness og bæta hönnun varnargarða og strandstíga.

Stefnumörkun bæjarins þarf að vera skýr og samskiptin við Vegagerðina markviss og tryggja þarf aðkomu fjárveitingarvaldsins að verkefninu með nýjum hætti.

 

Fundi slitið 09:58

Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?