327. fundur Umhverfisnefndar haldinn í fundarsal bæjarstjórnar á bæjarskrifstofunni, þriðjudaginn 17. september 2024 kl. 16:30
Mættir: Grétar Dór Sigurðsson, Hannes T. Hafstein, Guðrún Brynja Vilhjálmsdóttir, Magnea Gylfadóttir og Stefán Bergmann.
Fundarritari: Helga Hvanndal Björnsdóttir
Dagskrá:
1. 2024060033 - Erindi um sánavagn á bílastæði við enda Suðurstrandar
Skipulags- og umferðarnefnd hefur vísað eftirfarandi máli til umhverfisnefndar (152. fundur, dagskrárliður 8):
"Sótt er um heimild til að staðsetja svokallaðan sánavagn á bílastæði við vesturenda Suðurstrandar. Ætlunin er að bjóða upp á Sauna upplifun, þar sem að fólk kemur saman, upplifir hita sánunnar í þremur lotum og kælir úti undir berum himni, í sjó eða vatni á milli hverrar lotu.
Hver Sauna “gusa” sem leidd er af fagaðila hverju sinni tekur um u.þ.b eina klukkustund. Svona sauna “gusur” njóta mikilla vinsælla í Evrópu, m.a í Finnlandi, Danmörku, Þýskalandi og Noregi og má sjá þær við hafnir í Kaupmannahöfn og Oslo svo eitthvað sé nefnt.
Þessi aldargamla hefð er talin mjög heilsueflandi bæði fyrir líkama og sál.
Fordæmi fyrir slíkri starfsemi er í Reykjavík þar sem að ferða Sauna er rekin bæði við Skarfaklett sem og við Ægisíðu."
Bókun: Umhverfisnefnd felur formanni að kanna nánar eðli og umfang fyrirhugaðrar starfsemi.
2. 2024060043 - Saurgerlavöktun 2024
Niðurstöður mælinga á strandsjó frá heilbrigðiseftirliti HEF í ágúst 2024.
Bókun: Lagt fram til kynningar.
3. 2024050193 - Girðing meðfram fuglavarpi á Vestursvæðum
Umhverfisstofnun hyggst setja upp girðingu meðfram Bakkatjörn með hópi sjálfboðaliða í lok september.
Bókun: Umhverfisnefnd fagnar viðleitni Umhverfisstofnunar til að vernda friðlandið og tekur vel í verkefnið.
4. 2024030006 - Stækkun bílastæðis við golfvöll
Áframhaldandi umfjöllun um fyrirhugaða stækkun bílastæðis við golfvöll að beiðni Nesklúbbsins.
Bókun: Niðurstöðu fuglatalningarskýrslu Jóhanns Óla Hilmarssonar fuglafræðings er að vænta fyrir áramót, nefndin telur rétt að bíða eftir niðurstöðu um áhrif aðgerða.
5. 2024090152 - Niðurtekt loftlínu við Ráðagerði
Til stendur að leggja raflínu í jörðu frá Ráðagerði og að bílastæði við Snoppu. Sömuleiðis á að leggja raflínu í jörð frá Snoppu yfir í borholu 12. Setja á deilistöð við Ráðagerði og skilgreina lóð undir hana.
Bókun: Umhverfisnefnd leggst gegn því að staurar og línur verði fjarlægðar, enda veldur framkvæmdin þá minna raski, auk þess sem tekið er tillit til minjaverndar og sögu Seltjarnarnesbæjar. Áhrif þess á fuglalíf liggja heldur ekki fyrir.
6. 2024090153 - Rekstraröryggi Gróttuvita bætt
Veitur færa rafstreng sem er skemmdur og í hættu vegna ágangs sjávar við landtökuna. Grafa þarf um 40 metra við landtöku við Albertsbúð til að tryggja rafmagn fyrir eyjuna. Vitinn verður tengdur við jarðstreng sem þegar er til staðar. Við Vitavarðarhúsið og vitann sjálfan þarf að grafa holur til að tengja við strenginn sem liggur þar.
Samhliða þessu mikilvæga verki fyrir rekstur vitans sem er nauðsynlegur fyrir öryggi sjófarenda verður loftlínan í Gróttu sjálfri tekin niður. Þá eru grafnar litlar holur við staurana tvo til að ná þeim upp.
Það stendur ekki til að taka niður staura sem eru á milli Gróttu og lands.
Gengið verður frá öllu yfirborði að verki loknu og unnið í samræmi við kröfur umhverfisstofnunar í eynni.
Vinnusvæði: Við Albertsbúð, Vitavarðarhús, Fræðasetur og Gróttuvita.
Tímaáætlun: September og október 2024
Bókun: Umhverfisnefnd bendir Veitum á mikilvægi þess að bæjaryfirvöld, og þar með talin umhverfisnefnd, séu höfð með í ráðum áður en framkvæmdir í friðlandi Gróttu eru skipulagðar. Á sama hátt og að því varðar 5. dagskrárlið fundargerðar leggst umhverfisnefnd gegn því að staurar og línur verði fjarlægðar, enda veldur framkvæmdin þá minna raski, auk þess sem tekið er tillit til minjaverndar og sögu Seltjarnarnesbæjar. Áhrif þess á fuglalíf liggja heldur ekki fyrir.
7. 2024090154 - Minkaveiðar á Seltjarnarnesi sumarið 2024
Samantekt um minkaveiðar sumarið 2024.
Bókun: Umhverfisnefnd telur augljóst að vöktun meindýraeyðis hafi sannað gildi sitt og þakkar Guðmundi Björnssyni meindýraeyði fyrir vel unnin störf.
8. Önnur mál
Umhverfisnefnd ræddi ástand bekkja við strandlengjuna og telur tímabært að huga að viðhaldi.
Eins er nauðsynlegt að fjölga ruslatunnum við strandlengjuna og bæta við á Valhúsahæð við rólóvöll.
Umhverfisnefnd stefnir á að taka saman verkefnalista fyrir næsta fund.
Umhverfisnefnd þakkar Helgu Hvanndal Björnsdóttir fyrir gott samstarf og óskar henni velfarnaðar á nýjum vettvangi.
Fundi slitið 18:18.