Fundinn sátu: Jónmundur Guðmarsson, Gunnar Lúðvíksson, Inga Hersteinsdóttir, Petrea I. Jónsdóttir og Sunneva Hafsteinsdóttir frá skólanefnd og Guðbjörg Jónsdóttir fulltrúi starfsfólks, Kristjana Stefánsdóttir leikskólafulltrúi og Margrét Harðardóttir grunnskólafulltrúi, fulltrúi foreldra mætti ekki á fundinn.
Dagskrá:
1. Tillaga um hækkun á leikskólagjöldum. Formaður lagði fram bréf frá bæjarstjóra (Fskj. 58-99). Í bréfinu kemur fram að fjárhags- og launanefnd Seltjarnarness samþykkti með 2 atkvæðum gegn 1 á fundi sínum hinn 14.09. sl. að mæla með því við bæjarstjórn að leikskólagjöld verði hækkuð um 20%. Óskað var eftir umfjöllun skólanefndar um málið og að nefndin gerði bæjarstjórn grein fyrir afstöðu sinni.
Leikskólafulltrúi lagði fram greinargerð yfir fjölgun leikskólakennara (Fskj. 59-99). Í greinargerðinni kemur m.a. fram að við gerð fjárhagsáætlana hefur verið miðað við að rekstrarkostnaði leikskólanna væri jafnt skipt á milli foreldra og bæjarsjóðs. Þá kemur fram að síðan 1. nóvember 1998 hefur stöðugildum leikskólakennara fjölgað úr 12,30 í 21,20 en einnig hafi átt sér stað fjölgun annarra starfsmanna leikskólanna.
Að loknum umræðum samþykkti Skólanefnd svofellda ályktun með 4 atkvæðum gegn 1 atkvæði minnihlutans:
“Á fundi sínum hinn 16. september s.l. fjallaði skólanefnd Seltjarnarness um ákvörðun fjárhags- og launanefndar um að mæla með 20% hækkun leikskólagjalda við bæjarstjórn frá og með 1. október n.k.
Í minnisblaði frá bæjarstjóra, dags. 15. september s.l., kemur fram að samkvæmt útreikningum bæjarritara er heildar hækkunarþörf gjaldskrár leikskóla 29.8% á ársgrundvelli, einkum vegna stóraukinnar þjónustu við fatlaða leikskólanemendur, stórfjölgun menntaðra leikskólakennara, fjölgun sérfræðinga og umframsamninga við ófaglært starfsfólk skólanna.
Skólanefnd fagnar fyrir sitt leyti, þeirri auknu og bættu þjónustu sem börn í leikskólum á Seltjarnarnesi munu njóta í kjölfar ofangreindra breytinga. Það er stefna skólanefndar að leikskólar, sem og aðrar skólastofnanir, séu mannaðar fagmenntuðu og öðru hæfu starfsfólki. Markmiðið er að börn njóti fyrsta flokks þjónustu í leikskólum bæjarins og fjölgun fagfólks og ánægðir starfsmenn eru meðal lykilatriða í þeirri viðleitni. Skortur á hæfu starfsfólki hefur um langt skeið verið vandamál í leikskólakerfinu ekki síst nú í ár þegar sum sveitarfélög hafa neyðst til að skerða þjónustu sína verulega og jafnvel senda börn heim. Að leikskólar á Seltjarnarnesi hafi á sama tíma getað bætt þjónustu sína við bæjarbúa er sérstakt fagnaðarefni og undirstrikar hið góða starf sem þar er unnið.
Þó er ljóst að betri þjónusta og umfangsmeiri rekstur hefur í för með sér aukinn kostnað, enda óraunhæft að ætla annað ef vilji stendur til þess að rekstrarkostnaði bæjarfélagsins og opinberum álögum á bæjarbúa sé haldið í lágmarki.
Tillaga fjárhags- og launanefndar kveður á um umtalsverða hækkun á gjaldskrá leikskólanna sem því miður mun leggja auknar byrðar á herðar þeirra foreldra sem kjósa að nýta sér þjónustu leikskólanna. Um leið er mikilvægt að hafa í huga að kostnaður bæjarfélagsins af starfsemi leikskóla er allt að helmingi meiri en tekjur af dvalargjöldum og ríkt hefur sátt um það fyrirkomulag. Á hinn bóginn er ljóst að auknum útgjöldum þarf að mæta með einhverjum hætti.
Skólanefnd tekur að athuguðu máli undir tillögu fjárhags- og launanefndar. Með 29.8% hækkun dvalargjalda hefði hlutur bæjarfélagsins og foreldra náð jafnvægi að nýju. Þrátt fyrir það telur skólanefnd eðlilegt að bæjarfélagið standi straum af auknum kostnaði vegna þjónustu við fötluð börn, enda er litið svo á að um eðlilega samfélagsþjónustu sé að ræða, sem ekki beri að leggja á herðar foreldra leikskólabarna. “
2. Guðbjörg Jónsdóttir fulltrúi starfsfólks og aðstoðaleikskólastjóri Mánabrekku þakkaði stuðning skólanefndar fyrir ferðastyrk til að kynna sér tónlistarkennslu.
Fundi um málefni leikskóla slitið og tekið til við málefni grunnskólans.
3. Lagðar fram óskir um skólavist í Landakotskóla og Tjarnaskóla.
Grunnskólafulltrúa falið að svara á grundvelli gildandi samþykkta.
4. Lögð fram greinargerð kennara og skólastjóra v/stjórnsýslukæru nemenda í Mýrarhúsaskóla.
Fundi slitið 13.15
Fundarritari var Gunnar Lúðvíksson
Jónmundur Guðmarsson (sign)
Gunnar Lúðvíksson (sign)
Inga Hersteinsdóttir (sign)
Sunneva Hafsteinsdóttir (sign)
Petrea I. Jónsdóttir (sign)