Fara í efni

Skólanefnd

327. fundur 28. júní 2023

327. (150) fundur skólanefndar var haldinn miðvikudaginn 28. júní 2023, kl. 08:15 í sal bæjarstjórnar Seltjarnarness

Mættir voru: Dagbjört Snjólaug Oddsdóttir, Grétar Dór Sigurðsson, Guðmundur H. Þorsteinsson, Karen María Jónsdóttir, Eva Rún Guðmundsdóttir, Kristjana Hrafnsdóttir, skólastjóri Grunnskóla Seltjarnarness, Harpa Frímannsdóttir, fulltrúi kennara Grunnskóla Seltjarnarness, Skúli Eiríksson, fulltrúi foreldra við Grunnskóla Seltjarnarness og Baldur Pálsson, sviðsstjóri fjölskyldusviðs.

Fundi stýrði: Dagbjört Snjólaug Oddsdóttir.

Fundargerð ritaði: Baldur Pálsson.

Dagskrá:

1. 2023050109 - Tölvu- og tækjakostur í Grunnskóla Seltjarnarness

Samantekt um tölvumál í Grunnskóla Seltjarnarness var lögð fram og óskir skólans um næstu skref í þeim málum kynntar.

Skólanefnd mælir með því að komið verði til móts við tillögu A vegna Valhúsaskóla auk þess að óskum varðandi Mýrarhúsaskóla verði mætt, með fyrirvara um samþykki bæjarráðs. Skólanefnd mælist einnig til þess að gerð verði áætlun til næstu fimm ára um UT-mál skólans og að henni verði vísað í gerð fjárhagáætlunar.

2. 2023060159 - Erindi til skólanefndar vegna ráðninga að Grunnskóla Seltjarnarness

Erindið lagt fram.

Í tilefni af framkomnu erindi og á grundvelli heimildar í f-lið 1. mgr. 6. gr. laga nr. 91/2008 óskar skólanefnd eftir því að skólastjóri grunnskóla Seltjarnarness veiti upplýsingar um eftirfarandi atriði:

  1. Í hvaða stöður kennara og eða leiðbeinanda var ráðið á tímabilinu mars t.o.m. maí 2023 í grunnskóla Seltjarnarness? Óskað er eftir upplýsingum um stöður og fjölda stöðugilda og skulu endurráðningar meðtaldar.
  2. Hvernig var staðið að undirbúningi að ráðningu í viðkomandi stöður. Voru stöður t.a.m. auglýstar? Hvernig er almennt staðið að undirbúningi að ráðningu í stöðu kennara annars vegar og leiðbeinenda hins vegar?
  3. Á grundvelli hvaða sjónarmiða er almennt ráðið í stöður? Voru ráðningar á umræddu tímabili í samræmi við þau sjónarmið?
  4. Hvernig er almennt staðið að framlengingu ráðningarsambands/endurráðningu?

Óskað er eftir að svör verði veitt á næsta fundi skólanefndar.

Bókun:

Vísbendingar um að ráðningarferli og uppsagnir innan grunnskóla Seltjarnarness séu ekki í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti. Um ráðningu starfsmanna sveitarfélaga gilda sveitarstjórnarlög, kjarasamningar og stjórnsýslulög. Einnig óskráðar meginreglur stjórnsýsluréttar t.d. réttmætisreglan sem kveður á um að allar ákvarðanir stjórnvalda verði að byggjast á málefnalegum sjónarmiðum. Enn fremur þarf við ráðningar að gæta jafnræðis og samræmis í lagalegu tilliti. Úr innsendum gögnum málsins má lesa að munnlegt samkomulag hafi líklega verið gert um áframhald þess ráðningarsambands sem hér um ræðir. Samningar eru almennt ekki formbundnir samkvæmt íslenskum rétti. Þeir eru jafngildir hvort sem þeir eru munnlegir eða skriflegir. Því hafi reglur mögulega verið brotnar við riftingu ráðningasambandsins, sem hefði þurft að vera skriflegt.

Þá er það álitamál hvort rannsóknarreglunni hafi verið beitt með málefnalegum hætti þ.e. hvort rannsókn hafi sannarlega leitt í ljós neikvæða niðurstöðu á faglegri hæfni málsaðila eins og rökstuðningur stjórnenda ber með sér, í ljósi þess að starfsþróunarsamtal við sama aðila fól í sér jákvæða umsögn. Þá leiddi samkvæmt gögnum mat á kennslu viðkomandi sem framkvæmt var af stjórnanda ekki af sér leiðbeinandi samtal með það að leiðarljósi að gefa aðila færi á því að breyta sínu vinnulagi. Þá er líklegt að meðalhófs hafi ekki verið gætt þegar þeirri röksemd er beitt að um skipulagsbreytingar sé að ræða, þar sem störf voru ekki lögð niður og ný störf með öðrum verkefnum tekin upp þeirra í stað. Þá er ljóst að sá aðili sem hér um ræðir stefndi á kennaranám í þeim tilgangi að fá leyfisbréf og helga sig starfinu.

Laus störf skal auglýsa sbr. ákvæði kjarasamninga en auglýsingin felur í sér upphaf á einstaka máli sem miðar að því að tekin verði stjórnvaldsákvörðun, um hvern skuli ráða í starfið úr hópi umsækjenda. Úr gögnum málsins má lesa að á meðan ráðningarferlinu stóð, hafi auglýstri stöðu mögulega verið úthlutað til einstaklinga sem sóttu ekki formlega um og voru því ekki aðilar málsins en slíkt er skýrt brot á jafnræðisreglu stjórnsýslulaga. Ekki er hægt að lesa úr gögnunum um hvort um ótímabundinn ráðningasamning var að ræða eða framlengingu á núverandi samningi þessara einstaklinga en um framlengingu tímabundinna samninga gildir samkvæmt lögum um tímabundnar ráðningar starfsmanna, að óheimilt er að framlengja slíkan samning þannig að hann vari samfellt lengur en í tvö ár.

Vegna þess hversu samfélagið á Seltjarnarnesi er lítið og tengslin mikil þá beina Samfylkingin og óháðir því til bæjarstjórnar að fenginn verði óháður aðili til að framkvæma stjórnsýsluúttekt á framkvæmd ráðninga og uppsagna hjá grunnskóla Seltjarnarness almennt og koma með tillögur að úrbótum sé þess þörf. Slíkt er mikilvægt ekki síst til að gefa hagaðilum vissu til framtíðar að stjórnsýsla skólans og málsmeðferðir og stjórnsýsluákvarðanir sem af því hljótast séu réttmætar.

Karen María Jónsdóttir, Eva Rún Guðmundsdóttir.

3. 2023060154 - Sérkennsla í Grunnskóla Seltjarnarness

Erindið lagt fram.

Skólanefnd vill bíða viðbragða mennta- og barnamálaráðuneytisins vegna erindisins áður en eitthvað verður aðhafst frekar vegna málsins.

Bókun:

Samkvæmt upplýsingum var notkun "gula herbergisins" í grunnskóla Seltjarnarness eitt þeirra mála sem sent var til frekari rannsóknar hjá menntamálaráðuneytinu í kjölfar frumkvæðisrannsóknar umboðsmanns Alþingis fyrir um fjórum árum. Í framhaldinu eða árið 2021 úrskurðaði ráðuneytið svo að notkun slíkra herbergja í grunnskólum samræmist ekki lögum og var farið fram á að notkun þeirra yrði hætt þegar í stað. Nú hafa borist upplýsingar um að sambærilegu herbergi hafi enn á ný verið komið upp í grunnskóla Seltjarnarness og að börn séu færð þangað og haldið gegn vilja sínum.

Á það hefur ítrekað verið bent af fagaðilum að úrræði sem þetta hafi andstæð áhrif á skynhverf börn (neurodivergent), þar sem beiting þeirra sé jafnan viðbragð við ástandi þar sem barn er í mikilli vanlíðan í stað þess að vera sú fyrirbyggjandi forvörn og vernd gegn áreiti sem slík börn þurfa mun frekar á að halda. Þannig verður slíkt herbergi úrræði fyrir skólann en ekki fyrir börnin. Alvarlegast er þó að engin pólitísk umræða hefur farið fram um beitingu slíks úrræðis, og þá íþyngjandi ákvörðun að meina barni aðgangi að kennslustund, hvort pólitískur vilji sé yfir höfuð til að brúka slíkt og þá undir hvaða kringumstæðum, samkvæmt hvaða ferlum, hvaða verklag beri að handhafa, hvernig standa skuli að skráning og skjölun atvikanna og mati á þeirri hættu sem orsakast hefði af athafnaleysi, hvað þá eftirlit með framkvæmdinni.

Samfylkingin og óháðir fara fram á að herberginu verði lokað að sinni. Málið verði sett á dagskrá bæjarstjórnar þar sem tekin verði ákvörðun um hvort úrræðinu skuli framhaldið og þá hvernig.

Karen María Jónsdóttir, Eva Rún Guðmundsdóttir.

Fyrirspurn:

  • Hversu mörg börn í grunnskóla Seltjarnarness hafa verið tekin út úr kennslu og leidd inn í hvíldarherbergi eða "gula herbergið" svokallaða?
  • Hversu oft var úrræðinu beitt á hvert þessara barna og hvenær á skólagöngunni?
  • Hversu mörg tilvik hafa kallað á tvo eða fleiri starfsmenn til beitingar úrræðisins?
  • Hversu mörg tilvik hafa falið í sér líkamlegt inngrip?
  • Hverskonar atvik leiddu til beitinu úrræðisins í hverju tilfelli fyrir sig.

Óskað er eftir að upplýsingarnar nái annarsvegar yfir tímabilið janúar 2015 t/m desember 2021 eða þegar herberginu var lokað í kjölfar úrskurðar menntamálaráðuneytisins. Hinsvegar frá því að nýtt hvíldarrými var opnað þangað til þess dags sem þessi fyrirspurn er lögð fram.

Karen María Jónsdóttir, Eva Rún Guðmundsdóttir.

Bókun:

Meirihluti fulltrúa í skólanefnd áréttar að Skólastjóri Grunnskóla Seltjarnarness staðfesti á fundi skólanefndar í dag að ekkert slíkt herbergi væri til staðar í skólanum eða notað undir neinum kringumstæðum. Skólastjóri fer með einstaklingsbundin nemendamál og er það ekki hlutverk skólanefndar að fjalla um mál einstakra nemenda. Samþykkt Seltjarnarnesbæjar kveður ekki á um kæruheimild til skólanefndar og þykir því rétt að hvetja skólastjóra til að leiðbeina foreldrum nemandans varðandi kæruleið til mennta- og barnamálaráðuneytisins.

Dagbjört Snjólaug Oddsdóttir, Grétar Dór Sigurðsson og Guðmundur H. Þorsteinsson.

4. 2023060150 - Málefni einhverfra barna í Grunnskóla Seltjarnarness

Skólastjóri svaraði fyrirspurnum um málefni einhverfra barna.

Fleira var ekki tekið fyrir á fundinum.

Fundi slitið kl. 10:00.

Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?