Fara í efni

Skólanefnd

01. apríl 2020
305. (128) fundur skólanefndar var haldinn miðvikudaginn 1. apríl 2020, kl. 08:00 sem fjarfundur.

Mættir voru: Sigrún Edda Jónsdóttir, Ragnhildur Jónsdóttir, Guðmundur H. Þorsteinsson, Hildur Ólafsdóttir, Karl Pétur Jónsson, Ólína Thoroddsen, skólastjóri Grunnskóla Seltjarnarness, Elísabet Ingunn Einarsdóttir, fulltrúi foreldrafélags Grunnskóla Seltjarnarness, og Baldur Pálsson, fræðslustjóri.

Fundi stýrði Sigrún Edda Jónsdóttir
Fundargerð ritaði Baldur Pálsson

  1. Takmörkun á skólastarfi vegna farsóttar -málsnr. 2020030164.
    Fræðslustjóri gerði grein fyrir stöðu skólastarfs og gangi mála í marsmánuði.
    Skólanefnd þakkar stjórnendum, kennurum og öðru starfsfólki leikskóla, grunnskóla, frístundar, tónlistarskóla og félagsmiðstöðvar fyrir þeirra framlag við erfiðar aðstæður í skólastarfi á undanförnum vikum.
  2. Úhlutun til Grunnskóla Seltjarnarness skólaárið 2020-2021 -málsnr. 2020020075.
    Skólanefnd samþykkti tillögu að úthlutun með fyrirvara um samþykki bæjarráðs.
  3. Félagsmiðstöðin Selið, fyrirkomulag starfsemi -málsnr. 2020030165.
    Rætt var um fyrirkomulag starfsemi Félgasmiðstöðvarinnar Selins.

    Bókun meirihluta í skólanefnd Seltjarnarnesbæjar:
    Við viljum árétta að við munum standa vörð um frístunda- og æskulýðsstörf á Seltjarnarnesi í framtíðinni líkt og við höfum ávallt gert. Starfsemi Selsins er mikilvægur hlekkur í forvarnarstarfi í bæjarfélaginu og þar verður engin breyting á.
    Við viljum nota tækifærið og þakka Margréti Sigurðardóttur, fráfarandi forstöðumanni, æskulýðsstarfs fyrir hennar framlag til uppbyggingar á öflugu starfi í samstarfi við aðrar stofnanir bæjarins og íþróttafélagið Gróttu.
    Bókun minnihluta skólanefndar Seltjarnarness

    Fulltrúar minnihlutans í skólanefnd lýsa furðu sinni á ófaglegum vinnubrögðum bæjaryfirvalda gagnvart því góða faglega starfi sem unnið hefur verið í æskulýðsstarfi á Seltjarnarnesi um árabil. Sú ákvörðun bæjarstjóra að skera niður starfshlutfall forstöðumanns Selsins án samráðs við fagnefnd hefur leitt til þess að æskulýðsfulltrúi hefur sagt upp störfum eftir 20 ára brautryðjandastarf í þágu barna, unglinga og eldri borgara á Seltjarnarnesi.

    Æskulýðsfulltrúi reyndi að berjast fyrir því að forstöðumaður Selsins yrði áfram í 100% stöðugildi og þar með yrði framhald á því mikilvæga forvarnarstarfi sem byggt hefur verið upp. Hún sýndi fram á hvernig það yrði ódýrara fyrir sveitarfélagið í vetur og til lengri tíma. Ekki var hlustað, ekki var leitað til fagnefndar og stóð bæjarstjóri fastur á sinni ákvörðun þrátt fyrir að öll rök mæltu gegn henni. Í kjölfarið sögðu forstöðumaður Selsins og forstöðumaður Skjólsins einnig upp störfum.
    Það er ólíðandi að ákvarðanir um faglegt starf séu teknar á skrifstofu bæjarstjóra án aðkomu fagnefndar. Forvarnargildi æskulýðsstarfs er ótvírætt og bæjaryfirvöld hljóta að gera sér grein fyrir því að ákvörðun bæjarstjóra hefur að endingu valdið skipbroti tveggja áratuga uppbyggingarstarfs. Ákvörðun bæjarstjóra mun á endanum skila sér í auknum kostnaði sveitarfélagsins.
    Nú liggur fyrir að allir fagmenntaðir stjórnendur æskulýðsstarfs á Seltjarnarnesi hafa sagt upp störfum og framtíð æskulýðsstarfs er í fullkominni óvissu. Skólanefnd stendur því frammi fyrir því verkefni að endurreisa faglegt æskulýðsstarf á Seltjarnarnesi. Lykilforsenda faglegs æskulýðsstarfs er að fá til starfa öflugt fagfólk og verður það ekki gert með hlutastörfum, óljósri umgjörð og óvissu um skuldbindingu sveitarfélagsins gagnvart starfinu.
    Á þessum síðustu og verstu tímum öðlast sífellt fleiri í samfélagi okkar skilning á gildi þess að treysta fagfólki. Það er von okkar að bæjarstjóri geri það einnig framvegis.
    Hildur Ólafsdóttir
    Karl Pétur Jónsson
Fleira var ekki tekið fyrir á fundinum.
Fundi var slitið kl. 9:40.

Sigrún Edda Jónsdóttir 
Guðmundur H. Þorsteinsson 
Ragnhildur Jónsdóttir 
Karl Pétur Jónsson 
Hildur Ólafsdóttir
Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?