Fara í efni

Skólanefnd

04. júlí 2018

291. (114) fundur skólanefndar var haldinn miðvikudaginn 4. júlí 2018, kl. 08:00 í fundarsal bæjarstjórnar Seltjarnarness.

Mættir voru: Sigrún Edda Jónsdóttir, Ragnhildur Jónsdóttir, Guðmundur H. Þorsteinsson, Hildur Ólafsdóttir, Björn Gunnlaugsson, Margrét Gísladóttir, aðstoðarleikskólastjóri Leikskóla Seltjarnarness, Sveinn Guðmarsson, fulltrúi Foreldraráðs Leikskóla Seltjarnarness og Baldur Pálsson, fræðslustjóri.

Fundi stýrði Sigrún Edda Jónsdóttir

Fundargerð ritaði Baldur Pálsson

  1. Fundir nýrrar skólanefndar 2018.
    Nýir fundartímar skólanefndar 2018 voru ákveðnir 15. ágúst, 19. september, og 7. nóvember.
  2. Kjör varaformanns skólanefndar 2018-2022.
    Ragnhildur Jónsdóttir var kjörin varaformaður skólanefndar.
  3. Inntaka barna í Leikskóla Seltjarnarness 2018.
    Skólanefnd felur formanni skólanefndar og fræðslustjóra að vinna með tillögur sem fram komu á fundinum til að leggja þær fyrir bæjarráð.

Fulltrúi foreldraráðs Leikskóla Seltjarnarnness lagði fram bókun undir 3. dagskrárlið.

Nú standa yfir framkvæmdir við lóð Leikskóla Seltjarnarness svo hægt sé að koma þar upp svokölluðum færanlegum kennslustofum fyrir yngsta aldurshópinn. Þótt takist að ljúka þessum framkvæmdum áður en leikskólastarfið hefst á ný eftir sumarleyfi hefur enn ekki tekist að ráða fólk til starfa á þessum nýju deildum.

Margir foreldrar sem fyrr á árinu fengu vilyrði bæjaryfirvalda um pláss fyrir börn sín eru enn í óvissu um hvenær leikskólaaðlögun þeirra getur hafist. Nokkrir úr þessum hópi sögðu upp plássi hjá dagforeldrum í trausti þess að þessi fyrirheit yrðu efnd. Þessir foreldrar sjá nú fram á verulegan vanda ef ekki tekst að tryggja börnum þeirra pláss strax að loknum sumarleyfum.

Fjölgun barna á Seltjarnarnesi er ekki óvænt heldur er um fyrirsjáanlega þróun að ræða sem margoft hefur verið vakin athygli á. Sú staðreynd að nú sé verið að koma upp færanlegum kennslustofum er ekki til marks um að þær viðvaranir hafi verið teknar alvarlega.

Foreldraráð Leikskóla Seltjarnarness lýsir yfir áhyggjum af þeirri óvissu sem nú er uppi um dvöl yngsta aldurshópsins á leikskólanum næsta skólaár. Foreldraráðið væntir þess að bæjaryfirvöld taki á þessari stöðu af festu og án tafar svo þeir foreldrar sem fengu ádrátt um leikskólapláss næsta ár verði búnir að fá úrlausn sinna mála svo fljótt sem auðið er.

Sveinn Guðmarsson, fulltrúi Foreldraráðs

Fulltrúar minnihluta í skólanefnd lögðu fram tillögur undir 3. dagskrárlið.
Tillögur Samfylkingar Seltirninga og Viðreisnar/Neslista vegna inntöku barna í Leikskóla Seltjarnarness haustið 2018.

Ljóst er að hörð samkeppni er um leikskólakennara milli sveitarfélaga. Nágrannasveitarfélögin eru sum hver að bjóða styttri vinnuviku og launahækkanir til að laða að starfsfólk. Í ljósi þess að enn hefur ekki fengist fólk til starfa í Leikskóla Seltjarnarness til að standa megi við gefin loforð um fjölgun plássa við skólann leggja Samfylking og Viðreisn/Neslisti til eftirfarandi til að auka líkur á að starfsfólk muni ráða sig við skólann:

1. Vinnuvika leikskólakennara verði stytt niður í 35 tíma á viku.
2. Starfsfólk eigi frí milli jóla og nýárs og í dymbilviku. Lágmarksþjónusta verði þó tryggð en foreldrar greiði sérstaklega fyrir slíkt og starfsfólki bjóðist að vinna á yfirvinnutaxta.
3. Hækkun launa leikskólakennara um fjóra launaflokka skv. launatöflu FL.

Hildur Ólafsdóttir - Samfylkingu Seltirninga
Björn Gunnlaugsson - Viðreisn/Neslista

Fulltrúar minnhluta í skólanefnd lögðu fram bókun undir 3. dagskrárlið.
Bókun Samfylkingar Seltirninga og Viðreiksnar/Neslista vegna inntöku barna í Leikskóla Seltjarnarness haustið 2018.

Fulltrúar Samfylkingar og Viðreisnar/Neslista telja þau vinnubrögð sem fjölskyldum leikskólabarna hefur verið boðið upp á vegna inntöku barna haustið 2018 óásættanleg.

Í fyrsta lagi var það tilkynnt á fundi skólanefndar þann 18. apríl 2018, án samráðs við leikskólastjóra og skólanefnd, að boð um pláss hefði verið send út, foreldrar væru búnir að staðfesta að taka plássum og að samtals yrðu 233 börn í Leikskóla Seltjarnarness haustið 2018. Þetta þýðir að börnum í Leikskóla Seltjarnarness fjölgar um 21, en leikskólinn er nú þegar yfirfullur með of mörgum börnum á hverri deild. Að auki var tilkynnt að skort á húsnæði ætti að leysa með færanlegum kennslustofum með tveimur deildum, en engar frekari útfærslur lágu fyrir á þessum tímapunkti, hvað þá að tryggt hefði verið að starfsfólk fengist til að manna nýjar deildir.

Þannig var búið að lofa plássum fyrir 21 barn sem í raun var ekki til húsnæði fyrir, né starfsfólk til að kenna börnunum.

Í öðru lagi voru send út ný bréf eftir kosningar sem sem fram kom að óljóst væri hvenær börnin fengju pláss. Óvissan var tilkomin vegna þess að ekki hafði tekist að manna þær stöður sem fyrirhuguð stækkun leikskólans hefði í för með sér.

Nú hefur einnig komið í ljós að færanlegar kennslustofur koma mánuði seinna en vonast hafði verið til og því er ekki möguleiki á að opna nýjar deildir fyrr en í byrjun september, það er að segja ef starfsfólk fæst.

Ljóst er að staða sem þessi kemur harkalega niður á þeim fjölskyldum sem eiga í hlut. Telja fulltrúar minnihluta nefndarinnar að heiðarlegra hefði verið að bíða með loforð þar til ljóst væri að tækist að manna leikskólann. Í ljósi stöðunnar gefur hins vegar auga leið að nauðsynlegt er að beita öllum tiltækum ráðum til að laða að starfsfólk svo standa megi við gefin loforð.

Hildur Ólafsdóttir – Samfylkingu Seltirninga
Björn Gunnlaugsson – Viðreisn/Neslista

Fleira var ekki tekið fyrir á fundinum. Fundi var slitið kl. 9:30.

Sigrún Edda Jónsdóttir (sign.)

Hildur Ólafsdóttir (sign.)

Ragnhildur Jónsdóttir (sign.)

Björn Gunnlaugsson (sign.)

Guðmundur H. Þorsteinsson (sign.)

Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?