Mættir: Inga Hersteinsdóttir, Ingimar Sigurðsson, Sólveig Pálsdóttir, Guðrún Helga Brynleifsdóttir og Stefán Bergmann, auk þess sat fundinn Einar Norðfjörð framkvæmdastjóri tæknisviðs.
Fundargerð ritaði Ingimar Sigurðsson
Dagskrá:
1. Fundur settur
2. Aðalskipulag. Breyting á aðalskipulagi Seltjarnarness 1981-2001 á svæðinu við Hrólfsskálamel og Suðurströnd.
3. Önnur mál.
4. Fundi slitið
1. Fundur settur af formanni kl. 17:20
2. Lögð fram að nýju tillaga að breytingu á Aðalskipulagi Seltjarnarness 1981-2001, Hrólfsskálamelur/Suðurströnd. Tillagan var auglýst frá 23. júlí 2004 til 20. ágúst 2004. Einnig voru lagðar fram umsagnir um athugasemdir við aðalskipulagstillöguna, en athugasemdirnar voru lagðar fram á fundi skipulags- og mannvirkjanefndar 16. september 2004.
Formaður leggur fram eftirfarandi tillögu:
“Skipulags- og mannvirkjanefnd Seltjarnarness samþykkir áður auglýsta tillögu að breytingu á Aðalskipulagi Seltjarnarness 1981-2001, Hrólfsskálamelur/Suðurströnd, með þeim breytingum að heildarfjöldi íbúða á öllu svæðinu verði lækkaður úr 180 í 150 og að hámarksnýtingarhlutfall (NH) á svæði við Suðurströnd verði lækkað úr 0,85 í 0,7 (bílageymslur neðanjarðar ekki meðtaldar).
Jafnframt er óskað eftir að umrædd breyting á Aðalskipulagi ásamt umsögnum við athugasemdum verði tekin fyrir á aukafundi í bæjarstjórn hið fyrsta.”
Ofangreind breytingartillaga ásamt með umsögnum um athugasemdir, samþykkt með atkvæðum meirihluta, fulltrúar minnihlutans greiða atkvæði á móti og leggja fram eftirfarandi bókun:
“Fulltrúar Neslistans í Skipulags- og mannvirkjanefnd getum ekki fallist á umsögn ráðgjafanna og meirihluta sjálfstæðismanna í nefndinni við athugasemdum sem borist hafa frá bæjarbúum vegna kynningar á aðalskipulagi Seltjarnarness og leggjum fram eftirfarandi bókun:
Við teljum í fyrsta lagi að mörgum athugasemdum hafi ekki verið svarað og má þar t.d. nefna að ekkert er vikið að þeirri athugasemd að aðalskipulag skuli hafa forgang í skipulagsvinnunni. Þá er lítið fjallað um einkenni miðsvæðis á hluta Hrólfskálamels og tengsl Hrólfsskálamels við Eiðistorg.
Þá erum við ekki sammála þeim rökum sem koma fram um staðsetningu gervigrasvallar. Þau rök sem kynnt eru gilda einnig um gervigrasvöll þar sem fótboltavöllur er í dag. Fulltrúar Neslistans í skipulags- og mannvirkjanefnd hafa aldrei samþykkt núverandi legu vallarins þversum á Hrólfsskálamel.
Við teljum varhugavert að ákveða þéttingu byggðar á Suðurströnd og Hrólfsskálamel án þess að kanna aðra möguleika, sem væri gert ef aðalskipulagið væri skoðað í heild.
Þá erum við ósammála því að verið sé að bæta umferðaflæði að skólum og íþróttamiðstöð. Við erum einnig ósammála svari um möguleika á viðbyggingum við skóla.
Þá teljum við að svara eigi með fullnægjandi hætti þeim alvarlegu athugasemdum sem birtast í þeirri fullyrðingu að núverandi aðalskipulag sé ekki í gildi.
Fulltrúar Neslistans telja að fram komnar tillögur til breytinga á aðalskipulaginu gangi ekki nægilega langt miðað við eðli og fjölda þeirra athugasemda sem borist hafa frá bæjarbúum.”
Guðrún Helga Brynleifsdóttir Stefán Bergmann
3. Lagt fram bréf frá Ágústi Kr. Björnssyni f.h. Húsfélagins á Eiðistorgi 5.
4. Fundargerð upplesin og samþykkt og fundi slitið kl. 17:42
Inga Hersteinsdóttir (sign) Ingimar Sigurðsson (sign)
Guðrún Helga Brynleifsdóttir (sign) Stefán Bergmann (sign)
Sólveig Pálsdóttir (sign)