Fara í efni

Skipulags- og umferðarnefnd

30. ágúst 2016

46. fundur Skipulags- og umferðanefndar, föstudaginn 30. ágúst, 2016, kl. 8:00 að Austurströnd 2 á Seltjarnarnesi.

Mætt: Bjarni Torfi Álfþórsson, Anna Margrét Hauksdóttir, Ragnhildur Ingólfsdóttir, Ásgeir Guðmundur Bjarnason, Stefán Bergmann, Kristinn H. Guðbjartsson, byggingarfulltrúi og Páll Gunnlaugsson ASK, Árni Geirsson, Alta

Fundarstjóri: Bjarni Torfi Álfþórsson.  Fundarritari: Kristinn H. Guðbjartsson

 

Skipulagsmál samkvæmt Skipulagslögum nr. 123/2010

 

  1. Mál.nr. 2014060035

Heiti máls: Aðalskipulagstillaga til auglýsingar.

Lýsing:  Aðalskipulagstillaga til umfjöllunar fyrir S&U.

Afgreiðsla: Samþykkt að senda til staðfestingar bæjarstjórnar, skv. 30. gr skipulagslaga. nr. 123/2010.

Ragnhildur og Stefán sátu hjá og lögðu fram eftirfarandi bókun:

 

Skipulags og umferðarnefnd hefur ekki rætt tillögu að endurskoðuðu aðalskipulagi í rúmt ár. Nú er til þess ætlast að verkinu ljúki strax. Meginástæðan er þörf fyrir að skilgreina og staðfesta lóð fyrir hjúkrunarheimili eftir athugasemdir Skipulagsstofnunar þar um. Ábendingum undirritaðra um þetta efni var ekki sinnt af bæjaryfirvöldum (sjá bókanir í skipulagsnefnd). Við viljum  ekki hefta  framgang hjúkrunarheimilisins, en teljum aðrar áhættuminni leiðir um tafir á framgangi aðalskipulagsins færar til að ljúka þessu lóðarmáli, ef vilji er fyrir hendi.

Gerð aðalskipulags er mikilvægt verkefni í hverju sveitarfélagi. Það þarf að marka stefnu um fjölmargt. Sumt er unnt að setja fram með skýrum hætti eftir góðan undirbúning á grunni réttra upplýsinga eða hafna hugmyndum eftir athugun eins og gert hefur verið með landfyllingar við gerð fyrirliggjandi aðalskipulagstillögu.  Í einstaka þáttum skipulags getur verið mikilvægt vegna heildarhagsmuna að taka minni skref, þegar gögn vantar og  forsendur umræðu og undirbúnings  liggja ekki fyrir nema að litlu leyti. Þessi skref geta verið einstök markmið, lýsing á nauðsyn, leiðbeiningar, vísun á leiðir og þætti sem vinna þarf með í stað þess að sleppa slíkum þáttum í aðalskipulagi. Þögnin og tómið  vísar ekki á neitt. Þetta þarf að gera út frá heildarsýn og sameiginlegum hagsmunum. Ef  aðalskipulags-tillagan verður tekin út af borðinu  núna verða mikilvæg umfjöllunarefni skilin eftir í  óvissri stöðu.

Rök: Af þessum ástæðum er afleitt að láta skilgreiningu lóðar hjúkrunarheimilis stöðva markvissari frágang  nýs aðalskipulags á Seltjarnarnesi.

 

  1. Athafnasvæði. Við undirrituð getum ekki   fallist á tillögu um að festa í aðalskipulagi  athafnasvæði áhaldahúss 5500m2 svæði og að auki sérstakt jarðefnageymslusvæði yfir 5000 m2 að stærð.

Rök: a. Sérstök nefnd fékk það verkefni að skilgreina og finna lausnir fyrir  umrædda starfsemi. Nefndin hefur haldið einn fund og ekki skilað  neinum efnislegum gögnum né sýnt frumkvæði að skipulegri leit að lausnum eftir greiningu á þörfum. Þetta verk þarf að vinna með aðstoð kunnáttufólks og fá fram rökstuddar tillögur. b. Athafnasvæðið er á hverfisvernduðu svæði skv. gildandi deiliskipulagi og tillögu að nýju deiliskipulagi. Mat á áhrifum athafnasvæðisins hefur ekki farið fram út frá viðmiðum hverfisverndar. Athafnasvæðið  mun hafa margvísleg áhrif á Vestursvæðið og byggðina næst því. Það hamlar gerð útivistarstígs frá safnasvæðinu (Nesstofu) að Snoppu sbr. deiliskipulag Vestursvæðis og skerðir því upplifun af samfellu sögu, menningar (safnasvæðið) og náttúru á einum áhugaverðasta hluta Vestursvæðisins; það hefur neikvæð áhrif á nýja byggð í Bygggörðum og framkallar óæskilega umferð á þessum stað. Tillagan er því ekki í samræmi við heildarsýn gildandi aðal- og deilskipulags fyrir Vestursvæðið.

  1. Miðsvæði. Sérstök nefnd vinnur að gerð skipulagsforsagnar fyrir miðsvæðin þrjú, (M-1, M-2 og M-3). Í forsögninni er stefnumörkun bæjar/skipulagsyfirvalda lýst. Forsögnin fjallar m.a. um framtíðarstefnu varðandi uppbyggingu og landnotkun á svæðunum og á að vera leiðbeinandi/ráðgefandi fyrir vinnslu við endurskoðun aðalskipulags og nýtt deiliskipulag.

Rök: Bíða þarf eftir niðurstöðum nefndarinnar,  kanna og ræða einstaka þætti betur með framtíðarsýn í huga á uppbyggingu, þróun samfélagsins og nýja Borgarlínu almenningssamgangna.

  1. Hjólastígur um Vestursvæðið. Um er að ræða útivistarstíg fyrir hjólandi og gangandi. Hann er ekki hluti af grunnkerfi hjólreiða í aðalskipulagi, en það liggur um Norðurströnd, Lindarbraut og Suðurströnd, og er ekki í gildandi deiliskipulagi Vestursvæðis. Þörf er nákvæmari skoðunar og stefnumörkunnar, í það minnsta ákveðin skref í samræmi við sett markmið.

 Rök: a. Vegna breytinga á aðstæðum  á svæðinu, mikillar fjölgunar ferðamanna, landþrengsla (Snoppa sérstaklega) og breytinga á hjólreiðum vegna þjálfunar sem einkennast  af hraðari yfirferð stórra hópa hjólreiðafólks, og hefur þegar skapað slysahættu á Snoppu. b. Svæðið er hverfisverndað en því hefur ekki  verið sinnt nema varðandi minjar og er háð framkvæmdaleyfi, sem ekki hefur verið veitt að hætti góðrar stjórnsýslu, en öðrum áhrifum  mannvirkisins og notkunar þess á Vestursvæðið hefur verið sleppt.  c. Fagnefndir hafa ekki verið hafðar með í ráðum. d. Vinnuhópur um ferðamenn á Nesinu mun skila niðurstöðum um suma þætti málsins á næstunni, m.a. hugmyndum um breytingar á skipulagi á svæðinu.

  1. Þétting byggðar. Skýrari línur um þéttingu byggðar á öðrum svæðum en á miðsvæðum er skref sem ætti að taka. Við endurskoðun aðalskipulags er nauðsynlegt að skilgreina þéttingarsvæði í þegar byggðu hverfi.

Rök: Til að auðvelda skipulagsyfirvöldum að bregðast við hugmyndum um þetta efni eftir gildistöku aðalskipulagsins.

  1. Við endurskoðun aðalskipulags er einnig nauðsynlegt að marka stefnu og setja fram sérstök ákvæði í bílastæðamálum. (bílastæði/bílastæðahús/bílastæðakjallari). Meta verður raunverulega þörf út frá talningum, rannsóknum og mati á þéttleika byggðar og aðstæðum eftir hverfum og götum. Setja þarf lágmarkskröfur um bílastæði og nánari ákvæði varðandi ásýnd og gæði byggðar m.a. til að lágmarka áhrif bílastæða á götumyndina og neikvæðra áhrifa á umhverfið.

Rök: Til að auðvelda skipulagsyfirvöldum m.a. að ákvarða fjölda bílastæða í deiliskipulagi.

  1. Strandsvæði og grunnsævi. Fyrstu skref varðandi  heildstæða stefnu fyrir strandsvæði og grunnsævi varðandi nýtingu, hlutverk og eiginleika í  samræmi við samþykkta  landskipulagsstefnu alþingis.

Rök: Tímabært er að vinna með þetta út frá heildarsýn og hagsmunum allra.

 

                                          Stefán Bergmann,  Ragnhildur Ingólfsdóttir

 

Bjarni Torfi lagði fram bókun fyrir hönd meirihlutans:

Athafnasvæðið er buið að vera á þessu svæði í fjölda ára án þess að vera á skipulagi og þrátt fyrir margra ára vinnu við að reyna að finna því stað þá hafa engar tillögur komið fram um aðra staðsetningu. Tillagan varðandi E1 er tímabundin sem tryggir að bæjaryfirvöld þurfa að finna aðra lausn á þeim tíma sem heimilaður er í tillögunni.

Skipulagslögin segja um endurskoðun aðalskipulags, að eftir hverjar sveitarstjórnarkosningar meti sveitarstjórn hvort ástæða sé til að endurskoða aðalskipulag.  Við upphaf þessa kjörtímabils var tekin ákvörðun í bæjarstjórn að fara í endurskoðun á gildandi aðalskipulagi. Við þá samþykkt ákvað bæjarstjórn að skoða hvort forsendur núverandi aðalskipulags hefðu breyst og hvort framfylgd aðalskipulagsins hafi gengið eftir eins og að var stefnt. Þá er enduskoðuðu skipulagi ætlað að takast á við nýjar áskoranir ogverkefni sem þarf að bregðast við.

Ferli endurskoðunnar á aðalskipulaginu hefur verið samkvæmt þeim lögum og reglum sem um það gildir og kynning á vinnunni til íbúa sömuleiðis. Í ferlinu hefur verið leitað umsagnar Skipulagsstofnunar og annarra umsagnaraðila eins og mönnum er kunnugt um.

Nú þegar afgreiðsla á endurskoðuðu skipulagi er samþykkt hefur verið tekið tillit til athugasemda sem fram hafa komið frá umhverfisnefnd og öðrum aðilum. Skipulagið verður nú sent til auglýsingar og þar gefst, samkvæmt lögum og reglum, enn og aftur tækifæri fyrir íbúa og aðra til að gera athugsemdir.

 

Önnur mál

Byggingamál samkvæmt Mannvirkjalögum nr. 160/2010.

 

 

  1. Mál.nr. 2016050267

Heiti máls: Sæbraut 1 umsókn um viðbyggingu við einbýlishús.

Málsaðili: Oliver Luckett

Lýsing:  Uppdrættir sýna áform byggingu lítið eitt útfyrir byggingareit.

Afgreiðsla: Engar athugasemdir bárust í grenndarkynningu. Samþykkt að senda til bæjarstjórnar til staðfestingar.

 

  1. Mál.nr. 2016030048

Heiti máls: Melshúsatún deiliskipulags breyting fyrirspurn v/Hrólfsskálavarar 2

Málsaðili: Stúdíó Granda, Margrét Harðardóttir

Lýsing: Spurt um möguleika á breytingu deiliskipulagsskilmála fyrir stækkun á byggingarreit og einbýlishúsi.

Afgreiðsla:. Engar athugasemdir bárust í grenndarkynningu. Samþykkt að senda til bæjarstjórnar til staðfestingar.

 

 

  1. Mál.nr. 2016010031

Heiti máls: Kolbeinssstaðamýri, deiliskipulagsbreyting vegna Litla- og Stóra Áss.

Málsaðili: Fag Bygg ehf.

Lýsing: Beiðni er komin fram um niðurrif á  Litla Ási og Stóra Ási, sem standa við Eiðismýri 17-19 og Suðurmýri 36-38.

Afgreiðsla:. Samþykkt, enda aðaluppdrættir langt komnir.

 

 

 

 

Fundargerð lesin og samþykkt.

Fleira ekki tekið fyrir og fundi slitið kl. 9.18.

Bjarni Torfi Álfþórsson sign, Anna Margrét Hauksdóttir sign, Ragnhildur Ingólfsdóttir sign, Ásgeir Guðmundur Bjarnason sign,  Stefán Bergmann sign.



Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?