188. fundur Skipulags- og mannvirkjanefndar, fimmtudaginn 6.júní, 2013, kl.8:00 að Austurströnd 2, Seltjarnarnesi.
Boðaðir:
Nefnd: Bjarni Torfi Álfþórsson, Anna Margrét Hauksdóttir, Friðrik Friðriksson, Halldór Þór Halldórsson, Stefán Bergmann.
Þórður Ólafur Búason, skipulags- og byggingarfulltrúi
Fundarstjóri: Bjarni Torfi Álfþórsson Fundarritari: Þórður Ólafur Búason
Umferðar og hafnarmál
- Mál.nr. 2013050042
Heiti máls: Smábátahöfn og sjóvarnir
Lýsing: Bæjarverkfræðingur óskar framkvæmdaleyfa til að halda áfram gerð varanargarða við Smábátahöfn eftir upphaflegri hönnun Lofts Árnasonar.
Afgreiðsla: Samþykkt með þremur atkvæðum gegn tveimur að veita framkvæmdaleyfi til að ljúka syðri garði samkvæmt teikingum Lofts Árnasonar frá 1988 og bæjarverkfræðing falið að hafa eftirlit með framkvæmdum og úttekt á lokafrágangi .
Halldór Þór Halldórsson lagði fram eftirfarandi bókun:
Fram hefur á komið á fundinum að vikið var verulega frá hönnun Lofts Árnasonar 1988 á tillögu um höfnina við framkvæmdir á þeim tíma. Ekkert hefur verið upplýst um samþykki bæjaryfirvalda á framkvæmdinni. Einnig liggur fyrir fundinum uppmælingarteikning Verkfræðistofunnar Hnit af höfninni frá 1994 sem sýnir hvernig garðar voru framkvæmdir. Þar koma fram veruleg frávik. Lagt er til að Verkfræðistofunni Hnit eða öðrum fullgildum hafnarhönnuði verði falið að meta framhald framkvæmda.
Einnig voru fyrirliggjandi tillögur Siglingastofnunar frá 2008 sem sýna verulega umfangsmeiri bátahöfn og frágang með öðrum hætti en tillagan 1988. Ítrekuð er bókun á 187. fundi um vinnslu deiliskipulags fyrir hafnarsvæðið með tilheyrandi kynningum fyrir bæjarbúum. Bæjarstjóri Seltjarnarness kynnti á sínum tíma höfnina sem litla aðstöðu fyrir björgunarsveit og rennu í sjó fram til þess að sjósetja björgunarbúnað án legukanta eins og sjá má á teikningu frá 1988.
Stefán Bergmann lagði fram eftirfarandi bókun:
Undirritaður áréttar að enn er margt óljóst um hönnun smábátahafnarinnar. Eðlilegt er að umsögn Siglingastofnunarinnar liggi fyrir og staðfesting á samþykkt bæjaryfirvalda á Seltjarnarnesi á tillögu frá 1988 að framkvæmdum við smábátahöfnin áður en lengra er haldið.
Bjarni Álfþórsson lagði fram eftirfarandi bókun:
Undirritaður fagnar löngu tímabærum framkvæmdum við smábátahöfnina, en hún hefur ekki náð að þjóna tilgangi sínum sem skyldi fram til þessa. Það er von mín að þessar framkvæmdir geti orðið til þess að smábátaeigendur get nýtt höfnina í meira mæli þegar framkvæmdum líkur. - Mál.nr. 2013050042
Heiti máls: Grótta og sjóvarnir
Lýsing: Bæjarverkfræðingur óskar framkvæmdaleyfa til að bæta sjóvarnir sem Siglingastofnun lét gera við Gróttu og hafa látið á sjá.
Afgreiðsla: Skipulags- og mannvirkjanefnd óskar eftir frekari gögnum frá Bæjarverkfræðingi um framkvæmd áður en ákvörðun verður tekin.
Friðrik Friðriksson vék af fundi kl 9:15
Skipulagsmál - Mál.nr. 2012080003
Heiti máls: Deiliskipulag Vesturhverfis breyting vegna Miðbrautar 34
Málsaðili: Árný Davíðsdóttir
Lýsing: Umfang þakhækkunar hefur verið markað með listum og snúrum á húsið til skoðnunar fyrir nefndina.
Afgreiðsla: Nefndin hefur kynnt sér málavexti og hafnar áformum um hálfa efri hæð vegna grenndaráhrifa.
Önnur mál - Mál.nr. 2013020052
Heiti máls: Deiliskipulag Bygggarðahverfis endurauglýsing.
Lýsing: Stefán Bergmann og Ragnhildur Ingólfsdóttir óska eftir að meðfylgjandi bókun komi fram um drög að svörum við athugasemdir sem fram komu á 187. fundi Skipulags- og mannvirkjanefndar:
Afgreiðsla: Lagt fram.
Bókun í tilefni svarbréfa við athugasemdum við tillögu að deiliskipulagi Bygggarðahverfis:
Við stöndum frammi fyrir afleiðingum samnings sem bæjarstjórn gerði við Þyrpingu um Bygggarðasvæðið áður en farið var í lögbundna deiliskipulagsvinnu og án umsagna fagnefnda. Byggingarmagn er mikið og ásýnd svæðisins sker sig úr í umhverfinu. Suma annmarka samningsins hefur tekist að milda við útfærslu. Þessi samningur setti lögboðið ferli skipulagsvinnu í erfiða stöðu og skerti íbúalýðræði sem skipulagslög eiga að tryggja í skipulagsferlinu. Þetta er vinnulag sem ekki má endurtaka í nokkurri mynd.
Enn eru virk ákvæði í samningnum sem geta reynt verulega á Seltjarnarnesbæ. Þannig geta núverandi eigendur krafið Seltjarnarnesbæ um að kaupa upp fasteignir og taka þær eignarnámi, sjá samkomulagið frá 5.09.11. Hætt er við að þetta reynist flókið og átakafullt fyrir sveitarfélagið.
Ef lítil sveitarfélög eins og Seltjarnarnes eiga að standast stórum einkaaðilum snúning þurfa þau að standa á sínu og vanda sína skipulagsvinnu í hvívetna. Spyrja má hvort enn sé ekki svigrúm til að losa um og breyta umræddum samningi sem gerður er á hæpnum lagaforsendum að margra mati.
Stefán Bergmann Ragnhildur Ingólfsdóttir - Mál.nr. 2012110022
Heiti máls: Deiliskipulag Lambastaðahverfis endurauglýsing
Lýsing: Stefán Bergmann og Ragnhildur Ingólfsdóttir óska eftir að meðfylgjandi bókun komi fram um drög að svörum við athugasemdir sem fram komu á 187. fundi Skipulags- og mannvirkjanefndar:
Afgreiðsla: Lagt fram.
Bókun um fjölda bílastæða í tilefni svara við athugasemdum við tillögu að deiliskipulagi Lambastaðahverfis.
Fjölda bílastæða skal nú ákvarða í deiliskipulagi. Seltjarnarnesbær á að setja sér markmið um að vera til fyrirmyndar hvað þetta varðar. Mikið vantar á framtíðarsýn í þessum málum og að hugsa hlutina til enda. Meta verður raunverulega þörf út frá rannsóknum og mati á þéttleika byggðar og aðstæðum eftir hverfum og götum. Seltjarnarnesbær verður að setja sér lágmarkskröfur um fjölda bílastæða þegar kemur að nýbyggingum. Kaupendur íbúða eiga að hafa val um það hvort þeir vilji kaupa bílastæði í kjallara/lóð eða ekki. Því ætti að gera ráð fyrir a.m.k. helmingi bílastæða í kjallara að Skerjabraut 1-3 í nýju deiliskipulagi Lambastaðahverfis. Ef ekki er hægt að leysa bílastæðamál á lóð þá sýnir það augljóslega að byggingarmagn á lóðinni er of mikið. Það hafa undirrituð reyndar bent á oft áður.
Ragnhildur Ingólfsdóttir Stefán Bergmann
Fundargerð upplesin og samþykkt. Fleira ekki tekið fyrir og fundi slitið kl. 9:30
Bjarni Torfi Álfþórsson (sign), Anna Margrét Hauksdóttir (sign), Friðrik Friðriksson (sign), Halldór Þór Halldórsson (sign), Stefán Bergmann (sign), Ragnhildur Ingólfsdóttir (sign)